„Það virðist ekki vera til nein fær leið til að sýna hörmulegar afleiðingar eyðni í Afríku á sviði,“ segir þýska leikskáldið Roland Schimmelpfennig í grein á netinu. „Ég er samt viss um að hún er til og ég reyndi að finna hana.“ Leið hans, Peggy Pickit sér andlit Guðs, var frumsýnd á litla sviði Borgarleikhússins á miðvikudagskvöldið í þýðingu Hafliða Arngrímssonar og undir stjórn Vignis Rafns Valþórssonar en við sáum sýninguna í gærkvöldi. Fáein verk Schimmelpfennigs hafa áður verið sýnd hér, einkum er Konan áður ennþá skýr í minningunni.
Lísa (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og Frank (Hjörtur Jóhann Jónsson) eru vel stæð læknahjón í vestrænni borg. Þetta kvöld fá þau vinahjón sín úr námi, læknana Katrínu (Maríanna Clara Lúthersdóttir) og Martein (Valur Freyr Einarsson) í heimsókn í fyrsta sinn í sex ár. Ástæðan fyrir sambandsleysinu er sú að Katrín og Marteinn hafa verið við störf í Afríku en eru nú komin heim. Þau virðast hafa farið þar frá sviðinni jörð, læknamiðstöðin og þar með allt þeirra starf hefur verið þurrkað út í óeirðum eða stríði. Lísa og Frank eiga eðlilega erfitt með að sjá stóru og skelfilegu heildarmyndina af ástandinu í Afríku þótt vinir þeirra reyni að setja þau inn í hana en einbeita sér að einstaklingi sem þau hafa tengst óbeint, stúlkubarninu Anní sem Katrín og Marteinn tóku að sér fárveika og Lísa og Frank hafa styrkt með peningum og gjöfum. Raunar er Lísa með gjöf tilbúna frá dóttur sinni til Anníar, fjöldaframleiddu brúðuna Peggy Pickit sem er úr alls konar plasti og gúmmíi og hægt að gera alls konar við. Mótleikur gestanna er handgerð tréstytta sem myndar stöðuga andstæðu við Peggy í meðförum persóna á sviðinu. Um Anní, um Karen dóttur Lísu og Franks og um sára reynslu Katrínar og Marteins í Afríku sem ekki sér fyrir endann á snúast samræðurnar um kvöldið.
Þetta er erfitt viðfangsefni og Schimmelpfennig tekur á því á frumlegan og athyglisverðan hátt. Eiginlega grípur hann til aðferða skáldsögunnar til að koma eins miklum upplýsingum, hugsunum, tilfinningum og skoðunum á framfæri á rúmri klukkustund og hægt er. Hann rýfur stöðugt yfirborðslegt og þvingað samtalið milli gömlu vinanna til að leyfa persónum að opna hug sinn beint fyrir okkur. Í þeim „innlitum“ fáum við talsvert alvarlegri upplýsingar, til dæmis um hjónaböndin og afstöðuna milli persónanna, en samtölin gefa okkur. Eftir hvert rof tekur hann upp þráðinn aftur með endurtekningu á síðustu replikkum á undan rofinu þannig að mörg aðalatriðin fáum við að sjá og heyra tvsivar, jafnvel oftar. Þetta er mögnuð aðferð til að sýna hvernig persónurnar ná aldrei raunverulega saman í samtali sínu og allt hjakkar í sama ófrjóa farinu.
Anna Rún Tryggvadóttir hefur búið sýningunni afar smekklegan búning frumlegs og ríkmannlegs nútímaheimilis með óvenjulegum og töff húsbúnaði. Bakveggurinn er grænn veggur úr lifandi plöntum af ótrúlega fjölskrúðugu tagi, sófinn er mjúk upphækkun sem klýfur gólfið þvert, „hægindastólarnir“ eru greinilega MJÖG óþægilegir! Búningar eru sömuleiðis viðeigandi og smart. Lýsing Þórðar Orra Péturssonar og hljóðmynd Garðars Borgþórssonar studdu vel við heildina.
Leikararnir hafa verið valdir af kostgæfni og þau hafa unnið afskaplega vel með leikstjóra sínum. Hvert og eitt þeirra bjó til sannfærandi manneskju sem varð stærri og dýpri en orðin sem hún fékk að segja á sviðinu og mætti ræða lengi um hvert fyrir sig. Smám saman kemur í ljós að þau eru svo ólík að maður undrast að þau skuli trúa því að þau séu vinir og sambönd hjónanna innbyrðis eru heldur ekki traustvekjandi. Þau birta okkur með hjálp Schimmelpfennigs skýrar og eftirtektarverðar myndir af okkur hér í vestrinu, máttleysi okkar þrátt fyrir góðan vilja, skilningsleysi okkar þrátt fyrir upplýsingasamfélagið sem við búum í, tilfinningaleysi okkar þrátt fyrir stór orð á alvörustundum. Vel gerð og eftirminnileg sýning.