Á mektarárum fringe-leikhúsanna á áttunda áratugnum í London var maður sífellt á leiksýningum á einhverjum fáránlegum stöðum og þess minntist ég í gærkvöldi þegar ég var í hópi fólks að leita að Dansverkstæðinu við Skúlagötu, príla upp og niður stiga og inn og út eftir ranghölum sem ekki leiddu neitt. Loks voru réttar útidyr opnaðar og við komumst á áfangastað þar sem Stúdentaleikhúsið var að fara að sýna verk með því viðeigandi nafni Sá á fund sem finnur sig! Leikstjóri er Pétur Ármannsson sem einnig er þökkuð hugmyndin að sýningunni.
Verkið er samfellt og vel heppnað grín um veruleikaþætti. Leikararnir koma fram undir eigin nafni (eða ég veit ekki betur) og játa alls konar hluti fyrir áhorfendum, kosti sína og galla, mistök sín og drauma, og sýna inn á milli það sem þeir geta í hinum ýmsu greinum. Sýningin gengur út á að þeir komist að því hverjir þeir eru í raun og veru, finni sig, og áhorfendur fá svo að lokum að kjósa þann sem hefur að þeirra mati gengið best að finna sig …
Ég hefði í rauninni þurft á því að halda að finna mig sem áhorfanda að þessu verki því ég er bagalega illa að mér um veruleikasjónvarp. Þó bý ég svo vel akkúrat núna að hafa látið barnabörnin plata mig til að horfa á nokkra þætti af kokkakeppninni hans Gordons Ramsay á Stöð 2 þannig að ég vissi hvað var á seyði þegar leikararnir settust út í horn og fóru að tala við okkur í trúnaði í myndavél. Þau voru svo innlifuð að það var eins og þau hefðu aldrei gert annað en tala í trúnaði við allan heiminn.
Ég get komið upp um það núna að ég kaus Arnrúnu, kannski af því hún fann sig best en kannski líka af því hún var frá Akureyri. En það var vandi að velja, Adolf átti frábært söngatriði, Grétar Mar var dásamlega einlægur, Kirsti var andskoti góð – og Vilhelm líka … Þau voru það náttúrlega öll! Og Ásthildur hélt öllu saman í sínum öruggu höndum sem þáttastjórnandi.