Það er eitthvað dásamlegt við tilhugsunina um að leikskáldið sem skrifaði farsann Við borgum ekki, við borgum ekki hafi fengið sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Þetta er arfavitlaust verk að öllu leyti – nema boðskapnum auðvitað – en svo hryllilega fyndið að maður missir sig gersamlega. Eins og einhver trúi því að fullorðinn karlmaður taki trúanlegt að kona hans sé langt gengin með barn án þess að hann hafi hugmynd um það eða að hægt sé að skutla langt gengnu fóstri milli kvenna og sauma bara fyrir og allt í keiinu. En um leið og sé segi þetta fer ég sjálf að efast: er þetta kannski allt saman hægt??
Konurnar í leikriti Dario Fo sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi undir stjórn Þrastar Leós Gunnarssonar þykjast vera óléttar til að fela þýfi. Önnur þeirra, Antonía (Maríanna Clara Lúthersdóttir), hefur rænt matvörubúðina í hverfinu eins og aðrar konur þar til að mótmæla síhækkandi vöruverði. Hin, einfeldningurinn Margrét (Þrúður Vilhjálmsdóttir), lendir í því þvert gegn vilja sínum að hjálpa Antoníu að koma þýfinu undan, fyrst undir sófann heima hjá Antoníu og Jóhanni (Ari Matthíasson) og síðan í geymsluna heima hjá tengdapabba (hann var leikinn af Halldóri Gylfasyni eins og allar aðrar aukapersónur). Til að missa ekki fóstur milli staða bera þær stöllur heim grænmeti frá gamla manninum framan á sér. Flókið? Já, og þetta er nú minnst! Þegar spurt er út í skyndilega óléttu kvennanna kemur sér vel hvað Antonía er eldsnögg að búa til sögur, og Magga greyið reynir sitt besta til að fylgja henni eftir.
Uppsetningin er vel heppnuð. Þýðing Magneu Matthíasdóttur leikandi létt og ekki merkjanlegir hnökrar á staðfærslu leikhópsins – ef maður kaupir það yfirleitt að leikurinn gerist hér á landi núna. Sviðið hans Stígs Steinþórssonar hæfilega hallærislegt. Leikurinn skiptir samt öllu máli, einkum hraðinn sem náðist vel, einkum þegar fram í sótti. Stundum komst maður alveg fram á þetta svimandi hengiflug sem góður farsi á að koma manni á og ekkert er að gera nema henda sér fram af. Maríanna Clara er algerlega sannfærandi sem hin hraðlygna Antonía og Ari var dásamlega aulalegur Jóhann. Þrúður vesældarleg Margrét og Jóhann G. Jóhannsson fínn í hlutverki Lúlla bónda hennar. Mest mæðir þó á Halldóri í hlutverkum götulöggunnar, sérsveitarlöggunnar, líkkistusmiðsins og pabba gamla en hann skipti á milli eins og að drekka vatn. Ef þetta er ekki besta lyfið við kreppunni þá veit ég ekki hvað það heitir.