Ingólfur Eiríksson: Stóra bókin um sjálfsvorkunn.

Mál og menning, 2021, 284 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022.

 

 

Stóra bókin um sjálfsvorkunn

Skáldsaga Ingólfs Eiríkssonar hefst á markvissri tilvitnun í ljóðabók Hauks Ingvarssonar Vistarverur (2018). Ljóðið hljóðar svo:  

einhvern tímann
ætla ég að kafa

niður að flakinu
rannsaka káeturnar
beina mjóum ljósgeisla
út í myrkur undirdjúpanna
og grafast fyrir um leyndarmál mannanna

þeirra dauðu
þeirra lifandi
þeirra lifandi dauðu

Þetta ljóð er á bæði inngangur og undirtexti skáldsögunnar sem á eftir fer. Tíminn til að „rannsaka káeturnar“ í hinu sokkna skipi er kominn en þó grafist sé fyrir um leyndarmál mannanna liggja þau ekki alltaf á lausu. Í Stóru bókinni um sjálfsvorkunn er mjóum ljósgeisla beint inn í mikil myrkur til að finna það sem sefur í djúpunum.

Slík leit er aldeilis ekki ætlun sögumannsins í upphafi bókar, þá blasir framtíðin við honum, björt og fögur, og fortíðin er ekki á dagskrá.

Sögumaðurinn heitir Hallgrímur/Halli og er á leið til framhaldsnáms í útlöndum með kærustunni sinni, Aðalheiði. Þau hafa verið saman í fimm ár, það er langur tími í lífi ungs fólks. Þau eru ástfangin og halda að þau þekkist vel en gera það ekki. Skólaganga, vinir og fjölskyldur hafa fyllt líf þeirra en flutningar til útlanda, til langs tíma, eru stökk út í hið óþekkta. Hallgrímur ætlar í framhaldsnám í leiklist, Aðalheiður í bókmenntafræði, og eftir því sem sögunni vindur fram kemur í ljós hve ólík þau eru.

 

Að vera útlendingur í eigin lífi

Í bókinni Útlendingar í eigin lífi (Strangers to ourselves, 1988) lýsir Júlía Kristeva því eftirminnilega hvað felst í því að vera innflytjandi eða útlendingur í framandi landi. Það er margt sem hangir á þeirri spýtu. Útlendingurinn er án fjölskyldu og foreldra, hann er „munaðarlaus“ án verndar og ástar fjölskyldu sinnar. Missir móðurmálsins hefur í för með sér missi sjálfsmyndar. Útlendingurinn getur ekki tjáð sig af list, ef hann reynir að vera fyndinn skilst hann ekki, hann getur ekki reynt að vera andríkur án þess að gera sig að fífli, hann getur ekki vísað til sameiginlegrar menningar eða minninga. Hann skilur enga hálfkveðna vísu, hann verður fámáll og alvarlegur. Einmanaleikinn fyllir tilveru hans og sömuleiðis reiði í garð heimamanna sem vilja ekki skilja hann. Þeir sæta færis á að auðmýkja hann og lítilsvirða og gera sig breiða. Fáfróðir og fyrirlitlegir líta þeir niður á hann. Hatrið getur gefið innflytjandanum nýjan og vafasaman tilgang, segir Kristeva.

Einhvern veginn svona líður Hallgrími eftir nokkrar vikur í nýju lífi. Hann er skáld og leikari og á erfitt með að tjá sig og spinna á nýju tungumáli. Hann treystir ekki kennurunum eða samnemendum, þekkir ekki húmor þeirra eða vísanir. Hann leggur sig allan fram til að byrja með en óöryggi hans og óstöðugt sjálfstraust, kvíði og vanlíðan magnast, hann byrjar að skrópa úr skólanum og flýja vandamálin.

Aðalheiði gengur hins vegar vel að fóta sig í nýju tungumáli og menningu, öfugt við kærastann er hún sjálfsörugg og óhrædd. Hann spyr sig: „Hvenær gerðist þetta? Hvenær varð hún hluti af hlutföllum borgarinnar, mannfjöldanum, háhýsunum, hávaðanum. Það er eins og hún taki ekki lengur eftir hrikalegri stærðinni. Kannski á maður ekki heima einhvers staðar fyrr en maður hættir að taka eftir hlutunum.“ (160)

Dimm og skítug íbúðin sem unga fólkið býr í verður uppspretta óhugnaðar og ofsóknarhugmynda eins og í svo mörgum hryllingsmyndum. Þau reyna að gera hana vistlega en myglan í loftinu á baðherberginu lifir eigin lífi sem breiðist út og sveppirnir hóta að taka yfir loft og veggi og detta ofan í baðkarið. Ofsóknarhugmyndirnar verða hluti af vaxandi kvíða og geðröskunum Hallgríms og Aðalheiður nær ekki til hans. Hann byrjar að ljúga að henni um það hvernig hann eyðir dögunum.

 

Gríma

Í öllum fjölskyldum eru svartir sauðir, fíklar, sérvitringar, ofvitar, þunglyndissjúklingar og fólk á einhverju rófi. Stundum er talað um þá og sagðar gamansögur af þeim innan fjölskyldunnar, stundum er þagað um þá og nafn þeirra hjúpað vanþóknun, sektarkennd og skömm.

