Jónas Reynir Gunnarsson: Múffa.

Mál og menning, 2024.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2025

Jónas Reynir Gunnarsson er fæddur árið 1987 og ólst upp í Fellabæ á Austurlandi. Múffa  er fimmta skáldsaga Jónasar Reynis, en auk skáldsagna hefur hann gefið út þrjár ljóðabækur. Hann hefur verið iðinn við kolann síðan fyrsta bók hans kom út árið 2017 og gefið út alls átta bækur á jafnmörgum árum.

Múffa er knöpp skáldsaga sem segir frá hjónum á miðjum aldri, Ölmu og Bjössa, og ríflega þrítugum syni Bjössa, Markúsi, sem lifir og hrærist í tölvunni og hefur engan áhuga á að vinna eða flytja að heiman. Pabbi Markúsar hefur miklar áhyggjur af syninum, finnst hann einrænn og skrítinn og þráir að hann sýni umhverfi sínu meiri áhuga og kynnist jafnvel góðri konu sem í hans huga gæti umbreytt Markúsi úr einsetumanni í fullgildan samfélagsþegn. Hjónaband Ölmu og Bjössa virðist staðnað og strax í byrjun annars kafla fá lesendur að vita að hjónaband þeirra er í hættu.

Alma er doktor í fornaldarheimspeki en kennir í grunnskóla í þorpi úti á landi. Þangað hafði fjölskyldan flutt mörgum árum fyrr, þegar upp komst um framhjáhald Bjössa. Við flutningana gaf Alma akademíska feril sinn upp á bátinn og litaði á sér hárið bleikt. Áður en Alma og Bjössi kynntust einkenndist líf þeirra beggja af þögn, þögnin í lífi Bjössa er „sú tegund þagnar sem bíður eftir því að einhver taki til máls“ (41) og þögnin sem hefur fylgt Ölmu frá barnæsku er „[s]ú tegund þagnar sem ekki er hægt að halda í skefjum með því að deila henni með öðrum“ (29). Þau voru bæði á flótta undan þögninni þegar þau tóku saman, en Alma sér þó hjónaband þeirra ekki aðeins sem frelsi frá þögninni heldur líka samruna sem þynnir út sjálfsmynd hennar: „Líf hennar fór úr nútíð yfir í þáliðna tíð og frumlagið klipptist af“ (29). Tilhugalífið var stirt í byrjun, kannski vegna þess að Bjössi tók átta ára gamlan son sinn með sér á fyrsta stefnumót þeirra og þau áttu erfitt með að finna umræðuefni til þess að fylla upp í þagnirnar. Þau finna þó á endanum umræðuefni sem sameinar þau; að gera grín að fólki sem leggur mikið upp úr útliti sínu. Alma hefur ánægju af því að vera á skjön við samfélagið og gefa skít í borgaralegan plebbaskap, en finnst gott að hafa einhvern með sér í liði og tilhugsunin um mótlæti heimsins styrkir sambandið í hennar huga: „Hún þurfti að trúa því að hún ætti aðild að samsæri, að þau Bjössi væru saman á móti heiminum“ (77). Hún virðist með því reyna að endurskapa vinskapinn við Reinhold, besta vin hennar í menntaskóla. Reinhold var hrokafullur og leit niður á samnemendur sína, en ekki sveitastelpuna Ölmu sem honum fannst laus við alla tilgerð. Reinhold kynnti hana fyrir grískum fornaldarheimspekingum og var meinlætamaðurinn Díógenes í miklu uppáhaldi hjá honum, en hann hafnaði lúxus og var sjálfum sér nógur. Allar götur síðan hefur Alma mikið dálæti á fornaldarheimspekingum sem sýna andfélagslega hegðun, með því annaðhvort að neita sér um lystisemdir lífsins eða leyfa sér þær.

Uppreisn eða áhugaleysi?

Alma hefur ekki sömu áhyggjur af einveru Markúsar og Bjössi. Henni finnst andfélagslegt viðhorf Markúsar til marks um að hann sé frjáls frá kröfum samfélagsins. Hann er sjálfum sér nógur og hefur enga löngun til þess að fylgja stöðluðu handriti samfélagsins um menntun, starfsframa, hjónaband, húsnæði og börn:

Markús, þrjátíu og þriggja ára stjúpsonur hennar, lifði í draumi, þrátt fyrir að vera nú vakandi um miðja nótt. Höfundar draumsins voru bandarískir tölvuleikjahönnuðir og japanskir klámframleiðendur. Markús bjó í veröld sem var búin til af þessu ókunnuga fólki: Þarna átti Markús heima. Það sem aðrir kölluðu lífið var ekki til fyrir honum (12-13).

