Það var mikil spenna í hópnum sem gekk í einfaldri röð á eftir dyraverði Goðheima inn í Kúluna, barnaleikhús Þjóðleikhússins, síðdegis í gær. Framundan var leiksýning þar sem áhorfendur gátu sjálfir ráðið framvindunni. Þetta er að sjálfsögðu Þitt eigið leikrit – Goðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson, byggt á feikivinsælum bókum hans sem fara sömu leið, leyfa lesendum að velja í lok hvers kafla hvað gerist næst. Hver áhorfandi hefur umráð yfir litlu tæki með fjórum hnöppum og styður á einn að eigin smekk í hvert skipti sem boðið er upp á val. Við fáum meðal annars að velja aðalpersónu sýningarinnar, fatnað hennar og vopn og taka ýmsar afdrifaríkar ákvarðanir fyrir söguhetju. Leikstjóri er Stefán Hallur Stefánsson.
Rammi leiksýningarinnar er skemmtiþáttur í sjónvarpi sem Loki Laufeyjarson (Snorri Engilbertsson) stýrir með hjálp handarinnar Einars (Hilmir Jensson). Þeir félagar setja áhorfendur vandlega inn í leikreglur sýningarinnar, hvernig við eigum að kjósa og hvaða afleiðingar val okkar hefur. Síðan eru kynnt þrjú Miðgarðsbörn og við fáum að velja hvert þeirra fær að fara inn í Goðheima í þessari sýningu. Það er aðalvalið því með því veljum við söguhetju kvöldsins og þar með söguna sem sýnd verður. Valið stendur á milli Snorra, Eddu og Urðar og áhorfendur á frumsýningu völdu Urði (Sólveig Arnarsdóttir).
Verkefni Urðar í Goðheimum er bæði óvænt og stórhættulegt: hún á að passa börn Loka Laufeyjarsonar og Angurboðu tröllkonu (Baldur Trausti Hreinsson) meðan þau hjúin skreppa frá. Nú, segir þú kannski, getur það verið svo stórhættulegt að passa krakka? Já, ef krakkarnir heita Hel (Lára Jóhanna Jónsdóttir), Jörmungandur og Fenrir … Ekki aðeins eru þau sjálf ógnvænleg á að líta heldur vilja æsir ólmir koma þeim fyrir kattarnef af því að spáð hefur verið að þau muni tortíma ásum í Ragnarökum. Það merkilega gerist að Urður hænir krakkaormana að sér og verður líka hænd að þeim þannig að þegar Óðinn (Baldur Trausti) og Þór þrumuguð (Hilmir) finna fylgsnið þar sem Urður hírist með skjólstæðingum sínum leggur hún líf sitt í hættu vegna þeirra. Endinn fáum við að velja líka og þá er spurningin hvort við látum söguna enda vel eða illa. (Þar sem börn Loka eru annars vegar er raunar spurning hvaða endir sé góður …)
Þetta er stórskemmtileg sýning enda úrvals efniviður. Umgjörðin er líka góð, leikrýmið lítið og nándin mikil. Leikmynd Högna Sigurþórssonar í þessu afbrigði heildarverksins er ekki flókin eða viðamikil á sviðinu en teygir sig fram í anddyri og inn í ranghala hússins þaðan sem berast voðaleg öskur og barsmíðar … Á sviðinu er engin Valhöll í þessari sögu, bara hellir Loka og Angurboðu, dimmur og kuldalegur. Lýsingin (Magnús Arnar Sigurðarson) leikur því stórt hlutverk og ískyggilegt og tónlistin sömuleiðis (Elvar Geir Sævarsson og Kristinn Gauti Einarsson). Búningar Ásdísar Guðnýjar Guðmundsdóttur og leikgervi Valdísar Karenar Smáradóttur voru sjón að sjá; einkum er gervi handarinnar Einars afar forvitnilegt og Hel er í senn fögur og ógurleg. Brúðubörnin Fenrir og Jörmungandur eru snilldarverk Aldísar Davíðsdóttur.
Snorri var lævís og lokkandi Loki og Hilmir einfaldur handlangari hans, Lára Jóhanna var hæfilega uggvekjandi sem Hel og Baldur Trausti virðulegur alfaðir á Sleipni sínum. En Sólveig Arnarsdóttir ber þessa sögu uppi og fer létt með. Hún er svo myrkfælin og hrædd við hið ókunna að maður dauðvorkennir henni í byrjun en hressist um leið og hún þegar hún fer að njóta sín í barnfóstruhlutverkinu. Og í baráttunni fyrir lífi barnanna reynist hún sönn hetja.
Leikhúsfélagar mínir tveir, tæpra 8 og tæpra 11 ára, voru mjög ánægðir með sýninguna. Sá yngri gaf hiklaust fjórar og hálfa stjörnu. Sá eldri var tregari til að taka svo einfalda ákvörðun. Ég held að hann vilji sjá allar hinar sögurnar áður en hann kveður upp sinn dóm!
-Silja Aðalsteinsdóttir