Sjón. Rökkurbýsnir.

Bjartur, 2008

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2009.

RökkurbýsnirHvert skeið á sér eigin hugarheim sem litar reynsluna, þekkinguna og sannleikann. Þegar endurreisnarmaður skrifaði lærða grein um ljón þurfti hann að lýsa fyrirbærinu, fjalla um kjörlendi og hvort það fæddi lifandi afkvæmi. Ekki sakaði að geta um innræti skepnunnar, glæsileika hennar eða ljótleika. Líkindi hennar við önnur fyrirbæri, svo sem fótspor ljónsins við ljónslappagras. En tæmandi vísindagrein um ljónið tók líka til allra þekktra ljónasagna, til eftirmyndar ljónsins á himinhvelinu og áhrifa þeirrar myndar á menn, grös og skepnur. Fyrirbærið átti sinn stað í skipaninni sem það speglaði sjálft og var hluti af. Það bar fingrafar guðs sem opinberaði hin földu tengsl með hjálp launhelgrar þekkingar. Þekkingin fólst í túlkun, fóðraðri úr brunni hins sameiginlega ímyndunarafls.

En svo fóru menn að sundurgreina og eftir stóðu fyrirbærin afskorin sinni duldu merkingu. Slitin úr skipuninni, stök, óbifanleg, flokkuð eftir eðlissérkennum.

Í skáldsögu sinni Rökkurbýsnum leggur Sjón inn í huga hins samtengda heims og sér of víða veröld með augum Jónasar lærða Pálmasonar. Jónas er skáldsagnapersóna sem á sér fyrirmynd í þeim skrítna kvisti Jóni lærða Guðmundssyni og er skáldsagan trú þeim heimildum sem Jón hefur látið okkur í té og felld eru í hana dæmi úr ritum hans beint og óbeint. Með Jónasarnafninu tekur skáldið sér þó það frelsi sem hann þarf og víkur sér undan skyldum fræðimannsins. Þetta ferðalag inn í forna vitund er magnaður, innlifaður skáldskapur sem hvergi hnökrar.

Jónas er fæddur rétt eftir siðaskiptin í bræðingi pápísku og lúthersku. Hann er rammkatólskur og sættir sig ekki við kulda og myrkur hins nýja siðar. Milliliðum manns og almættis hefur verið kastað, kirkjurnar tæmdar af líkneskjum og velferðarstofnanir kirkjunnar niður lagðar. Mildi Maríu sem allt umlukti er nú víðsfjarri og það er ekki lengur sáluhjálparatriði að gefa fátækum, hver hugar að sínu. Móðurlaus þjóðin dýrkar dýrðlinga sína á laun. Veraldlegir höfðingjar eflast og láta dólgslega. Enga sáluhjálp er að finna:

… þar til sjálftökuríkið líður undir lok og frílífsþjóðirnar liggja með iðrin sundursprungin, eins og rottuunginn sem étur á sig gat í tólgartunnunni …(bls. 45)

Berfætlingunum buðust engar veitingar lengur, hvorki safaríkt læri af lambi helguðu dýrðlingi né roð af hertri ýsu, né heldur húsaskjól eða vettlingar á kaldar hendur. Langt í frá. Nú ríkti frílífið og allt sem einum gafst átti hann sjálfur fyrir sig og sitt fólk. Hinir máttu éta það sem úti frýs. (bls. 80)

Af þeim rökkurbýsnum sem lögðust yfir í kjölfar siðaskipta dregur skáldsagan nafn sitt.

Jónas verður vitni að Spánverjavígunum. Hann tekur ekki þátt í þeim og aflar það honum óvildar valdsins. Þessi aðgerðarlausa óhlýðni á eftir að reynast Jónasi dýrkeypt og verður þess valdandi að hann er dæmdur í útlegð í Gullbjarnarey fyrir galdra. Nú eru breyttir tímar og sjálfsögð hjávísindi alþýðunnar sér til halds og trausts eru litin hornauga.