Markús er líka fullkomlega áhugalaus um hluti sem þykja sjálfsagðir, eins og að þekkja vikudagana, muninn á hægri og vinstri og kunna á klukku og Alma ber óttablandna virðingu fyrir þessari höfnun á „tilraunum mannkynsins til að kerfisvæða veröldina“ (49). Slíkt áhugaleysi mætti túlka sem róttæka afstöðu í hagkerfi athyglinnar, sem keppist við að fanga athygli fólks til þess að sannfæra það um að hamingjan fáist keypt. En þó að Ölmu finnist áhugaleysi Markúsar bera vott um róttækni og frelsi frá samfélagslegum kvöðum, þá ver hann öllum sínum tíma á netinu og stendur því, þegar allt kemur til alls, ekki fyrir utan hagkerfi athyglinnar, frekar en aðrir. En hann gerir bara það sem veitir honum ánægju og það finnst Ölmu vera virðingarvert.

Segja má að róttækni Markúsar felist einkum í því að hafna hinu gagnkynhneigða forræði sem er innbyggt í vestræna samfélagsgerð. Gagnkynhneigða regluveldið birtist skýrt í hugmyndum Bjössa um kærustu sem töfralausn fyrir Markús. Bjössi er sannfærður um að ef Markús fyndi sér konu myndi hann skyndilega fá áhuga á öllu því sem Bjössi telur eðlilegt að karlmenn hafi áhuga á og yrði ekki lengur byrði á foreldrum sínum. Múffan sem Alma pantar handa stjúpsyni sínum og hleypir öllu í háaloft á heimilinu, er ekki tákn fyrir hlutgervingu kvenna, eins og gervipíkur eru gjarnan túlkaðar í femínískri greiningu, heldur sér Alma hana sem táknmynd fyrir höfnun Markúsar á gagnkynhneigðu forræði. Bjössi sér múffuna hins vegar sem uppgjöf og skort á vilja til þess að falla í mótið sem hann hefur sjálfur þurft að þröngva sér í. Bjössi er skýrt mótaður af gagnkynhneigða regluveldinu og ofurmeðvitaður um öll frávik frá stöðlum þess. Hann vorkennir engum meira en föðurbróður sínum, Ása, sem var einstæður og aldrei við kvenmann kenndur. Hann er staðráðinn í að verða aldrei eins og Ási og tekst það að lokum, þó að leiðin að vísitölufjölskyldunni sé ekki sú sem hann sá fyrir sér. Bölvun einsetumannsins er sögð liggja á karlmönnunum í fjölskyldunni og þó að Bjössa hafi tekist með naumindum að víkja sér undan henni er hann miður sín að sonur hans geri ekkert til þess að streitast á móti.

Ólíkt Bjössa hefur Alma mikla ánægju af því að synda á móti straumnum. Hún litar hárið á sér bleikt en sá gjörningur er mistúlkaður af samfélaginu sem löngun til þess að vera ofurkvenleg, sem kristallast í Barbie-náttbuxunum sem samstarfsfélagar hennar gefa henni í fertugsafmælisgjöf. Í brjósti Bjössa býr einnig löngun til þess að gera örlitla uppreisn og lætur hann það loks eftir sér að kaupa gullkeðju. Gullkeðjuna ber hann um hálsinn og nuddar hana þegar hann er órólegur. Vinnufélagarnir gera grín að þessari glysgirni og líkja honum við austurevrópskan bílasala eða sjónvarpspersónuna Tony Soprano. Uppreisn Bjössa og Ölmu er þannig túlkuð af nærsamfélagi þeirra sem tilraun til þess að laga sig betur að kynjuðum stöðlum samfélagsins; Bjössi er settur í samhengi við stóra, ofbeldisfulla mafíósann Tony Soprano og Alma við gervilega plastdúkku, táknmynd kvenleika.

