Stundum er forvitnilegt að fara á leiksýningu þegar margir eru búnir að tjá sig um hana, einkum ef þeir eru ekki sammála, og bera eigið mat saman við mat hinna. Gagnrýnendur Djöflaeyjunnar voru til dæmis ekki hrifnir af Furðulegu háttalagi hunds um nótt í Borgarleikhúsinu en Hlín Agnarsdóttir gaf fjórar og hálfa stjörnu í DV, aðrir matsmenn voru þar á milli. Við fórum í gærkvöldi og ég tek heils hugar undir stjörnugjöf Hlínar. Þetta er sterk og áhrifamikil sýning, fantavel leikin og mikið leikhús.
Leikritið er reist á skáldsögu eftir breska höfundinn Mark Haddon. Þar segir frá einhverfa drengnum Christopher Boone (Þorvaldur Davíð Kristjánsson) sem nornirnar hafa ekki skapað þægileg örlög. Að vísu hefur hann merkilega stærðfræðigáfu sem vonandi gagnast honum vel í framtíðinni en hann á svo erfitt með að hemja geðsveiflur sínar og sérvisku að hann er foreldrum sínum, kennara og öllu umhverfi afar erfiður. Svo erfiður raunar að móðir hans (Nína Dögg Filippusdóttir) hefur látið sig hverfa í upphafi leiksins.
Atvikið sem hrindir atburðarás verksins af stað er morð á hundi grannkonunnar frú Shears (Maríanna Clara Lúthersdóttir) eina nótt nákvæmlega sjö mínútum eftir miðnætti. Christopher finnur hundinn og er að reyna að hlúa að honum þegar komið er að og eðlilegt að saka hann um að hafa drepið hundinn. En Christopher getur ekki sagt ósatt, það er sérkenni hans að hann segir alltaf satt (þó að hann læri í verkinu að segja ekki alltaf allan sannleikann) og þegar lögreglumaðurinn (Jóhann Sigurðarson) er búinn að átta sig á því sleppir hann Christopher með áminningu. Chris ákveður þá að komast að því hver drap hundinn – hann heldur mikið upp á Sherlock Holmes og er ekkert á móti því að verða einkaspæjari – og sú leit leiðir hann í stóran hring heiman og heim áður en lýkur. Því má segja að um leið og verkið er stúdía á hugsanagangi og hegðun manneskju eins og Christophers bæti höfundur bókarinnar afar sérstæðri persónu í stórt gallerí leynilögreglumanna í vestrænum bókmenntum.
Saga Marks Haddon er sögð í fyrstu persónu Christophers og höfundur leikgerðarinnar, Simon Stephens, fer þá leið að gera kennara Christophers, Siobhan (Brynhildur Guðjónsdóttir) að samverkamanni hans, talsmanni og innri rödd til að hún glatist ekki í leikgerðinni. Þetta er farsæl leið og Brynhildur fór létt með að vera bæði kennarinn og hugur Christophers.
Leikhópurinn var allur mjög sterkur og Hilmar Jónsson leikstjóri notar hann einstaklega vel bæði til að túlka ákveðnar persónur eins og venja er og til að skapa umhverfi, jafnvel sem leikmuni. Í fjöldasenum, einkum á ferðalagi Christophers, skapar hópurinn sérkennilega sterkar umhverfismyndir á móti frábærri leikmynd Finns Arnars Arnarsonar og lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar þannig að maður greip stundum andann á lofti af aðdáun. Þar á danshöfundurinn Lee Proud eflaust stóran hlut að máli. Það var makalaust hvernig sköpuð var mynd af fjölfarinni járnbrautarstöð, kunnugleg þeim sem þekkja slíka staði og jafnframt með innsýn í reynslu þess sem hefur aldrei komið þangað áður. Auk aðalleikara eru í hópnum Jóhanna Vigdís Arnardóttir (atriðin milli hennar í hlutverki frú Alexanders og Christophers voru rosalega fín, fyndin og sorgleg í fallegri blöndu), Sigurður Þór Óskarsson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Arnar Dan Kristjánsson og verða öll minnisstæð, hvert á sinn hátt. Hlutverkin voru geysimörg og fjölskrúðugir búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur skipta tugum þótt söguhetjan sé alltaf í sama jogginggallanum.
En mest mæðir á foreldrum og syni. Bergur Þór og Nína Dögg sýndu vel hvað það þýðir að eiga barn eins og Christopher og maður gat ekki annað en þakkað fyrir að geta skilið vandamálið eftir í leikhúsinu í leikslok. Þorvaldi Davíð er sá sérstaki vandi á höndum að hann þarf í senn að vera óþolandi og vekja með manni ábyrgðartilfinningu og jafnvel væntumþykju. Þetta finnst mér honum takast makalaust vel enda lifir hann sig inn í persónu Christophers á sannfærandi hátt og dettur aldrei út úr hlutverkinu. Ég velti fyrir mér í lokin hvers vegna hann dytti ekki einu sinni út úr því í uppklappinu en það reyndist eiga sína skýringu sem áhorfendur geta hlakkað til að upplifa.