… gamlar Maríubænir og þau dýrðlingaávörp sem best höfðu gefist við að hressa upp á íslenskan búk, ásamt með særingum og þess háttar hvítum áköllum um liðstyrk í baráttunni gegn hrekkjum ára og leiðra anda … (bls. 48)

Aðgreiningarvísindin eru mætt á skerið í frumstæðu formi. Þekking Jónasar og sjálfstæð réttlætiskennd sem yfirvöld óttast, verður bæði kross hans og höfuðlausn oftar en einu sinni. Í þekkingu og skáldgáfu þessa alþýðugrúskara býr það vald sem skákað getur samþjöppuðu yfirvaldi. Jónas er andófsmaður síns tíma í skjóli þekkingar sinnar á fornum fræðum.

Sagan er vel sögð. Hún hefst með formála hvar Lúsífer er kastað af himnum fyrir að neita að lúta nýjasta sköpunarverki drottins, manninum. Lúsífer sýndist skepna þessi viðbjóðsleg og sú sýn á manninn verður að sjálfsmynd okkar. Í útlegðinni í Gullbjarnarey rifjar Jónas upp ævina í fyrstu persónu frásögn. Við hittum hann þar fyrir eitt dægur hverrar árstíðar á útlegðartímabilinu 1635–39. Í köflunum er meðframt greint frá daglegu amstri hans, fróðleiksbauki og andlegum upplifunum. Útlegðin er rofin þegar höfundur sækir Jónas í eyjuna, ávarpar hann með nafni Jóns lærða og rær með hann á skip sem flytur hann til Kaupmannahafnar. Minningar frá Kaupmannahafnarreisu eru sagðar í þriðju persónu. Upprifjunin er ekki línulaga en allir endar vandlega knýttir að lokum. Sögunni lýkur á ferð Jónasar til manna úr útlegð sinni í eynni í maga hvals. Þar mætir hann í draumi súrrealískri mynd höfundar síns (með dröfnótta derhúfu, gogg, fiðraður í kringum augun) sem ýjar að því að hann heiti annað á handanmálinu. Enginn veit sitt rétta nafn fyrr en fyrir augliti drottins. Jónas rís upp á þriðja degi eins og nafni hans í hvalnum og gengur á land til síns erindis að tæma höfuð sitt í letur.

Hrakinn og smáður dvelur Jónas í útlegð sinni í miðri leikmynd guðdómsins les úr hverju strái á eilífum höttum eftir lausnarsteini. Því eins og segir:

… er byggingarefni tilverunnar og okkar innbúanna stafrófið að baki tungu Drottins þegar hann frambar veröldina … (bls.15)

… aum mannveran þakkar fyrir hverja stund sem henni hlotnast sú náð að fá að heyra þau slitur af sögunni sem varða hana sjálfa … (bls. 15)

Í leiðslu skynjar hann skipan alheimsins í anda Tómasar Aquinas. Hann grunar möguleika sköpunarinnar með ímyndunaraflinu, að eitt vaxi af öðru, tegundir bræðist saman og nýjar verði til. Allt er mögulegt.

Ekkert á sér upphaf eða endi nema í myndinni allri og óskiptri … Og að mér hefur læðst grunur um að það séu liðamótin sjálf, staðirnir þar sem hlutirnir mætast, sem eru hið eilífa og algera í heiminum því þau eru til um leið og þau eru ekki til nema sem fjarlægðir sem tengir aðskiljanleg fyrirbæri … í þessum ósýnilegu bústöðum tel ég víst að almættið búi … (bls.230)

… eftir rigningarskúrir dagsins verður veraldarvefurinn sýnilegur … augnablikið sem nóttin fellur glitrar á vatnsperlur á silfurstrengjum hans … náttúran er heil í samhljómi sínum … en hún fer öll í bendu ef reynt er að flokka hana með vitinu. (bls. 232)

