Leikhópurinn 16 elskendur hefur jafngaman af því að leika fyrir áhorfendur sína og leika sér við þá eins og augljóst er af nýjustu sýningu þeirra, Leitinni að tilgangi lífsins, sem þau setja upp á gömlu Læknavaktinni á Smáratorgi í Kópavogi. Þetta er þátttökuleikhús dauðans en ekki mínúta dauð!
Ég held að ég geti fullyrt að undirbúningurinn að þessari sýningu hafi verið sá vandaðasti af sýningum hópsins sem ég hef upplifað. Aðeins 36 áhorfendur komast að hverju sinni. Það er hringt í þá alla fyrirfram og lagður fyrir þá spurningalisti sem síðan ræður leiðinni sem þeir fara gegnum sýningaratriðin og hvaða atriði þeir fá að upplifa. Þetta voru spurningar af öllu tagi, allt frá hinni einföldu: „Hvað ætlarðu að borða í kvöld?“ að þeirri flóknu: „Hver er meðvitund þín um dauða þinn á skalanum einn til tíu?“. Einnig var að sjálfsögðu spurt hvort manni fyndist tilgangur með lífi sínu. Við komuna á „læknavaktina“ var tekið á móti okkur af hópi fólks í stuttum bláum „læknasloppum“ og merkt við á lista. Allir fengu lítinn sérútbúinn bækling í plastvasa til að hengja um hálsinn á sér. Í bæklinginn fengum við síðan að teikna, klippa út og líma inn í og það var ekki eina föndrið. Ég fékk meira að segja að búa til skúlptúr af minni eigin hamingju úr haug af tómum umbúðum. Ég valdi úttroðna súrmjólkurfernu, mola úr frauðplasti, plastglas og fjólublá og rauð gjafabönd!
Áhorfendum er skipt niður í sex sex manna hópa eftir svörum sínum í símakönnuninni. Hver hópur er svo leiddur sína ákveðnu leið milli herbergja og í hverjum áfangastað gerist eitthvað mjög óvænt. Flest var það rífandi skemmtilegt – eins og að föndra hamingjuna – en toppurinn fannst mér myrkraherbergi dauðans (sem við mjög meðvituðu fengum að fara inn í). Skemmtileg var líka dvölin „úti í náttúrunni“.
Eitthvað hef ég sagt í símaviðtalinu sem olli því að ég var einu sinni skilin eftir alein inni í lítilli kompu með verulega nærgöngulan spurningalista sem ég átti að svara upphátt. En mér var heitið því að enginn væri að taka mig upp svo ég reyndi bara að vera hreinskilin. Ég fékk líka að syngja hann Ragnar Ísleif Bragason í svefn og hafði mikla ánægju af því.
Eins og ævinlega róta þeir í hauskúpunni á manni, 16 elskendur, og hafa gaman af! En ég hafði sannarlega gaman af því líka og er raunar alveg viss um að þessi uppákoma breyti lífi mínu.
Sýningin hefur faglegt yfirbragð og engar upplýsingar eru gefnar um leikstjóra eða slík aukaatriði en í hópnum er Karl Ágúst Þorbergsson sem áður hefur stýrt sýningu hjá hópnum. Einnig áðurnefndur Ragnar Ísleifur, Eva Rún Snorradóttir, Aðalbjörg Árnadóttir, Brynja Björnsdóttir, Davíð Freyr Þórunnarson, Gunnar Karel Másson, Hlynur Páll Pálsson, Saga Sigurðardóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir. Allur viðbúnaður á staðnum sýnir frjótt hugmyndaflug, sem er auðvitað aðalsmerki hópsins, en líka nákvæm og vönduð vinnubrögð.
-Silja Aðalsteinsdóttir