Hjá Leikfélagi Akureyrar er nú sýndur söngleikurinn Kabarett eftir ótal manns – Joe Masteroff (leiktexti), John Kander (tónlist) og Fred Ebb (söngtextar), sem byggðu á skáldsögu Christophers Isherwood (Goodbye to Berlin) og leikriti Johns van Druten upp úr henni (I Am a Camera) – og þau sýna ekki í Hofi eins og virtist liggja beint við heldur í Samkomuhúsinu gamla. En ekki hefur maður lengi horft þegar maður hefur sætt sig fullkomlega við staðarvalið.
Sviðið er auðvitað lítið, maður þarf eiginlega að þrengja sjónsviðið markvisst í byrjun þó að farið sé út fyrir það við og við. En Auður Ösp Guðmundsdóttir leikmyndar- og búningahönnuður nýtir það afskaplega vel og svo verða atburðir manni nákomnari við þessa nálægð. Verkið gerist annars vegar á Kit Kat-klúbbnum og hins vegar utan hans, mestmegnis í híbýlum Fräulein Schneider (Andrea Gylfadóttir) sem leigir út herbergi. Þegar við vorum á klúbbnum var allt opið og baksviðið nýttist fyrir hljómsveitina sem líka gaf hugmynd um fjölda manns inni í klúbbnum. Svo var lokað fyrir baksviðið með stórum flekum, ótrúlega einföldum í notkun, og þá vorum við oftast inni í leiguherbergi Cliffs Bradshaw (Hjalti Rúnar Jónsson), unga Bandaríkjamannsins sem kemur til Berlínar til að skrifa skáldsögu – en lifir borgina í staðinn. Aukahlutum eins og stólum og ferðatöskum var kippt upp á snaga á flekunum til að þeir væru ekki fyrir þegar skipt var um svið og sviðskiptin gengu greitt. Þetta gerði að verkum að flæðið í sýningunni var gott, aldrei dvalið við óþarfa. Snilld. Hér kom auðvitað líka til hvað Marta Nordal leikstjóri (og nýr leikhússtjóri LA) hafði þjálfað sitt lið vel. Þótt hraðinn væri mikill vissi hver og einn nákvæmlega hvar hann átti að vera og hvað hann átti að gera hverju sinni þannig að allt gekk eins og smurt.
Cliff Bradshaw kemur til Berlínar árið 1930 og kynnist á síðasta spotta leiðarinnar frá París ungum Þjóðverja, Ernst Ludwig (Jóhann Axel Ingólfsson) og gerir honum – nauðugur viljugur – stóran greiða á landamærum Þýskalands. Í staðinn fer Ernst Ludwig með hann í Kit Kat-klúbbinn, aðalstaðinn í Berlín þar sem sími er á hverju borði og hægt að hringja sér í stúlku – nú, eða pilt – ef mann langar í kynlíf. Yfir staðnum ríkir skemmtanastjórinn MC (Hákon Jóhannesson), syngur sjálfur („Willkommen, Bienvenue, Welcome“) og dansar með dansmeyjum staðarins, Lulu (Fanný Lísa Hevesi), Texas (Bergþóra Huld Björgvinsdóttir) og Rosie (Unnur Anna Árnadóttir) auk þess sem hann kynnir aðra skemmtikrafta og þá einkum stjörnu klúbbsins, ensku söngkonuna Sally Bowles (Ólöf Jara Skagfjörð). Vel fer á með Sally og Cliff frá fyrstu tíð þótt hann sé meira gefinn fyrir eigið kyn og hún dregur ekki úr því hvernig hún nýtir sér líkama sinn sér til tekna auk söngsins. Þegar Sally missir húsnæðið flytur hún inn á Cliff að honum fornspurðum og upphefst þá sérkennilegt ástar- og vináttusamband þeirra, báðum til gleði meðan það varir.
