Brúðuleikhúsið Handbendi sýndi í dag nýja sýningu sína, Tröll, í Tjarnarbíó. Höfundur, hönnuður, brúðusmiður og annar tveggja leikara í sýningunni er Greta Clough sem einnig rekur leikhúsið á Hvammstanga. Aldís Davíðsdóttir stjórnaði brúðunum með henni en Sigurður Líndal Þórisson leikstýrði.
Tröll er því sem næst orðlaus sýning um viðbrögð tröllanna sem voru fyrir í landinu þegar fyrstu mennirnir komu hingað. Þau eru ósköp vansæl, eðlilega, enda hipphoppa mennirnir yfir allt í sínum rauðu kuflum eða skikkjum og þótt þeir séu smáir miðað við tröllin eru þeir æði afkastamiklir í að reisa híbýli og kirkjur. Verst er tröllunum við hljóminn í kirkjuklukkunum sem beinlínis meiðir eyrun í þeim. Ein lítil stúlka vingast þó við tröllin og kannski tekst henni að sætta þau við mennina með ástúð sinni.
Brúðurnar eru verulega vel heppnaðar, einkum eru tröllin fáránlega skemmtileg – eins og gerð úr hrauni og mosa. Og landið var úr sama efni enda gátu tröll sprottið fram hvar sem var þannig að allt landið virtist lifandi. Sagan var ekkert sérstaklega skýr fyrir börn og hefði grætt á svolitlum texta til aðstoðar, þó höfðu drengirnir sem með mér voru alveg náð vissum þræði. En þeir voru ekki sammála um hverjar verurnar í rauðu skikkjunum væru. Aðalsteinn 6 ára hélt því fram að þær væru álfar sem ættu þá í átökum við tröllin, en Arnmundur 9 ára, sem kann meira í Íslandssögu, hélt því fram að þetta væru munkar. Ég sagði þeim mína meiningu en treysti mér ekki til að skera úr um það hvert okkar hefði rétt fyrir sér.
Tónlistin er eftir Paul Mosley og var bæði tjáningarrík og aðlaðandi. Þar má m.a. heyra í tröllakór sem Pálína Fanney Skúladóttir og Daníel Geir Sigurðsson stjórna og einsöng Hrafnhildar K. Jóhannesdóttur sem syngur eina textann í sýningunni.