Seabear og Amiina í Bæjarbíói

28. júlí 2009 · Fært í Á líðandi stund 

Íslensku hljómsveitirnar Seabear og Amiina koma fram á tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði annað kvöld. Seabear hefur ekki komið fram á tónleikum síðan í október á síðasta ári; sagan segir að sveitin hafi verið önnum kafin við að taka upp plötu sem er væntanleg í janúar á næsta ári. Þá er nokkuð liðið frá því að Amiina kom fram hér á landi ef frá eru skildir tónleikar þar sem sveitin kom fram ásamt Shugo Tokumaru í Norræna húsinu fyrir fáum vikum.

Seabear og Amiina nálgast báðar popptónlist á varfærinn hátt og lágstemmdan, og Bæjarbíó er fullkomið fyrir tónleika af þessu tagi. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til frábærra tónleika sem fóru fram fyrir fimm árum þegar Slowblow og múm leiddu saman hesta sína í sama húsi.

Við bætist að miðarnir eru á gjafverði, aðeins 1500 krónur.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og miðasala fer fram í 12 tónum við Skólavörðustíg.