Hugleikur sýnir nú nýtt leikrit eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur (sem samdi hinn minnisstæða sjónleik Unga menn á uppleið um árið) í húsnæði sínu við Eyjarslóð. Verkið heitir Helgi dauðans og lýsir viðburðaríkri helgi, frá föstudagskvöldi til sunnudags, í lífi hóps háskólanema. Unga fólkið virðist vera að mynda sig til að taka Hugleik yfir því síðasta sýning leikfélagsins fjallaði um popphljómsveitir eins og menn muna og var að mestu leikin af nýliðum. En leikstjórar Helgar dauðans eru vanir menn, Rúnar Lund og Sigurður H. Pálsson.
Dagný (Sigríður Bára Steinþórsdóttir) og tvíburarnir Ninna (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) og Birtingur (Stefán Geir Jónsson) búa saman í íbúð ömmu tvíburanna. Þau eru öll í háskólanámi sem þau stunda þó misvel eins og gengur. Einkum á Birtingur bágt með að mæta í tíma á hverjum degi því það er svo ansi tímafrekt að eiga tvær kærustur, þær Lóu (María Björt Ármannsdóttir) og Láru (Linda Hrönn Halldórsdóttir). Það er föstudagskvöld og partý framundan í íbúðinni af því að Dagný á afmæli. Þangað kemur svo allt gengið, líka Tralli sem minnir mest á skrímsli Frankensteins í sínu gervi (Matthías Freyr Matthíasson), Óskar hinn ofurróttæki (Flosi Þorgeirsson), Jóa jóðl hin vergjarna (Ragnheiður Bogadóttir) og Helgi nærfatamódel, kærasti Dagnýjar (Sigurjón Friðriksson). Það er drukkinn bjór og étin pitsa, síðan er farið út á lífið. En þegar Dagný kemur heim um nóttina eltir hana inn maður (Björgvin Gunnarsson) sem breytir skemmtuninni í martröð. Í umræðunum um vandann sem hann skapar sýnir unga fólkið svo á sér ýmsar óvæntar hliðar næsta sólarhringinn.
Helgi dauðans er skemmtilegt stykki, hnyttið og nokkuð markvisst, og eins og ævinlega hjá Hugleik var virkilega gaman að horfa á leikinn, jafnvel þótt hér sé óvant fólk á sviðinu. Bara einn leikendanna kannaðist ég við, hinn bráðflinka Flosa sem hafði gaman af að vitna í helstu heimspekinga vesturlanda í ræðum sínum og rabbi. Sigríður Lára er vel heima í jargoni háskólastúdenta af öllu tagi og það var oft rosalega gaman að hlusta á umræðurnar á sviðinu. Sigríður Bára lék aðalhlutverkið alveg prýðilega, best var hún þó í sínu drukkna ástandi aðfaranótt laugardagsins. Af öðrum leikurum vil ég sérstaklega nefna Þuríði Blæ sem lék læknanemann Ninnu af miklum krafti þó að lífsskoðanir hennar væru ekki alltaf geðslegar, og líka Maríu Björt sem lék vergjörnu ljóskuna af einstakri hlýju og gleði.