Það er ekki ónýtt að láta segja sér allt um handanheiminn á einu kvöldi, eins og gert er í spunaverkinu Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu núna undir stjórn Ítalans Rafaels Bianciotto. Trúðarnir Barbara, Gjóla, Úlfar og Za-ra hafa kynnt sér kvæðið Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante Alighieri og gera sitt besta til að endursegja okkur ófróðum þessa miklu sögu sem heimurinn hefur dáðst að í meira en sex hundruð ár. Þau segja hana algerlega á sinn hátt en halda þó öllum aðalatriðum hennar vel til haga.
Úlfar (Bergur Ingólfsson) leikur Dante sjálfan sem er niðurbrotinn maður í upphafi verks og á barmi sjálfsvígs. Bæði hefur hann orðið fyrir erfiðri ástarsorg af því æskuástin hans Beatrís (sem varð eiginkona annars manns) er dáin og vegna þess að hann er landflótta úr sinni hjartkæru heimaborg, Flórens. Gjóla (Harpa Arnardóttir) leikur Beatrís sem fylgist með því að ofan hvernig hjartans vini hennar líður og er ákaflega hnuggin yfir því. Barbara (Halldóra Geirharðsdóttir) leikur skáldið Virgil sem Beatrís ræður til að fylgja Dante gegnum handanheiminn til að hann sjái í sjónhending hvernig fer fyrir mönnunum. Þegar upp í himininn er komið eftir helvíti og hreinsunareld tekur Beatrís sjálf við leiðsögumannsstarfinu. Za-ra (Halla Margrét Jóhannesdóttir) leikur ýmsa engla sem Dante og Virgill hitta á leið sinni, og hinir trúðarnir bregða sér líka í önnur hlutverk eftir þörfum.
Þó að efniviðurinn sé langreyndur og óviðjafnanlegur er spunaverk af þessu tagi algerlega komið undir leikurunum. Þeir verða að hvíla af öryggi fyrst í hlutverkum trúðanna og skipta síðan átakalaust yfir í persónurnar sem trúðarnir leika. Aðeins með því móti verður gleðileikurinn guðdómlegur. Og það varð hann á frumsýningunni. Ég var alveg orðin tvöföld í sætinu af hlátri – um leið og vitsmunum mínum var ögrað með forvitnilegum upplýsingum og vangaveltum um örlög manna eftir dauðann.
Þó að sagan skipti mestu máli og fylli vel upp í tímann eru litlu viðbæturnar og útúrdúrarnir sem fylgja spunanum líka dýrmætir. Þar var Gjólan hennar Hörpu í stóru hlutverki því hennar var sambandið við áhorfendur. Þeir fengu jafnvel lítil ljóð frá henni ef þeir höfðu orðið fyrir hrekkjum eð hvekkst á einhvern hátt. Harpa naut þessara skyldustarfa í botn, en það má líka segja um öll hin. Þau voru hvert öðru æðislegra, og sýningin er dýrleg leikhúsreynsla sem ég hvet þá sem þetta lesa til að upplifa. Sýningafjöldi er takmarkaður og litla sviðið tekur ekki marga í sæti, þannig að þið skuluð drífa ykkur að panta miða.
PS Við Íslendingar eigum þýðingu á nokkrum kviðum úr hinum mikla bálki Dantes sem Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli í Hvítársíðu vann og gaf út fyrir 40 árum. Í leikskrá Dauðasynda eru birtar vísur úr þýðingu Guðmundar, m.a. endirinn á Paradísarljóðunum (og þar með kviðunni í heild), en svo hrapallega vill til að þar er þýðingin eignuð Böðvari, syni Guðmundar. Guðmundi er sjálfum réttilega eignuð þýðing á upphafi 1. kviðu fyrr í leikskránni.