Það er rökrétt að Hallgrímur samsami sig svörtu sauðunum í þeirri stöðu sem hann er kominn í. Hann reynir að bæta sér upp „móðurmissinn“ með því að reyna að endurgera líf Grímu, móðursystur sinnar sem lifði og dó í sömu borg og hann býr nú í. Hún var rithöfundur en er nánast gleymd, hún var tvíburasystir móður hans en Hallgrímur veit lítið um hana og móðir hans nefnir hana sjaldan. Nú býr hann borginni þar sem hún dó en hann veit ekki einu sinni hvernig hún dó. Hver var hún? Bíða hans sömu örlög? 

Hann reynir líka að búa sér til einhverja mynd af móðurbróður sínum sem er nýdáinn. Líf hans virðist hafa einkennst af stillilegri og góðri nærveru en líka yfirgengilegri söfnunaráráttu, húsið hans er troðfullt af dóti upp í rjáfur, safnað saman eftir furðulegu kerfi, dagbækur hans eru fullar af bókhaldi yfir hversdagshegðun hans en engu sem gæti gefið neinar upplýsingar um sálarlíf hans. Þær eru undarlega ópersónulegar. Spyrji Hallgrímur um þessa undarlegu ættingja verður fátt um svör. Þögnin um þessa nánu ættingja í móðurætt mætir Hallgrími þegar hann spyr.

Í óttaköstum sínum er Halli ekki lengur herra yfir huga sínum og það er ansi ógnvekjandi, kvíðaköstin verða yfirþyrmandi og lyfjanotkunin meiri. Það eru betri kaflar inn á milli í tilverunni en þeir verða styttri og færri, fyrirhugaðir sigrar bæði í náminu og ástum láta á sér standa og hin línulega frásögn af glæsilega fyrirmyndarparinu í upphafi sögunnar er orðin táknmynd án táknmiðs. Aðalheiður fer frá honum að lokum og bókin hefst á því að Hallgrímur er á leið heim til Íslands á geðdeild.

 

Uppgjörið mikla 

Stóra bókin um sjálfsvorkunn minnir um margt á hina frægu bók Ágústs Strindberg, Infernó (1896–1897) sem lýsir sams konar niðurbroti listamanns. Hin línulaga sigursaga Strindbergs á sviði vísindanna, þ.e. gullgerðarinnar, reynist sjálfsblekking og sagan af þeirri niðurlægingu verður brotin og óreiðukennd. Við tekur óreiðukenndari framsetning og hugarflug sem leiðir hann inn í síðasta og besta tímabil sköpunarferlisins, að mati Per Staunbjerg.

Saga Strindbergs er ekki ævisaga heldur að einhverju leyti ákæruskjal á hendur kvenna og aumingja sem vinna gegn honum og ofsækja hann í allri grein. Saga hans er afar narkissísk og hann hefur engan áhuga á sögu annars fólks eða forsendum þess. Hans saga gæti vel heitið „Stóra bókin um sjálfsvorkunn“ en Saga Hallgríms gæti heitið Infernó því leið þessa unga manns liggur frá helvíti upp gegnum hreinsunareld Páls geðlæknis og hans eigin lífsvilja.

Stóra Bókin um sjálfsvorkunn er ekki sjálfsævisaga frekar en saga Strindbergs. Saga Hallgríms felur í sér eins konar núllpunkt hugverunnar og nýja byrjun. Hún felur í sér rannsókn á sektarkenndinni og sársaukanum sem fylgir því að brotna og falla út úr því félagslega og tilfinningalega samhengi sem einu sinni var sjálfsagt og gefið, en getur aldrei orðið það aftur. Hún er krafa um að láta af ofmetnaði og þakka það sem manni var gott gefið í upphafi.

Fyrir Stóru bókina hafði Ingólfur Eiríksson gefið út tvær ljóðabækur, Línulega dagskrá (2018) og Klón. Eftirmyndarsögu (2021). „Söguhetjan“ í þeirri síðastnefndu er hundurinn Samson, sem búinn er til á tilraunastofu úr genum Sáms, hins elskaða hunds Dorit Moussaieff. Klón er morðfyndin bók en undirtónar hennar eru dauðans alvarlegir því að hún fjallar um mörkin sem mönnum eru sett af náttúrunnar hálfu. Eða af Guðs hálfu – ef út í það er farið. Alltaf skal hann setja mönnunum stólinn fyrir dyrnar ef þeir setja sig í hans stað í ofmetnaði sínum og minna á að sköpun þeirra er aldrei annað en eftirmyndir verka hans.

Stóra bókin um sjálfsvorkunn er fyrsta skáldsaga Ingólfs Eiríkssonar en það eru ekki hin minnstu byrjendaeinkenni á henni. Þetta er glæsileg bók og áhrifarík. Hún er afar vel byggð og mjög vel skrifuð, hefst á endinum og rekur sig gegnum það óvænta ferli sem leiddi þangað og fæðir af sér nýtt ferli, sem væntanlega mun halda áfram að „beina mjóum ljósgeisla út í myrkur undirdjúpanna og grafast fyrir um leyndarmál mannanna“.

 

Dagný Kristjánsdóttir