Leikhópurinn Artik frumsýndi nýtt íslenskt verk í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Það heitir Djúp spor og er eftir Jennýju Láru Arnórsdóttur og Jóel Sæmundsson en Bjartmar Þórðarson leikstýrir.
Nafnið á einkar vel við. Verkið snýst um einn atburð, eina örlagastund, sem hefur óafmáanleg áhrif á allt líf allra viðkomandi upp frá því: Atburðurinn markar sem sagt djúp spor í líf þeirra. Sagan er byggð á sönnum atburðum eins og sagt er í leikskrá en í rauninni er óþarfi að taka það fram; við vitum að svipaðir atburðir hafa alltof oft gerst og munu því miður halda áfram að gerast.
Leikritið hefst í kirkjugarði þar sem ung kona, Selma (Jenný Lára), leggur rós á leiði. Sviðið er einfalt, með fíngerðum krossi fremst fyrir miðju sem boðar þegar í stað að hér verði engin gamanmál höfð í frammi. Eins og vel á við breytist ekkert á þessu framsviði en myndum varpað á skjá á baksviði sem gefa til kynna hvar við erum stödd hverju sinni. Selma er trufluð við þessa athöfn af Alex (Jóel) og þó að þeim bregði báðum við endurfundina taka þau tal saman. Við fáum fortíð þeirra ýmist í þessu samtali, í senum úr þeirra fyrra lífi eða eintölum í hljóðnema og sú saga er einföld en afar sorgleg. Selma og Alex voru par og elskuðu hvort annað heitt en hún gerði þau hrikalegu mistök að aka vel hífuð og varð manneskju að bana. Atburðurinn skildi þau að – Alex getur ekki fyrirgefið Selmu og Selma getur ekki fyrirgefið sjálfri sér. Hún hefur setið inni fyrir glæp sinn en engin refsing jafnast á við þá sem hún tekur út á hverjum einasta degi í huga sínum og hjarta.
Verkið er ágætlega skrifað, Jenný Lára og Jóel fara vel með texta sinn og öll umgjörð sýningarinnar er vel af hendi leyst. Ljósmynd á bakveggnum sem sýnir að atvikið fari fram í kirkjugarði er hreinn dýrgripur. En það breytir því ekki að verkið er fyrirsjáanlegt: þar er allt sem sýnist. Þetta minnir á fræðslu- og varúðarverk í sósíal-realískum stíl frá fyrri árum, verk sem vöruðu ungmenni við vímuefnum og slíku. Það vill vanta skáldskapinn þegar boðskapurinn fær yfirhöndina. En um leið verður að minna á að áminning Djúpra spora er afar þörf og óskandi að hún komist til sem allra flestra.