Við fórum í fyrsta skipti á Ungleik í Borgarleikhúsinu í gær og fannst satt að segja talsvert til um þá reynslu. Þarna voru leikin fimm stutt verk eftir jafnmarga höfunda, leikararnir og leikstjórarnir voru úr sama áhugamannahópnum um leiklist og það er mikils að vænta af þessu unga og ástríðufulla fólki.

Fyrsta verkið, Sýslumaðurinn í Kópavogi eftir Margréti Örnu Viktorsdóttur, var miskunnarlaus og launfyndin mynd af vélrænu og tilfinningaheftu skrifræðisþjóðfélagi. Þegar verkið gerist þarf ekki aðeins að fara í Kópavoginn til að fá nýtt ökuskírteini (sem liggur ekki á lausu) heldur líka til að fá leyfi til að gifta sig. Og þá er ekki verið að tala um hefðbundin fríheit heldur leyfi til að láta velja handa sér maka eftir skyndifundi með öðrum sem vilja líka gifta sig. Victoria Björk Ferrell var móttökuritari sýslumanns og tókst aðdáunarlega vel að halda pókerfeisi í samtölum sínum við viðskiptavini í ólíku ástandi. Og krakkarnir sem komu og báðu til hennar eins og guðs á skrifstofunni, Kristín Ólafsdóttir, Jökull Smári Jakobsson, Katrín Helga Ólafsdóttir, Jón Nordal og Alexander Guðjónsson, voru hver öðrum betri. Vilhelm Þór Neto stýrði af öryggi.

Þrá eftir Jóhannes Ólafsson var ekki eins markvisst verk, kannski reyndi það að fara of víða og fjalla um of margt á þessum stutta tíma. Umfjöllunarefnið er óánægja með það sem við höfum og þráin eftir einhverju öðru og meira spennandi. Elliði (Ari Freyr Ísfeld Óskarsson) er kvæntur Borg (María Rós Kristjánsdóttir) en heldur við Líf (Margrét Ásta Arnarsdóttir) í íbúð Ragnars (Ingólfur Gylfason) sem er erlendis. Þegar hann kemur heim virðist fjara undan framhjáhaldinu en við skiljum við Elliða ósköp vansælan.

Jóhannes stýrði verki sínu sjálfur og það gerðu líka höfundar næstu tveggja verka. Plöntur og skrifborð eftir Birni Jón Sigurðsson var kannski best skrifaða verkið og vel leikið líka. Þar kynnumst við hjónunum Guðrúnu (Kristín Ólafsdóttir) og Guðmundi (Tryggvi Björnsson) sem hafa keypt sér nýtt skrifborð og ætla að rýma til fyrir því með því að losa sig við tvær stórar plöntur af gerð sem er kölluð indíánafjöður. Ég þekki þær plöntur, þær geta orðið æði plássfrekar. En þegar Guðrún er búin að losa sig við aðra reynist hún ekki geta fengið sig til að fjarlægja hina án þess þó að rökstyðja það á nokkurn hátt. Það irriterar mann hennar, sem er geysilega skipulagður og hraðmælskur, hann þolir engan afslátt afþví sem ákveðið hefur verið. Ekki skánar ástandið þegar María (Katrín Helga Ólafsdóttir) systir Guðrúnar kemur og tefur fyrir þessum merkilegu framkvæmdum á heimilinu. Verkið gefur skýra mynd af harðstjórn á heimili og leikararnir sýndu því fullan skilning. Sérstaklega öflugur var Tryggvi sem hinn dómharði eiginmaður, og sérfræðingamálið sem hann talaði var hrein snilld.

 

Milli svefns og vöku eftir Þórhildi Dagbjörtu Sigurjónsdóttur var byggt á virkilega skemmtilegri hugmynd sem líka var vel útfærð. Melkorka (Katla Ársælsdóttir) er að reyna að sofna, framundan er erfiður skóladagur. Í huga hennar takast álitaefnin á og holdgerðar innri raddir, hugsanir um framtíðina (Thea Atladóttir), fortíðina (Helgi Grímur Hermannsson) og allt bullið og vitleysuna í nútíðinni (Jón Nordal), halda fyrir henni vöku. Þórhildur leikur á marga og ólíka strengi í þessu stutta en eftirminnilega verki, hlutar þess eru ljóðrænir, aðrir ljónfjörugir og svo á djúp alvara raunveruleikans líka sinn stað.

Lokaverkið, Austurglugginn eftir Matthías Tryggva Haraldsson, átti lengst í land enda efnið erfitt: það fjallar um heimsendi og sannleikann, hvorki meira né minna. Alma Mjöll Ólafsdóttir stýrði. Það besta við þetta verk var að það gaf Tryggva Björnssyni færi á að skapa allt allt öðruvísi týpu en í Plöntum og skrifborði. Hann getur ýmislegt, sá drengur.

Ég tek af einlægni undir með Stefáni Ingvari Vigfússyni, skipuleggjanda Ungleiks, og óska þess að Ungleikur fái að lifa og dafna. Það er ómetanlegt að sjá fjölbreytnina og hæfileikana sem þetta unga fólk sýnir. Það fyllir mann bjartsýni á að næsta kynslóð eigi eftir að endurnýja menningararf okkar af krafti og hugkvæmni.

Silja Aðalsteinsdóttir