Það er stöðugur höfuðverkur umsjónarmanna með leiklistarnemum að finna verk sem passar fyrir hópinn, helst þannig að öll fái þau gott efni til að glíma við. Í ár hélt leikarabraut LHÍ leikritasamkeppni, eins og hefur verið gert stöku sinnum áður, og verkið sem sigraði, Við deyjum á Mars eftir Jónas Reyni Gunnarsson, er nú sýnt á sviði skólans í Smiðjunni undir öruggri stjórn Stefáns Jónssonar prófessors og fagstjóra námsbrautarinnar.
Persónur verksins eru níu, eins og nemendur árgangsins, allar á svipuðum aldri. Ester (Snæfríður Ingvarsdóttir) er sálfræðinemi, Brynja (Birna Rún Eiríksdóttir) er einkaþjálfari, Már (Sigurbjartur Sturla Atlason) er verkfræðinemi, Viktor (Alexander Erlendsson) er læknanemi, Kolbrún (Aldís Amah Hamilton) er sjónvarpskokkur, Rut (María Thelma Smáradóttir) er matvælafræðingur, Vigdís (Íris Tanja Ívars Flygenring) er leikskólakennari, Heiður (María Dögg Nelson) er meðferðarfulltrúi og Sölvi (Hjalti Rúnar Jónsson) er smiður og trúbador. Þau hafa verið valin sérstaklega úr stórum hópi umsækjenda til að vera fyrstu (jarðneskir) íbúar á Mars og eru nú á leið þangað á geimskipi. Til að fjármagna ferðina eru þau líka þátttakendur í raunveruleikaþætti og við í salnum erum fulltrúar þeirra sem fylgjast með þeim neðan af jörðinni. Snjöll hugmynd sem gengur vel upp.
Í verkinu eru okkur sýndir nokkrir dagar í ferðinni með mislöngu millibili. Í upphafi er Heiður fyrirliði, kona sem er vön að stjórna en á dálítið bágt með skapsmunina þegar bera fer á óánægju með stjórnarhætti hennar og hugmyndir um leiðir til að skemmta áhorfendum á jörðu niðri. Rut kveður fyrst í alvöru upp úr með óánægjuna og tekur völdin af Heiði. Rut er full af neikvæðri orku eftir skyndileg sambandsslit við Viktor sem hún hafði talið sig bundna til framtíðar. Því eitt af því sem þau eiga að gera á Mars er að auka kyn sitt (sem Sölvi lætur okkur ekki gleyma!), það má túlka sem ástæðu þess að stúlkurnar eru sex en strákarnir bara þrír, og það þó að tvær stúlknanna hafi verið valdar sem fulltrúar samkynhneigðra.
En Rut heldur illa völdum enda skortir hana þá innri rósemd sem leiðtogi þarf að hafa og áhorfið á raunveruleikaþáttinn á jörðu niðri dettur niður í ekki neitt. Næstur til að klifra upp á tind valdapíramídans er Viktor (vel valið nafn). Og hann hefur allt sem þarf, er ísmeygilegur stjórnandi og fylginn sér og reynist hafa öll helstu einkenni einræðisherrans. Hann á tiltölulega auðvelt með að fá hópinn til að gera það sem þarf til að auka áhorfið að nýju. Hvörfin í verkinu verða þegar Heiður ákveður, að hans hvatningu, að fórna sér, eftir það verður ekki aftur snúið. Átakanlegt var að sjá hvernig Viktor brýtur niður stálvilja Esterar og nýtir sér sálrænt ástand Más, hvernig hann blekkir Vigdísi sem fyrir sitt leyti rústar lífi Sölva. Brynja reynir hvað hún getur að komast undan ofurefli Kolbrúnar en hlýtur að láta í minni pokann þegar Viktor hefur náð völdum. Og Rut er hrak eftir ósigur sinn þó að hún reyni að klóra í bakkann. Það var ævintýralega gaman að sjá hvað þau voru flink og hvað þau lifðu sig af brennandi ástríðu inn í hlutverk sín.
Verkið minnir á ýmis verk þar sem hópur er látinn sýna þróun mannlegs samfélags í einangrun. Fyrst kemur Lord of the Flies Williams Golding í hugann en þar eru bara drengir, betra dæmi í þessu samhengi er hörkugóð unglingabók Svens Wernström, Ævintýraleg útilega (á ísl. 1974), þar sem tveir skátaflokkar, drengjahópur og stúlknahópur, lenda saman á eyðiey. Jónas Reynir vinnur vel með efni sitt, bæði framvinduna í heild og persónusköpun hvers einstaklings. Leikararnir ungu tók líka vel við boltanum og bjuggu til skýrar og vel mótaðar persónur sem brugðust á sannfærandi hátt við því sem gerðist um leið og þau komu, þó misjafnlega skýrt, upp um ástæðuna fyrir brotthvarfi sínu frá jörðinni sem í sumra tilviki var hreinn veruleikaflótti.
Öll umgjörð sýningarinnar er vel unnin. Leikmynd og búningar Arons Bergmanns Magnússonar eru stílhrein og einföld en myndband Gabríels Markan, nema í grafískri hönnun, er allt annað en einfalt og varð alger senuþjófur á köflum. Um stóran hringlaga glugga á baksviði sjáum við himingeiminn sem þau svífa um en þegar þau kjósa geta þau horft á sjónvarp í staðinn og valið um sinn eigin raunveruleikaþátt (séð hvað hin eru að gera á „sviði“ hans) eða fylgst með lífi pandamóður með unga sinn. Þetta var listilega nýtt í sýningunni sem fékk aukna vídd og dýpt við þessa viðbót.
Þetta er vönduð og spennandi sýning og mikið tilhlökkunarefni að fá að sjá þessi hæfu ungmenni á leiksviðum landsins á næstu árum.