Jónas er skýrt dreginn þvergirðingur. Hann er rekinn af ástríðu sinni, alltumgrípandi þekkingarþrá og réttlætiskennd. Hugsjónamaðurinn hvikar ekki einu sinni fyrir málstað eigin afkvæmis. Þar skilur á milli þeirra hjóna, Sigríðar og hans. Sigríður kona Jónasar stendur á þröskuldi upplýsingar þegar þau kynnast og frjóvga hvort annað. Tilhugalíf þeirra einkennist af samfelldri hugmyndaorgíu sem höfundur túlkar sem lofsöng þeirra til sköpunarverksins. Vísindamaðurinn Óli Worm fær nokkuð rými í sögunni en hann er fulltrúi hins einlæga sannleiksleitanda. Hann er með allar klær úti eftir þekkingu hvar sem henni er skipað í tignarröð og stendur eins og söguhetja okkar á mótum tveggja hugmyndaheima. Hann hefur öðlast vald fyrir þekkingu sína til þess að frelsa Jónas undan kvölurum sínum. Kvalararnir eiga sér táknmynd í héraðshöfðingjanum Ara í Ögri, gráðugum og valdasjúkum. Fleiri eru kallaðir til leiks, örlagavaldurinn Galdra-Láfi, umrenningar, afi og amma Jónasar og börn þeirra Sigríðar, geistlegt vald, griðkur og annað búandlið. Saman myndar persónuflóran mynd af hugmyndaheimi og harðri lífsbaráttu alþýðu manna á miklum umrótartíma.

Textinn er þrunginn skáldskap, margfaldur í roðinu, heimspekilegur og ljóðrænn í senn. Sjón smeygir sér eins og ekkert sé inn í málsnið sautjándu aldar og er það mikið afrek. Hann hefur tileinkað sér málfar sérvitringsins Jóns lærða í þaula en í þriðju persónu frásögn er hann trúr aldarfari í framsetningu. Hann er fundvís á hárréttu orðin upp í Jónas og fangar fjarlægt andrými, náttúruskynjun og hugmyndaheim. Á nokkrum stöðum hefja hugmyndir sig upp af síðunum og glitra fyrir augum manns. En allt í þjónustu verksins.

Segja má að á öld númer tuttugu og eitt standi mannkyn frammi fyrir þeirri áskorun að að líma saman sundraðan heim. Nú höfum við aftur áhuga á því sem tengir, frumunni, genunum. Margar grunsemdir Jónasar hafa reynst réttar. Er ekki verið að hvísla utan úr geimi á geislavirkri tungu, úr úrtíma? Genin komin á skrið, flækjast á milli manna, dýra, plantna og hluta. Sundurgreiningin hefur kostað fórnir. Það sem við höfum rifið í sundur, okkur til skilnings er nauðsynlegt að setja aftur saman í sína eiginlegu heild, við höfum aðgang að innviðunum eftir sem áður. Nú er kominn tími til að tengja eftir blint tæknihyggjuskeið sem hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Höfundur minnir okkur nútímamenn á eigin rökkurbýsnir. Maðurinn er skorinn úr sínu samhengi, heiminum er deilt niður í mig, okkur og það. Þessi skipting tekur til alls veruleikans sem er samofinn og má ekki sundur slíta. Rökkurbýsnir grúfa enn yfir. Atvinnu- og fjármálalífið þarf ekki að huga að siðferði og náttúru, læknirinn hamast á skrokknum en gleymir sál- og félagsveru, borgarskipulag tekur mið af bíl en ekki manni og menningu hans. Svona mætti lengi lengi telja. Sjón er baráttumaður hins samtengda; ímyndunarafls og samhjálpar sem hefur gleymst í efnishyggjunni.

Rökkurbýsnir er glæsilegt skáldverk sem á við okkur erindi.

 

Halldóra K. Thoroddsen