Það vildi svo skemmtilega til í vikunni að ég sá tvo söngleiki um líf unglinga, sýningar sem gáfu mér óvænt tækifæri til að bera saman flutning framhaldsskólanema á verki um líf jafnaldra sinna og tilveru í samtímanum og lærðra leikara á þrítugs- og fertugsaldri sem freistuðu þess að flytja tveggja áratuga gamalt verk um reykvíska unglinga til nútímans. Fyrra verkið var Déjá Vu eftir Bjarna Snæbjörnsson sem leikfélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ sýndi undir stjórn höfundar. Hitt var sjálfur Gauragangur eftir Ólaf Hauk Símonarson og hljómsveitina Nýdönsk sem Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri stýrði á stóra sviði Borgarleikhússins …

Déjá VuDéjá Vu kom mér skemmtilega á óvart. Verkið gerist í framhaldsskóla þar sem stelpnahópur hefur tekið öll völd, bæði yfir samnemendum sínum og kennurum. Við fylgjum í skólann á fyrsta skóladegi nýjum nemanda utan af landi, Gústa (Ómar Páll Sigurbjartsson). Honum blöskrar yfirgangurinn í stelpunum og leyfir sér að andmæla þeim og reyna að fá þær til að sjá ljósið. Eftir þá uppákomu gefur yfirnornin sig á tal við hann (sennilega leikin af Eddu Margréti en leikskrá gefur ekki upp hverjir leika hvað þannig að tengingar milli persóna og leikenda eru gerðar með fyrirvara) og þykist vera honum sammála. En þegar hún er búin að lokka hann til við sig og koma honum úr fötunum æpir hún nauðgun nauðgun og ljóst er að honum verður aldrei vært í nýja skólanum eftir það. Norninni ungu hefnist fyrir vikið með hrikalegri martröð þar sem hún fær að kynnast grímulausum fasisma af klassískri gerð – í anda 1984 eftir Orwell. Þessu er ekki fylgt eftir með predikun um ólíkar birtingarmyndir sama fasismans (eins og ég átti kannski von á) heldur endurtekningu á fyrsta skóladeginum (“déjá vu”!) sem endar á nægilega ólíkan hátt til að gefa okkur von um nýjan skilning á fyrirbærinu kúgun og einelti.

Déjá Vu var verulega athyglisverð sýning og eins og ævinlega á nemendasýningum fylltist maður aðdáun á því hvað krakkarnir syngja vel og dansa eins og fagmenn. Tónlistin var skemmtileg og tónlistarflutningurinn kraftmikill og flottur. Leikurinn var eðlilega frumstæðari, en þau bættu það sannarlega upp með því að vera það sem þau voru að leika: ung og full af yndisþokka æskunnar.

Gauragangur er ansi miklu betur skrifað verk og rosalega fyndið, það rifjaðist heldur betur upp í gærkvöldi. Ormur Óðinsson (Guðjón Davíð Karlsson) er ennþá orðheppnasti unglingur íslenskra bókmennta. En hann er óhamingjusamur eins og unglinga er vandi og notar orðheppnina mest til að spæla allt og alla í kringum sig: mömmu sína og ástmann hennar (Sigrún Edda Björnsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson), systur sínar (Guðrún Bjarnadóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir), pabba sinn og nýju konuna hans (Ellert A. Ingimundarson og Vigdís Gunnarsdóttir), Ranúr besta vin sinn (Hallgrímur Ólafsson), bekkjarfélaga sína og kennara. Þó hlífir hann Hreiðari fornbókasala (Þorsteinn Gunnarsson) gersamlega, auk skólastjórans (Örn Árnason) sem reynist kunna að nefna fútúrisma og gefur honum þá dýrlegu bók Ský í buxum eftir Majakovskí (í þýðingu Geirs Kristjánssonar). Undir stælunum er Ormur auðvitað viðkvæm kvika og þráir sættir við heiminn.

