Það liggur í rauninni beint við að gera eins og Robert Wilson í Eddu, sem sýnd var í Borgarleikhúsinu í gær á Listahátíð, að byrja hana í svarta myrkri: Ár var alda, það er ekki var, segir í Völuspá, var þar hvorki sandur né sær né svalar unnir … Við sátum sem sé þarna í sjálfu Ginnungagapi og það var djúp og þrungin þögn í húsinu. Drykklanga stund – uns tók að birta. Sköpun heims var hafin. Sýningin kemur frá Norska leikhúsinu í Osló og er leikin á (ný)norsku en sungin að mestu á ensku.
Edda Wilsons er gríðarmikið sjónarspil en þó sérkennilega hrein, stílfærð í gegn í litum, hreyfingum og leik. Þegar ég loka augunum núna sé ég grábláan aðallit, mikið grátt, silfrað og svo sterklit smáatriði, rauða pönkkambinn á Loka hinum lævísa (Eivin Nilsen Salthe), fjólublá samkvæmisföt systkinanna Freyju og Freys (Renate Reinsve og Ola G. Furuseth), glitrandi brjóstin á Frigg (Marianne Krogh), gyllta leppinn fyrir hægra auga Óðins (Henrik Rafaelsen) … Ótrúlega fögur sýning; ég finn ekki betra orð.
Hér eru okkur sagðar á alveg splunkunýjan og frumlegan hátt sögurnar um hina fornu norrænu guði sem skráðar voru á skinn á Íslandi á 13. öld, í bundnu og óbundnu máli. Meginheimild þeirra Jons Fosse handritshöfundar og Roberts Wilson leikstjóra og hönnuðar sýningarinnar er Völuspá, kvæðið makalausa um sköpun heimsins samkvæmt norrænni heiðni, vöxt hans og viðgang, tortímingu og endurreisn. En þeir nota líka m.a. Hávamál, Hymiskviðu, Þrymskviðu, Rígsþulu, Vafþrúðnismál og svo auðvitað Gylfaginningu Snorra-Eddu.
Aðalpersónur meginþráðar eru völvan sjálf (Gjertrud Jynge), stelpuleg og flissandi þótt hún sé bæði vitur og fróð, og Óðinn alfaðir, eineygður vegna óslökkvandi fróðleiksfýsnar, þjakaður af því sem hann veit að fyrir muni koma en dansar sig þó og syngur gegnum sýninguna af afslöppuðu og sjarmerandi kæruleysi. Þau voru bæði góð dæmi um þann kontrapunkt eða samhljómandi andstæður sem er leiðarljós Wilsons í sýningunni.
Inn á milli sýna völvunnar eru okkur sýndar og sagðar margar sögur úr þessum sagnasjóði. Til dæmis veiðum við Miðgarðsorm með Þór (Frode Winther) og Hymi jötni (Jon Bleiklie Devik) – þar var grafíkin svo áhrifamikil að maður trúði varla eigin augum. Hamri Þórs er stolið eins og segir frá í Þrymskviðu en til að einfalda málin lætur Fosse Hymi stela honum í stað Þryms og losnar þar með við eina persónu. Það var óborganleg sena þegar Hymir eltir Freyju hring eftir hring í kringum risastórt kúrekastígvél á sviðinu og tekur ekki eftir því, jötunsbjálfinn, þegar Þór er allt í einu kominn í stað Freyju. Enda hefur Þór klætt sig í bláan síðkjól til að villa um fyrir honum. Þegar bláklæddur Þór gerir sig líklegan til að kyssa Hymi réttir jötunninn honum hamarinn í ástleitinni auðmýkt – og fær hann í hausinn með það sama! Hér má skjóta því inn að búningar allir og leikgervi voru ákaflega hugvitsamlega hönnuð af Jacques Reynaud og Manu Halligan.
Sögurnar voru túlkaðar af endalausri fjölbreytni og mætti nefna mörg dæmi þess. Meðan sagt er frá ferðalagi Heimdallar (Paul-Ottar Haga) til þrennra hjóna, Áa og Eddu, Afa og Ömmu og Föður og Móður, þar sem Heimdallur barnar allar konurnar, sveiflaði Óðinn sér af heillandi fimi í furðulegum dansi frá einni hlið sviðsins til annarrar. Þetta gerði upptalninguna einkar hlægilega um leið og við vorum frædd um upphaf stéttaskiptingar í veröldinni. Endurtekning er notuð á skapandi hátt í sýningunni, sjálfsagt meðal annars til að hjálpa þeim sem ekki þekkja þessar sögur. Til dæmis er komið hvað eftir annað að dauða Baldurs og frásögn Friggjar móður hans af því þegar hún lætur allt efni sverja að meiða ekki son hennar er dásamlegt dæmi um andstæður hins harmræna og kómíska í sýningunni.
Húmorinn er auðvitað aðalsmerki þessarar sýningar og stundum framan af hrökk maður svolítið við. Var of langt gengið í gríninu? En þegar upp var staðið var yfirgnæfandi tilfinning að þessu dýrmæta efni hefði verið sýnd full virðing. Þar skipti miklu máli myndin af Ragnarökum og síðan hæg bátsferð Óðins og völvunnar yfir sviðið meðan hún lýsir framtíðarsýn sinni: „Sér hún upp koma öðru sinni jörð úr ægi iðjagræna. Falla fossar, flýgur örn yfir …“ Seiðmagnað.
Hér hefur ekki verið nefnd tónlist CocoRosie og Arvo Pärt sem er yfir og allt um kring, litrík og fjölbreytt, sem Valgeir Sigurðsson stýrir. Á köflum minnti Edda jafnvel á rokkóperu, oftar þó á sinfóníu.
Listahátíð í Reykjavík eru hér með færðar alúðarþakkir fyrir að færa okkur þessa gersemi. Edda verður lengi í minnum höfð.
-Silja Aðalsteinsdóttir