Gaflaraleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi nýtt íslenskt leikverk með söngvum eftir Karl Ágúst Úlfsson (texti) og Eyvind Karlsson (tónlist) um gamalkunnugt og ástsælt efni: Góði dátinn Svejk og Hasek vinur hans. Verkið byggir Karl Ágúst annars vegar á skáldsögu Haseks um Svejk sem hefur komið út margsinnis á íslensku í rómaðri þýðingu Karls Ísfeld og hins vegar á ævisögu Jaroslavs Hasek eftir Cecil Parrott. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.
Ég á náinn ættingja sem kann söguna um góða dátann Svejk utanbókar. Bæði hefur hún lesið bókina og hlustað á Gísla Halldórsson lesa hana. Lestur Gísla notar hún sem svefnmeðal, lætur hann lesa fyrir sig á kvöldin ef hún á bágt með að sofna og fylla andvökur á næturnar. Þetta er áreiðanlega mun hollara en pillur. Það var líka auðséð og heyrt í gærkvöldi hvað það er við þessar sögur og persónu Svejks sem vekur slíka ást og hlýju í hugum fólks. Svejk er „óforbretanlegur“ eins og Shura, rússnesk eiginkona Haseks (Þórunn Lárusdóttir), segir um mann sinn, einfeldningur sem þó sér í gegnum alla vitleysuna í stríðsbrölti þjóðanna – eða snillingur sem orðar háfleyga heimspeki sína svo að hvert barn getur skilið.
Í verki Karls Ágústs eru sögurnar af Svejk fléttaðar inn í frásögn af ævi höfundar hans sem Karl Ágúst leikur sjálfur. Það gefur Karli Ágústi dýrmætt tækifæri til að flétta saman gleði og harm, grát og hlátur, því eins hlægilegar og uppákomurnar eru í lífi Svejks þá er ævi höfundar hans ömurlegri en orð fá lýst. Hann er örsnauð fyllibytta sem hefur brotið allar brýr að baki sér, bakað sér óvinsældir með þjóð sinni og vanrækt börnin sín og fyrri konu, og Karl Ágúst gerir ljóst að bókin sem heldur nafni Haseks á lofti hefði aldrei orðið til nema fyrir einbeitni og þrjósku Shuru.
Hasek tók sjálfur þátt í heimsstyrjöldinni og lenti í fangabúðum Rússa. Þegar hann losnaði úr þeim var hann áfram um tíma í Rússlandi þar sem hann giftist Shuru – þó að hann væri kvæntur maður heima í Tékklandi – og fór með hana til Prag. Þangað komu þau um 1920 og á árunum þrem sem Hasek átti ólifuð skrifaði hann bókina um góða dátann Svejk, og það er einmitt á þessum árum sem verk Karls Ágústs gerist. Hasek situr á kránni ásamt ritara sínum Stepanek (Eyvindur Karlsson) og spinnur upp eða rifjar upp sögur úr stríðinu sem allar snúast um uppáhaldspersónu hans og eins konar alter ego, óbreytta hermanninn Svejk (Hannes Óli Ágústsson), hinn lægsta af öllu lágu.
Svejk starfar mest sem þjónn yfirmanna í hernum og eitt eftirminnilegasta atriðið í sýningunni lýsir því þegar „eigendaskipti“ verða á Svejk. Þá tapar Katz herprestur (Karl Ágúst) Svejk í fjárhættuspili við Lúkás höfuðsmann (Eyvindur). Eflaust njóta þeir betur leikverksins sem þekkja til bókarinnar en bestu atriðin – eins og óborganleg sena milli Svejks og Katyar (Þórunn), ástkonu höfuðsmannsins – hafa þó alveg sjálfstætt gildi. Og heimspeki Svejks, nístandi háðsádeila hans á stríð, heldur líka sínu gildi.
Leikarar aðrir en Hannes Óli leika fjölmörg hlutverk og var talsvert um búningaskipti. Guðrún Öyahals búningahönnuður var þó mjög hugkvæm og leyfði leikurunum að steypa lausum flíkum yfir búninga sína í stuttum atriðum til að flýta fyrir og fór oft ágætlega á því. Leikmyndin var líka verk Guðrúnar. Þar tekur kráin á framgólfi, þar sem Hasek situr, mest rúm en þar gerist ekki margt og önnur atriði voru leikin helst til fjarri áhorfendum. Ég hefði til dæmis kosið að hafa atriðin úr skotgröfunum nær mér en þau voru leikin aftast og efst á sviðinu. En margt var hugkvæmt í sviðsetningunni og vel heppnað.
Hannes Óli passar alveg ótrúlega vel í hlutverk Svejks, útlitið og ekki síst svipurinn. Hannes á einstaklega auðvelt með að setja upp barnslegan sakleysissvip sem þó er lúmskt tvíræður. Hann virtist þó ekki alveg öruggur í hlutverkinu framan af en sótti sig þegar á leið. Aðrir leikarar léku bæði nafngreinda menn og einstaklinga í hópum fanga, geðsjúklinga og annarra vandræðamanna. Karl Ágúst þurfti á að halda öllum sínum hæfileikum til að leika drukkna menn að halda í sýningunni því bæði Hasek og þó sérstaklega Katz drukku mikið og illa. En ekki vafðist það fyrir Kalla frekar en einkenni annarra persóna sem hann lék. Eyvindur var fyrst og fremst í hljóðfæraleiknum fyrir utan sín tvö nafngreindu hlutverk en fyllti upp í hópa af dugnaði.
Þórunn lék öll kvenhlutverkin og nokkur karlhlutverk að auki og var mikil gersemi í sýningunni. Bæði syngur hún yndislega og svo átti hún auðvelt með að skipta um karakter á augabragði. Rússneskan flæddi upp úr henni í hlutverki Shuru og myndaði sterka og harmræna andstæðu við bjagaða tékkneskuna sem leikin var af íslenskri tungu. Þórunni tókst meira að segja að gera skýran mun á hreim Shuru og frú Müller, þýskrar húsmóður Svejks. Og munurinn á þjakaðri eiginkonunni og ástleitinni ástmeynni var bæði fyndinn og sorglegur.
Karl Ágúst kallar verk sitt „gráthlægilegan gleðiharmleik“ og það sést undir eins á orðunum að þetta er erfitt form. Hvort á maður að gráta eða hlæja að átakanlegum kjörum mikils listamanns? Kannski átti ég von á því að hlæja meira en ég gerði í gærkvöldi þó vissulega hafi sýningin verið skemmtileg. Ég hef líka trú á því að andstæðurnar verði áhrifameiri þegar sýningin verður hraðaði og snarpari.