Tjarnarbíó tekur vel á móti Lísu og Lísu frá Akureyri, endurraðar í salnum þannig að áhorfendur sitja allt í kringum þær. Þær eru umkringdar gestum sínum og fer vel á því. Á myndum frá Akureyrarsýningunni má sjá að þessi uppröðun breytir nokkru, hér hafa þær til dæmis enga veggi til að hengja myndaprops á, og svo mundu þær ekki alltaf eftir því að leika hringinn. Hvorugt þessara atriða kemur þó verulega að sök, og verði sýningin eins vinsæl og troðfullur salur í gær benti til þá venjast þær fljótt þessum nýju aðstæðum.
Leikverkið Lísa og Lísa er eftir írsku skáld- og leikkonuna Amy Conroy og var frumsýnt í Dublin 2010. Það fjallar um tvær bernskuvinkonur sem hittast aftur ungar konur og verða ástfangnar. Þær eru nú, þegar þær segja sögu sína, komnar vel á sjötugsaldur og hafa því lifað tímana tvenna, laumuspil framan af en smám saman eintóm þægilegheit. Tilefni sýningarinnar er beinlínis það að þær voru staðnar að kossaflensi í kjörbúð og voru beðnar að koma fram og segja frá sér, öðrum til upplýsingar og skemmtunar. Lísa Sveins (Saga Jónsdóttir) var treg til þess í fyrstu, hún er hlédræg og stillt, en Lísa Konráðs (Sunna Borg) var strax uppveðruð; það er hennar eðli.
Sagan sem þær segja er hvorki verulega viðburðarík né dramatísk. Hún minnti á að það hefur alltaf þótt sjálfsagt mál að tvær konur byggju saman. Það var viðurkennt og algerlega leyfilegt sambúðarform. Þetta gátu verið frænkur, systur, mæðgur, ekkjur, vinkonur; auðvitað þurfti ekkert kynferðislegt að vera við slíkt. Þetta hefur alltaf verið erfiðara fyrir karla – nema þá náin skyldmenni. Lísa og Lísa ráku sig helst á óþægileg horn hjá sínum nánustu sem vonuðust til að þær giftu sig og eignuðust börn. Raunar var Lísa Sveins gift, hún fór ekki að búa með Lísu Konráðs fyrr en hún var orðin ekkja, en það varð hún snemma. Og barnlaus.
Það er afskaplega notalegt að heyra þær tala um sjálfar sig og líf sitt saman. Þetta eru hvort tveggja sjarmerandi konur sem stafa frá sér hlýju og gleði og þær runnu svo skemmtilega saman við hlutverkin sín að maður þurfti að taka í hnakkadrambið á sér við og við og minna sig á að Saga og Sunna væru ekki Lísa og Lísa! Þetta er falleg vinna hjá leikkonunum og leikstjóranum, Jóni Gunnari.
Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og staðfærir það á Akureyri. Mér fannst það takast prýðilega yfirleitt, það er kannski ekki svo mikill munur á stórum og minni bæ á Írlandi og Íslandi. Þó get ég vel ímyndað mér að Lísa og Lísa hefðu þurft að takast á við meiri fordóma í upprunalandinu en hér heima. Bara eitt atriði truflaði, það er þegar þær missa vini sína, sem heita enskum nöfnum og eru líklega amerískir. Þær höfðu kynnst þeim í utanlandsferð og segjast heimsækja leiðið þeirra á hverju ári. Á maður þá að trúa því að þær fari frá Akureyri á sama stað erlendis árlega? Leikmynd Móeiðar Helgadóttur er huggulegt alrými, stofa, borðstofa og eldhús, og svolítið ýkt ljósahönnun Þórodds Ingvarssonar ýtti undir tilfinningasemi verksins. Að öllu samanlögðu er þetta indæl sýning sem minnir okkur á fjölbreytileika mannlífsins bak við hversdagslega framhlið.