Í gærkvöldi frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur nýtt leikrit, Er ekki nóg að elska, eftir eitt helsta núlifandi leikskáld okkar, Birgi Sigurðsson, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri var Hilmir Snær Guðnason sem lék aðalhlutverkið í síðasta sviðsverki Birgis, Dínamíti, og leikstýrði síðustu uppsetningu á Degi vonar, þekktasta verki hans. Vytautas Narbutas gerir leikmyndina sem er stórglæsileg og búningar Stefaníu Adolfsdóttur eru mjög elegant og í stíl við hana.
Það fyrsta sem maður festir augað á eru símarnir. Á sviðinu er stór íbúð, aðallega stofa, svolítið óþægilega breið fyrir svo fámennt verk, en önnur lítil íbúð fyrir framan sviðið. Á sófaborði í stóru stofunni er stór og skrautlegur gamaldags sími, á lágu borði í litlu íbúðinni er grár skífusími nákvæmlega eins og við hjónin áttum árum saman og alveg fram að dígitalbyltingu. Þessir símar segja okkur að við séum stödd í ekki svo löngu liðinni fortíð, líklega á áttunda áratugnum – eða það er mín ágiskun. Ekki að það skipti höfuðmáli en ýmislegt í upprifjunum persónanna kemur heim og saman við það.
Stofan í stóru íbúðinni er í senn raunsæ og táknræn. Hún ber þess vott að íbúar hússins séu sterkefnaðir og smekklegir. Rjómahvítt sófasettið, svart-hvítt flísalagt gólfið, pínóið, svört sorgartjöldin frá lofti til gólfs, allt eins fágað og þokkafullt og verða má. En trónandi fyrir miðju sviði er líkkista á háum palli, hvít í stíl við innbúið, og smám saman tekur maður eftir því að húsgögnin eru misjafnlega djúpt sokkin ofan í gólfið. Þetta heimili er að sligast undan þungri sorg – og svikum eins og fljótlega kemur í ljós.
Heimilisfaðirinn, Ingvar, er látinn. Hann var róttækur stjórnmálaleiðtogi, eldhugi sem hreif fólk með sér, tilbeðinn af sínu fólki og vanur að stjórna, enda ætlar hann halda því áfram eftir dauðann. Presturinn og heimilisvinurinn Lárus (Sveinn Ólafur Gunnarsson) er kominn með hinstu skilaboð hins látna til ekkjunnar Katrínar (Kristbjörg Kjeld). En þar hittir hann fyrst óvænt fyrir gamla kærustu sína, Írisi (Unnur Ösp Stefánsdóttir), sem búsett er í Bandaríkjunum en er komin til að jarða móðurbróður sinn sem ól hana upp eftir að móðir hennar veiktist á geði.
Bjargaði henni raunar af barnaheimili þar sem henni leið illa. En sem ung kona hafði hún skrifað pólitíska grein sem Ingvar leit á sem persónulega árás á sinn flokk og það höfðu orðið vinslit.
Katrín heldur að séra Lárus sé eingöngu kominn til að ræða útfararræðuna en Lárus á annað og mun erfiðara erindi. Ingvar hafði kvalist af samviskubiti í banalegunni og ákveðið að dauður skyldi hann sýna ástkonu sinni til margra ára þá virðingu og væntumþykju sem hann hafði aldrei sýnt henni opinberlega í lifanda lífi. Ástkonan er látin en Lárus hefur boðað dóttur hennar og Ingvars, Huldu (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) á þennan fund, Katrínu og Skúla syni hennar (Guðjón Davíð Karlsson) til lítillar gleði.
Þar með er senan sett fyrir átök þessara fimm aðila, og þau verða snörp og óvægin. Ekki aðeins þarf Katrín að horfast í augu við lífslygina sem hún hefur búið við heldur þarf Lárus að játa sín brot gagnvart Írisi og Skúli þarf að viðurkenna fyrir sjálfum sér að hann hafði aldrei þá stöðu í huga föður síns sem hann vildi trúa að hann hefði. Eina manneskjan sem er í jafnvægi er Hulda sem hefur alla ævi vitað um sitt ótrausta undirlag og sætt sig við það eftir uppreisnarár æskunnar. Enda dragast allar aðrar persónur að lokum að henni í von um endurlausn.
Hilmir Snær hefur valið vel í hlutverk og einkum er fyrri hluti sýningarinnar afar spennandi, meinlega fyndinn og áhrifamikill. Íris er full af beiskju (og hefur drjúga ástæðu til) og hún er greind og hnyttin og fundvís á veika bletti á andstæðingum sínum sem eru allar hinar persónurnar, nema Hulda. Þær frænkurnar hafa aldrei sést fyrr en þennan dag en ná saman undir eins, enda báðar eftirlæti Ingvars. Unnur Ösp var sannfærandi og afar kröftug í hlutverkinu og verulega gaman að sjá hana vinna persónu gagnólíka Nóru í Dúkkuheimili svona skömmu á eftir þeim leiksigri. Það er mikið lagt á Unni í seinni hlutanum þegar harða skurnin er skræld af Írisi en hún stóðst þá raun líka með prýði. Og Kristbjörg Kjeld var stórkostleg í hlutverki sínu, hvort sem hún var yfirveguð glæsileg ekkja með alla stjórn á hendi, ofsareið en þó máttlaus gagnvart hinstu óskum eiginmannsins eða buguð gömul kona. Það hreinlega gneistar af henni á sviðinu – hvílík list! Það er satt að segja skylda að sjá þessa sýningu þó ekki sé nema til að fylgjast með þessum frábæru leikkonum glíma innbyrðis og við aðrar persónur á sviðinu.
Hin hlutverkin eru veigaminni en þeim eru gerð ágæt skil. Sveinn Ólafur er brjóstumkennanlegur í hlutverki Lárusar, víkjandi en velviljaður og reynir að sýna styrk í átökunum við Írisi og Katrínu. Guðjón Davíð á stjörnuleik drukkinn í seinni hlutanum og Katla Margrét er hlýleg og skilningsrík Hulda.
Þetta er stofuleikrit með hefðbundnu sniði, afar vel skrifað en kannski óþarflega langt eftir hlé og fyllt með helst til mörgum fjölskylduvandamálum, sumum nokkuð kunnuglegum. Ekki er þörf á að útlista alla fortíðarglæpi eins vel og þarna er gert, við skiljum áður en skellur í tönnum, en Birgir hefur viljað hnýta alla hnúta rækilega.