Svartur hundur prestsins

Í gærkvöldi var svo Svartur hundur prestsins eftir Auði Övu Ólafsdóttur frumsýndur í Kassanum í Þjóðleikhúsinu undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Fyrsta leikrit þessa dáða skáldsagnahöfundar bar sannarlega engin byrjandamerki; það skal sagt undir eins í upphafi að þetta var einstaklega frumleg, falleg og fyndin sýning.

Það var freistandi í hléi og eftir sýningu að ímynda sér hvernig hægt hefði verið að fá út úr orðanna hljóðan allt aðra sýningu en þá sem við sáum, því í búnn og grúnn er þetta klassískt stofuleikrit eins og hafa verið vinsæl síðustu hálfa aðra öld eða svo. Við erum í heimsókn hjá ekkjunni Steingerði (Kristbjörg Kjeld) ásamt börnum hennar og tengdasyni. Hún hefur boðað þau í kaffi og vöfflur til að ræða framtíðaráform sín. Dæturnar Marta (Margrét Vilhjálmsdóttir) og Magdalena (Nanna Kristín Magnúsdóttir) vita vel hvernig þær vilja að þessi framtíð verði, nefnilega þægilegt letilíf á elliheimili þar sem vel verður hugsað um mömmu gömlu, og eiginmaður Mörtu, Njáll (Baldur Trausti Hreinsson), kemur vel búinn undir þá framtíð með pappír sem bara þarf að skrifa undir. En sonurinn Skarphéðinn (Atli Rafn Sigurðarson), sem er kominn langt að í þetta vöffluboð, veit að móðir hans hefur allt aðrar og meira spennandi hugmyndir um framtíðina og er algerlega á hennar bandi. Hann vill líka tala um föður þeirra systkina og leyndarmál hans en það vilja systurnar alls ekki.

Átök milli kynslóða, leyndarmál og lygar, öfund, einelti og tilfinningakuldi í fortíð og nútíð fjölskyldna, allt eru þetta klassísk viðfangsefni í stofuleikritum, en Auður Ava lætur sér ekki nægja að koma þeim áleiðis í orðum, þau ná að hennar mati svo stutt til að tjá það sem við þurfum að segja. Við orðin bætir hún því æði, hreyfingum af ólíku tagi og líka söng. Systurnar segja kannski hinar hversdagslegustu setningar en um leið sjáum við hvernig þeim líður hið innra á því hvernig þær iða sér til og kiða, klóra sér, færa til veggi og troða sér inn í króka og kima, stinga jafnvel hausnum í poka …

Svartur hundur prestsins

Þetta verður auðvitað skemmtilega absúrd og fyndið en líka einkennilega áhrifamikið enda gengu leikararnir hugmyndinni á hönd algerlega hiklaust og unnu úr henni af mikilli hugkvæmni undir styrkri stjórn Kristínar. Þau voru öll senuþjófar, hvert á sinn hátt, og erfitt að stilla sig um að skrifa heila ritgerð um frammistöðu hvers og eins þótt ekki eigi það heima hér. Kristbjörg var beinlínis stórbrotin í hlutverki hinnar margslungnu ættmóður. Við fengum að sjá og heyra vitnisburð um langt líf konu og maður heldur ennþá daginn eftir áfram að reyna að gera sér grein fyrir persónuleika hennar og tilfinningum til bónda síns og barna í fortíð og nútíð. Dásamleg persóna frá hendi höfundar sem Kristbjörg gæddi lífi og lit. Dæturnar gátu vel verið skyldar Goneril og Regan Lésdætrum, svo margræðar voru þær í túlkun Margrétar og Nönnu Kristínar. Ekki hef ég lengi séð Margréti vinna eins makalaust vel og ég óska Helgu Björnsson sérstaklega til hamingju með hvað hún klæddi hana glæsilega. Skarphéðinn er öllum ráðgáta nema móður sinni og Atla Rafni tókst að koma áhorfendum á óvart hvað eftir annað – svo ekki sé meira sagt. Njáll er á yfirborðinu einfaldasta persónan en einnig hann á sínar myrku hliðar sem Baldur Trausti lét glitta í á nettan hátt.

Þegar við leikinn bætist að orðlistin er markviss, óvænt og fyndin, sviðsmyndin í mörgum spennandi lögum (Elín Hansdóttir), hreyfingarnar óvæntar og einkar tjáningaríkar (Melkorka Sigríður Magnúsdóttir), búningarnir úthugsaðir (Helga Björnsson), lýsingin tjáningarík (Halldór Örn Óskarsson) og tónlistin alltumvefjandi og merkingarbær (Gísli Galdur Þorgeirsson) þá verður útkoman engu lík. „Þetta er það sem kallað var tótal teater,“ sagði leiklistarfrömuðurinn frú Vigdís Finnbogadóttir eftir frumsýninguna.

Hér sameinuðust allar listgreinarnar í æðri einingu. Ekki missa af Svörtum hundi prestsins!

 

Silja Aðalsteinsdóttir