Annað ástarsamband, líka fagurt meðan það varir, tekst milli Fräulein Schneider og grænmetissalans á horninu, Herr Shultz (Karl Ágúst Úlfsson). Allir í húsinu gleðjast með þeim nema vændiskonan Fräulein Kost (Birna Pétursdóttir) og það er hún sem kveður upp dauðadóminn yfir sambandinu með því að segja Ernst Ludwig að Herr Shultz sé Gyðingur. Því hinn léttlyndi og síkáti Ernst Ludwig reynist vera með borða með hakakross á upphandleggnum þegar hann fer úr frakkanum í trúlofunarveislu gömlu hjúanna.
Kabarett er því hápólitískt verk og á einkar vel við á okkar dögum þegar öfgafull þjóðernishyggja sækir á víðs vegar um heiminn. Miðað við fyrri sýningar á verkinu sem ég hef séð og bíómyndina finnst mér Marta Nordal hafa tekið þá (ágætu) ákvörðun að draga ekki úr því hvað Berlín Christophers Isherwoods er subbulega sexí, fordrukkin, fátæk og gegnum rotin. Hér er lítil yfirborðsfágun, sýningin er hrá og gróf og heiðarleg. Skýrasta birtingarmynd stefnu leikstjórans er túlkun Hákonar Jóhannessonar á MC (Master of Ceremonies). Hann er klæddur eins og róni á fjórða degi og grípur um hreðjar sér við hvert tækifæri. Hann syngur í stíl við leikinn, frekjulega og ágengt, enda leikur persónan að minnsta kosti tveim skjöldum. Á móti honum kemur Ólöf Jara í hlutverki Sallyjar, alger senuþjófur þegar hún er einhvers staðar á eða nálægt sviðinu. Auður Ösp klæðir hana svo vel að öfundsvert er og Ólöf Jara ber búningana eins og tískusýningarstúlka. Hún lifir sig af ástríðu inn í persónuna og syngur glæsilega og af miklum krafti. Kannski er hún helst til ung til að ná því að sýnast eins útlifuð og persónan er – Ólöf Jara er auðvitað fersk eins og nýútsprungin rós – en henni tókst samt að vera býsna sannfærandi þegar hún hafnaði framtíð með Cliff og valdi tortíminguna, vel vitandi í lokasöng sínum, „Lífið er kabarett“, að von hennar um persónulega hamingju væri öll.
Hjalti Rúnar var ungur, sléttrakaður, góðviljaður, bandarískur mömmudrengur lifandi kominn. Honum tókst ágætlega að blása lífi í þetta fremur litlausa hlutverk og söng líka skínandi vel. Jóhann Axel var hins vegar svolítið hikandi í sínu hlutverki en brást vel við þegar á hann reyndi verulega. Birna átti sviðið þegar hún „kom út“ sem nasisti og söng gullfallegt lag sem hljómar eins og þjóðernissöngur frá fjórða áratugnum en er raunar eftir Kander og Ebb.
Persónurnar sem snerta mann dýpst eru fröken Scheider og grænmetissalinn hennar. Karl Ágúst á frábæra þýðingu á verkinu og lék og söng Herr Shultz alveg prýðilega en stjarna sýningarinnar – svona eftir á að hyggja – var Andrea Gylfadóttir í hlutverki leigusalans. Rödd hennar hefur þroskast svo vel að eftir er tekið. Kannski dýpkar hún hana og gerir hana örlítið grófari fyrir hlutverkið en hvort sem það er leikið eða ekta þá tekst það fullkomlega. Söngvarnir sem þau Karl Ágúst syngja, um ananasinn dýrmæta og giftinguna, eru þannig að mann langar til að heyra þá aftur og aftur.
Dansarnir eru eftir snillinginn Lee Proud sem bregst ekki hér frekar en fyrri daginn. Tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og hljómsveitin var dillandi skemmtilegt. Ljósahönnuður var Ólafur Ágúst Stefánsson, fagmaður í fremstu röð eins og aðrir aðstandendur sýningarinnar.
Vigdís Finnbogadóttir fór norður á frumsýninguna og sagði eftir hana að þessi sýning væri kraftaverk. Ég tek undir það.
-Silja Aðalsteinsdóttir