Það er óvænt að sjá fólk flykkjast í leikhús, ekki til að horfa á leiksýningu heldur til að hlusta á fyrirlestur. Að vísu eru þeir aðilar báðir, sem nú fylla Borgarleikhúsið með sjálfum sér einum, ástríðufullir fræðimenn og vanir flytjendur en þetta virkar samt á mig sem merkilegt afturhvarf til tímanna fyrir tilkomu útvarpsins. Ég hlustaði á Andra Snæ Magnason fyrir jól en hann er enn að, og í vikunni sem leið kom röðin að Bergi Ebba Benediktssyni og fyrirlestri hans Skjáskoti á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Bergur Ebbi, tónlistarmaður, skáld og uppistandari, hefur gefið út tvær bækur um nútímann, tækni hans og áhrif hennar á okkur mannfólkið, Stofuhita (2017) og Skjáskot (2019). Mér finnst þessar bækur ekki síst vera skrifaðar fyrir mína kynslóð, fólkið sem var komið til ára sinna þegar heimilistölvurnar urðu markaðsvara og ennþá eldra þegar snjalltækin tóku völdin. En um leið og ég hlustaði og fræddist var óhjákvæmilegt að firra sig lýsingunni á áhrifum þessara tækja – segja við sjálfa mig alltaf inn á milli: ég er ekki svona, að minnsta kosti ekki ennþá! Það er, eins og Bergur Ebbi lýsir svo ljómandi vel, ó-trú-legt að hafa heiminn allan í hendi sér (eins og Guð), geta fengið svör á sekúndunni við öllum sínum spurningum, en ekki síður merkilegt hvernig þessi aðgangur að öllum heiminum ýtir okkur inn í lítinn klefa samfélagsmiðlanna með skoðanasystkinum, lokar okkur í rauninni inni og gerir okkur ennþá uppteknari af okkur sjálfum.
Bergur Ebbi hefur fjölbreytta menntun og fræðilegan metnað auk þess sem hann hefur margvíslega reynslu sem hann nýtir vel. Frásagnir hans af árunum í hljómsveitinni Sprengjuhöllinni fannst mér skemmtilegustu kaflarnir í fyrirlestrinum, einkum frásagnir hans af tilraunum hljómsveitarinnar til að ná heimsfrægð. Sögurnar úr ferð þeirra félaga til Bandaríkjanna voru bæði fróðlegar og fyndnar um leið og þær voru vandræðalegar og afhjúpandi fyrir drauma ótal ungmenna um allan heim. Önnur dæmi voru líka fróðleg og opnuðu augu manns á nýjan hátt fyrir fortíð og nútíð. Til dæmis lagði hann áherslu á það að við gætum ekkert sagt um framtíðina lengur, spádómar væru ómögulegir, eins og hann minnti á með skemmtilegum dæmum, og hefðu kannski alltaf verið það, en svo tryðum við ekki á einfaldar framtíðaráætlanir. Tengiliður þeirra Sprengjuhallarmanna í Ameríku hefði til dæmis hætt í starfi sínu sem umboðsmaður hljómsveita til að stofna „fyrirtæki til að klippa út miðjumanninn“. Hann sagðist ætla að kalla það Kickstarter. Bergur Ebbi hafði ekki haft nokkra trú á hugmyndinni, fannst hún einstaklega óbjörguleg. Ekki þarf að orðlengja að það fyrirtæki var fljótlega farið að velta milljónum dala og við eigum meira að segja okkar eigin útgáfu af því sem heitir Karolina Fund!
Bergur Ebbi er hluti af uppistandshópnum Mið-Íslandi þannig að ekki kemur á óvart hvað hann er gríðarlega vel talandi. Fyrstu mínúturnar af fyrirlestrinum fagnaði ég því hvað hann beitti íslenskri tungu lipurlega í umfjöllun um þessa framandi tækni en auðvitað fóru erlend hugtök og slettur að leita á, orð er ekki lengur á íslensku til um allt sem er hugsað á jörðu, því miður. Bergur Ebbi gerir ekki í því að sletta, eins og manni finnst stundum að ungt (lista)fólk geri í viðtölum, hann leggur verulega áherslu á að skýra mál sitt á lifandi, gagnsærri íslensku, og það er þakkarvert. Þó var eins og hann þreyttist þegar á leið og erlend orð urðu algengari. Það er til dæmis óþarfi að nota orðið „narratíf“ þegar við eigum það prýðilega orð „frásögn“.
Bergur Ebbi lætur sig ekki muna um að vera einn á sviðinu og tala í meira en tvo klukkutíma – minna mátti ef til vill gagn gera því Nýja sviðið verður dálítið loftlaust þegar það er yfirfullt af fólki í úlpu. En við heyrum líka frumsamda tónlist sem Daði Birgisson semur og flytur og Ágúst Elí Ásgeirsson og Ísak Hinriksson sáu um sviðsútlitið og uppsetninguna.