Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Sally Cowdin sýndu glænýtt verk sitt Release eða Létti í Mengi í gærkvöldi á Fringe hátíðinni fyrir yfirfullu húsi. Verkið sömdu þær sjálfar, upp úr eigin reynsluheimi að einhverju leyti, eftir því sem þær segja sjálfar, og Unnur Elísabet leikstýrir með aðstoð nokkurra góðra leikkvenna.

Við erum stödd á salerni á opinberum stað. Inn í básinn vinstra megin gengur ung kona, frjálslega klædd í bleikar buxur og hvítan bol (Unnur Elísabet), og fer að búa um sig eins og til að æfa sig á hljóðfæri þar inni. Þegar hún er búin að koma sér nokkuð vel fyrir heyrir hún að gustmikil kona gengur inn á básinn hægra megin en sér hana auðvitað ekki. Við sjáum hana aftur á móti og hún er sjón að sjá: í hvítum brúðarkjól, með berar axlir en geysistóra slaufu framan á barminum, einna líkasta peysufataslaufu (Sally Cowdin). Á höfðinu er hún þó ekki með slör eða kórónu heldur bleikan hatt. Litirnir í búningum beggja kallast því á og þegar hvítir litir salernisins bætast við verður heildarmyndin afar kvenleg. Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir sá um þá hlið sýningarinnar en Ásta Jónína Arnardóttir sá um lýsingu.

Brúðurin hægra megin stynur og grætur og ber sig illa þannig að tónlistarkonan vinstra megin getur ekki stillt sig og fer að tala við hana yfir vegginn á milli þeirra. Fljótlega kemur í ljós að brúðurin hefur flúið úr sínu eigin brúðkaupi og neitar að svara þegar síminn hennar hringir. Tónlistarkonan finnur sárt til með henni og fer strax að reyna að hugga hana og peppa hana upp og fljótlega eru þær komnar á bullandi trúnó þótt þær sjái ekki hvor aðra. Tónlistarkonan leikur meira að segja fyrir hana á úkúlelið sitt og syngur fyrir hana skondnar barnavísur um það sem við gerum á klósettinu!

Í trúnaðarsamtalinu kemur margt á daginn, bæði um það almennt að vera kvenmaður, hvað það þýðir í atvinnulífinu, hvað það þýðir í ýmsu sértæku sem ekki er talað um upphátt (við erum fæddir blæðarar – „born to bleed“!) og hvort það er bölvun eða blessun að eiga börn (tónlistarkonan á þrjú og flýr gjarnan inn á salerni þar sem hún getur lokað að sér og fengið næði). Smám saman losa þær sig við ýmislegt sem hefur íþyngt þeim gegnum árin eða bara undanfarna daga, og eftir klukkutíma er þeim svo létt að þær geta haldið út í daginn nýjar manneskjur.

Persónurnar í leiknum verða skýrar og skemmtilega ólíkar. Persóna Unnar Elísabetar er konan sem er vön að redda hlutunum, lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, ræðst bara á vandann og leysir úr honum. Hún hagar máli sínu eftir því hvað kemur sér best fyrir viðmælandann og skiptir um skoðun í hvelli ef þörfin breytist. Persóna Sallyar er dulari, bælir hlutina þangað til allt springur en reynist samt vera móttækileg fyrir huggun Þegar hún býðst. Kunnuglegar týpur og sannfærandi manneskjur.

Þetta er sniðugt verk og þarft og fór afskaplega vel í salinn í Mengi í gærkvöldi, ekki síður strákana en stelpurnar, heyrðist mér. Ég óska Unni og Sally velfarnaðar á ferðalaginu með það um heiminn á næstu vikum. Fyrst og fremst óska ég þess þó að það verði sett upp á Íslandi á íslensku á næsta leikári. Það væri virkilega gaman að sjá það aftur og njóta þess ennþá betur á sínu eigin tungumáli.

Silja Aðalsteinsdóttir