GauragangurÓlafur Haukur veit til hlítar hvernig unglingi líður sem er svolítið of gáfaður fyrir sinn hóp um leið og hann er miður sín yfir baslinu á mömmu sinni, leiður yfir að pabbi skyldi fara að heiman og ergilegur yfir kærasta mömmu sem er duglegur sjóari en blautur í landi. Fyrst og fremst er hann svo auðvitað óhamingjusamur í ástum því Linda súpergella (Valgerður Guðnadóttir), draumadísin hans, er alltaf handan seilingar, jafnvel þegar hann fær að sofa hjá henni. Sígildar aðstæður. Hann sér ekki að önnur bekkjarsystir, Halla (Birgitta Birgisdóttir), ann honum hugástum og er að öllu leyti mun aðgengilegri kostur fyrir hann. En hvenær hafa unglingar áttað sig á slíku?

Þó að Ormur Óðinsson sé tímalaus staðalmynd hins gáfaða, vel lesna og orðheppna unglings er verkið um hann ekki tímalaust og sumt í sýningunni stakk í stúf við þann nútíma sem við höfum í kringum okkur. Hér erum við í heimi gamaldags fjarskipta. Ekkert net, engir farsímar. Allar viðmiðanir eru orðnar dáldið gamaldags, þó er skipt á tveimur Indriðasonum, Andrési og Arnaldi, þegar vísað er til metsöluhöfunda! Að öðru leyti var ætlunin greinilega að hafa búninga og annað umhverfi þannig að það vísaði ekki á ákveðinn tíma, bara almennt til níunda eða tíunda áratugar síðustu aldar og upphafs þessarar. Kannski gengur það alveg upp þótt óneitanlega færi maður að velta fyrir sér hvort rétt hefði verið að leyfa verkinu að gerast fyrir 20-30 árum eins og það gerir upphaflega.

Eiginlega var val í hlutverk stundum meira áhyggjuefni. Guðjón Davíð er góður leikari en Ormur hans varð of kaldur, gaf ekki nóg til kynna mýktina og viðkvæmnina undir kúlinu. Skrúfaði alls ekki nóg frá sexappílnum. (Þá minnist maður Ingvars E. Sigurðssonar sem lék hlutverkið í Þjóðleikhúsinu fyrir nítján árum og var ómótstæðilegur Ormur.) Hefði ekki verið snjallara að láta Guðjón og Hallgrím skipta um hlutverk? Svo var Birgitta auðvitað fáránlegt val í hlutverk Höllu. Það er bundið í texta að Halla er feit, og því var ekki sleppt þó að Birgitta sé lítil og létt – næstum horuð. Og Valgerði Guðnadóttur leið ekki vel í hlutverki Lindu nema þegar hún söng og dansaði.

En Sigrún Edda var eins og heima hjá sér í hlutverki móður Orms og hitaði manni léttilega um hjartað. Og Kristín Þóra var óborganleg í hlutverki Ástu litlu systur. Það sem sú stúlka getur! Þröstur Leó sýndi ólíkar hliðar á Magga sjóara og lét manni þykja vænt um hann. Þorsteinn Gunnarsson var sjarmerandi Hreiðar og Margrét Helga Jóhannsdóttir dýrleg sem Kristrún gamla kattahatari. Jóhann Sigurðarson og Bergur Þór Ingólfsson voru fínir í hlutverkum Gumma Gumm leikfimikennara og Arnórs íslenskukennara og söngatriði þeirra verður lengi í minnum haft. Sömuleiðis söngur skólastjórans og Orms um skáldin sem eru ský í buxum. Tónlistarflutningur var að sjálfsögðu í hæsta máta fagmannlegur.

Hver er þá niðurstaðan úr samanburðarrannsókninni? Bæði verkin eru í alvöru og segja okkur að það sé dauðans alvara að vera unglingur. En þó að faglega beri Gauragangur höfuð og herðar yfir Déjá Vu held ég að boðskapur framhaldsskólasýningarinnar hafi komist betur til skila. Hún náði á einhvern hátt dýpri einlægni en sýningin i Borgarleikhúsinu.

 

Silja Aðalsteinsdóttir