Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan byrjar á endinum í Kandílandi, dansverkinu sem verið er að sýna í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Líklega hafa þau verið að hugsa um málsháttinn „í upphafi skyldi endinn skoða” því strax þá, í fjölbreyttum tilburðum leikara í framkalli, reyndu þau að toppa hvert annað, taka ný afbrigði af þakkarviðbrögðum að láni frá næsta manni á undan og bæta við þau, ýkja, stækka, skrumskæla. Þetta varð smám saman mjög fyndið og einkar afhjúpandi fyrir siði sviðslistamanna, auk þess sem það gaf tóninn fyrir það sem kom á eftir.
Félagarnir fimm í Samsteypunni, fjórar stúlkur og einn piltur, hafa unnið svipmyndir af örlögum tignarfólks upp úr leikritum Shakespeares. Þeir sem eru betur kunnugir konungaleikritum hans en ég geta eflaust þekkt þar ýmsar sögur; ég þóttist sjá að einn kóngurinn yrði galinn en ekki veit ég hvort hann var byggður á Lé, Lér er bara nærtækur af því maður er nýbúinn að fylgjast með örlögum hans á sviði. Það sem varð eins skýrt og verða má í verkinu var hvað völd eru viðsjál og geta verið skammæ, jafnvel einræðisherrum með blátt blóð má steypa af stóli, loka þá inni í fangelsi, jafnvel drepa eins og hunda. Þessu lýstu dansararnir með látbragði og vel úthugsuðum hreyfimunstrum sem mörg hver voru virkilega áhrifamikil, til dæmis flókni handabandavefurinn sem kastaði einum kónginum miskunnarlaust milli manna. Táknið sem útrétt hönd gefur um vináttu og sátt varð ávísun á fláttskap og ofbeldi. Ansi hreint flott gert.
Sviðsmyndin er eftir Eirúnu Sigurðardóttur, einn þremenninganna í hinum frumlega og fjöruga Gjörningaklúbbi, og hún var mjög þénug. Skrautið á veggjunum var búið til úr kandíflossi sem dansararnir notuðu sér á ýmsan hátt, á gólfinu var ryk sem gerði búningana, svört jakkaföt utan yfir hvíta skyrtu og vesti, smám saman ansi þvælda (valdið gerir mann skítugan). En mest áberandi var geysistór kúla, hvít en skreytt marglitum skrautsteinum, sem hékk niður úr loftinu. Hún náði alveg niður á gólf í upphafi leiks en var hífuð upp um eitt hak í hvert skipti sem nýr kóngur tók við af þeim næsta á undan. Prýðileg hljóðmyndin var í höndum Gísla Galdurs Þorgeirssonar en Víkingur Kristjánsson leikstýrði. Ég þakka flytjendunum, Katrínu Gunnarsdóttur, Melkorku Sigríði, Ragnheiði Bjarnarson, Sveini Ólafi Gunnarssyni og Vigdísi Evu Guðmundsdóttur innilega fyrir skemmtunina.