Það var ekki seinna vænna fyrir mig að sjá Fjallabak í Borgarleikhúsinu því að nú eru aðeins tvær auglýstar sýningar eftir, en verkið var frumsýnt fyrir fimm vikum á Nýja sviði hússins. Leikskáldið Ashley Robinson byggir leikritið á þekktri smásögu eftir Annie Proulx sem einnig var efni ennþá frægari kvikmyndar fyrir tuttugu árum, Brokeback Mountain. Maríanna Klara Lúthersdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir þýða textann á sannfærandi alþýðlegt og svolítið gamaldags málsnið enda gerist verkið fyrir hálfri öld og aðalpersónurnar eru af fátækum bændaættum. Stefanía Adolfsdóttir velur viðeigandi fatnað handa kúrekunum og þeim sem þeir umgangast; lýsinguna sem oft skipti miklu máli hannaði Gunnar Hildimar Halldórsson og sviðið á Axel Hallkell Jóhannesson. Sjarmerandi hljóðmyndina sköpuðu þau Þorbjörn Steingrímsson, Esther Talía Casey í hlutverki söngkonu og gítarleikararnir Guðmundur Pétursson og Þorsteinn Einarsson. Leikstjóri er Valur Freyr Einarsson.
Sagan segir sögu tveggja kúreka, Ennis (Hjörtur Jóhann Jónsson) og Jacks (Björn Stefánsson), sem eru ráðnir saman í sauðfjárgæslu á fjöllum upp úr miðri síðustu öld, þá um tvítugt. Jack hrífst fljótlega af Ennis sem er tregari til en þegar hann lætur undan er hann hiklaus og ákveðinn þó að hann sé vissulega „enginn öfuguggi“, eins og hann tilkynnir Jack. Þeir eiga saman mánuð í frelsinu, þá eru þeir reknir með skömm af bústjóranum (Hilmir Snær Guðnason). Þeir sjást ekki í fjögur ár, þá leitar Jack Ennis uppi og næstu ár eiga þeir erfitt með að sjá hvor af öðrum þótt báðir séu kvæntir menn og feður. Sambandið vekur þeim vissulega sælu en veldur þeim oftar sorg og endalausum erfiðleikum í sambandi sínu við eiginkonurnar. Engir draumar þeirra rætast. Þetta er raunaleg saga sem snertir djúpt vegna þess að maður veit að hún er saga margra, fyrr og jafnvel nú.
Björn og Hjörtur Jóhann skapa skemmtilega ólíkar manngerðir úr kúrekunum sínum. Jack Björns hefur líklega lengi vitað að hann er hommi og pabbi hans hefur áreiðanlega líka vitað það og fyrirlitið son sinn þess vegna. En Jack er lífsglaður og léttlyndur gaur sem elskar að lifa á ystu nöf, og heillandi strákaleikir þeirra félaga á fjallinu komu oftast til að hans frumkvæði. Ennis Hjartar er dulari manneskja, bælir sínar heitu og sterku tilfinningar sem brjótast svo út þegar hann er einn. Hjörtur gerði þennan mann bæði aðdáunarverðan og brjóstumkennanlegan – um leið og maður skildi Jack vel að hrífast af þessum einstaklega gjörvilega karlmanni. Saman áttu þeir samúð mína alla.
Íris Tanja Flygenring lék Ölmu, eiginkonu Ennis, og sýndi vel þróunina frá hinni hamingjusömu, ástföngnu kærustu yfir í vansæla, tortryggna og svikna eiginkonu. Hennar líf verður heldur ekki eins og hún hafði séð fyrir sér og dreymt um. Hilmir Snær bregður sér í hlutverk þriggja ólíkra manna og vann þau vel þótt smá væru. Merkilegastur fannst mér stærðarmunurinn á bústjóranum og föður Jacks – það var hreinlega eins og leikarinn hefði bæði lækkað í loftinu og lést um ein þrjátíu kíló!
Fyrirfram var erfitt að ímynda sér hvernig ætti að endurskapa Fjallabak á sviði en mér fannst Axel Hallkeli takast það prýðilega. Hann gerði enga tilraun til að kalla fram fegurð fjallanna, tilfinningu fyrir náttúru og víðáttu gáfu stórkostleg myndbönd af skýjafari sem þustu hringinn í kring á veggjum salarins og þrumuveður mögnuðu upp við og við. Tjald og allur útilegubúnaður var óttalega fátæklegur en auk hans var á sviðinu allan tímann sá sviðsbúnaður sem þurfti á öðrum viðkomustöðum í verkinu. Á sviðinu miðju var svo upphækkaður pallur sem eins konar landslag og nýttist svo vel í hápunkti sýningar, ástarsenunni heitu þegar félagarnir hittast eftir langan aðskilnað.
Þetta er falleg og áhrifarík sýning sem gefur góðum leikurum tækifæri til að stíga djarflega út fyrir þægindarammann og sýna á sér nýjar og nýstárlegar hliðar. Það er gaman að sjá hvað henni hefur verið tekið vel.
Silja Aðalsteinsdóttir