Ég hafði gaman af sýningu Luzerner Theater á Pétri Gaut í Þjóðleikhúsinu á miðvikudagskvöldið og finnst verulega gott hjá Listahátíð að flytja hana inn þó að sjálfsagt hafi helsta ástæðan verið sú að henni stýrir ungur íslenskur leikstjóri, Þorleifur Örn Arnarsson. En ég treysti mér illa til að skrifa um hana vegna þess hvað ég skildi hana illa. Íslenski textinn sem varpað var á brík fyrir ofan sviðið sást svo illa úr sætinu mínu að ég gat aldrei lesið heila setningu. Raunar sá ég sjaldnast orðaskil og það var ákaflega leitt.
Nógu mikið skildi ég þó til að sjá að þarna var ekki verið að leika texta Ibsens í samfellu frá upphafi til enda. Hér var hrært rækilega í verkinu og skotið inn margs konar athugasemdum. Pétri var skipt upp í þrjár persónur sem ræddu saman og tókust á á sviðinu. Sviðsmynd og búningar vísuðu einna helst til 20. aldar.
Leikararnir voru áreiðanlega vanir meiri viðbrögðum úr sal, enda greinilega mikið lagt upp úr kómík verksins. Kannski var það þess vegna sem aðalleikarinn, Jürg Wisbach í hlutverki hins elsta Péturs, fór að reyna að tala ensku í seinni hálfleik – til að ná betur til áheyrenda. Það gerði hann furðuvel, væntanlega undirbúningslaust, En það var auðvitað bara svekkjandi fyrir þá áhorfendur sem kunna þýsku og voru komnir til að heyra leikið á þeirri fögru tungu.
Eini leikarinn sem náði almennilega til mín og minnar menntaskólaþýsku var Jörg Dathe í hlutverki Dofrans. Hann talaði hátt og skýrt eins og Derrick og var álíka myndarlegur. Raunar var senan í höll Dofrans mjög skemmtileg og alveg óheyrilega vel til fundið að klæða tröllin í háborgaralegan hátíðarklæðnað. Þó að ég skildi illa tungumál Péturs unga (Hajo Tuschy) var kroppsmál hans vel skiljanlegt og senurnar með móðurinni Ásu (Bettina Riebesel) voru í senn hlýlegar og fyndnar. Þriðji Péturinn, sá „óræði“, var leikinn af Christian Baus og mig langaði óskaplega til að skilja það sem þeim Pétri eldra fór á milli. Einfaldari voru samskipti Péturs við brúðina Ingrid (Juliane Lang) og þá grænklæddu (Wiebke Kayser) og Sólveig sjálf (Paula Herrmann) hvarf eiginlega alveg í þessari útfærslu þótt hún fengi að syngja sönginn sinn.
Það var ljóst að hér sýndi ungur leikstjóri mjög frumlega túlkun á klassísku verki Ibsens en því miður er þýskan mín ekki nógu góð til að ég áttaði mig á því hver sú túlkun var.