Á mörkunum

Markús er áhugaverð persóna og það hefði verið gaman að fá að skyggnast meira inn í hans hugarheim. Markús hefur mikið ímyndunarafl og er gjarn á að ímynda sér samtöl og atburði sem hann langar að eigi sér stað. Hann túlkar hinn raunverulega heim út frá því sem hann þekkir úr tölvuleikjunum, kvikmyndunum og skáldskapnum sem hann lifir og hrærist í. Markús lifir þannig á mörkum tveggja heima. Í stað þess að sýna áhugamálum sonar síns áhuga reynir Bjössi að toga hann inn í sinn veruleika, þann sem hann telur réttan og eðlilegan. Sama hvað Bjössi reynir verður honum ekkert ágengt og fjarlægðin á milli þeirra feðga virðist vera óendanleg. Sem barn sækir Markús í að troða sér í gegnum girðingar, að ferðast yfir mörk og yfir í heiminn sem liggur handan þeirra. Hann dreymir um að skipta um ham, verða að annarri veru, og leitar í skáldskap sem lýsir slíkum umskiptum, enda finnst honum líkami sinn ekkert endilega tilheyra honum: „Honum leið eins og hann hefði sjálfur lent í líkama sínum“ (60). Hann upplifir rof á milli sjálfsvitundar sinnar og líkama og er gefið í skyn að hann eigi fyrir vikið auðveldara með að flakka á milli líkama og heima en þeir sem eru kirfilega bundnir líkama sínum.

Gráflekkótti hundurinn sem sagt er frá í upphafi verksins er nokkurs konar tvífari Markúsar. Hann er sagður líkjast hýenu en þó aðeins að útlitinu til, því hundurinn er flækingshundur og ávallt einn á ferð, ólíkt hýenum sem eru hópdýr. Hundurinn er örlagavaldur í atburðarás verksins því hann hleypur í veg fyrir bíl Bjössa í þann mund sem hann er við það að keyra út í sjó. Á þeim tímapunkti fer lesandann að gruna að hundurinn og Markús hafi runnið saman í eitt og að Bjössi hafi óafvitandi keyrt á son sinn. Sú hugmynd styrkist enn frekar þegar Bjössi snýr aftur heim og sér hundinn fyrir sér dauðan og stirðnaðan í tölvustóli sonar síns. Síðar í verkinu, þegar kemur í ljós að hundurinn hafði einungis rotast og er hlaupinn á brott, er Bjössi aftur „á barmi þess að gera eitthvað sem hann gæti ekki tekið til baka“ (109). Hann keyrir á ofsahraða og áttar sig skyndilega á að hann er að bíða eftir að Markús birtist á veginum. Í stað þess að hægja á sér við tilhugsunina um Markús, gefur hann í:

Hugmyndin um að Markús myndi birtast á veginum var sjúk en hann gat ekki stoppað sig. Hann sá atriðið með árekstrinum spilast í huga sér þar sem sonur hans var í hlutverki hundsins. Síðan sá hann Ása frænda sinn lenda undir bílnum og heyrði dynkinn eins og í bassatrommu í takti sem varð sífellt hraðari. Þetta var hljóðið í skottinu, þetta var hjartað í honum (111).

Múffan, sem sprengdi hjónaband Bjössa og Ölmu í loft upp og kom atburðarás sögunnar af stað, neyðir Bjössa til þess að horfast í augu við að það sem honum líkar verst í fari sonar síns og föðurbróður og er í raun það sem hann hatar mest í eigin fari. Löngunin til að keyra á Markús og Ása, líkt og hann hafði keyrt á hundinn, er löngun til þess að drepa þann hluta af sjálfum sér sem er á skjön við karlmennskuhugmyndir samfélagsins. Ólíkt Bjössa er ekki að sjá að Ása og Markúsi mislíki þetta í fari sínu og því er þetta alfarið hans eigið hugarmein sem hann neyðist til þess að horfast í augu við og uppræta.

Það er eitthvað sem smellur hjá Bjössa og Ölmu þegar sú uppgötvun hefur verið gerð. Þau hætta að einblína á það sem aðskilur þau frá hvort öðru og fara að líta á fjarlægðina sín á milli sem tækifæri til þess að sjá hvort annað í öðru og réttara ljósi. Alma stendur á barmi hyldýpis sem hugsanlega leiðir inn í aðra vídd, en þegar fótunum er bókstaflega kippt undan henni fellur hún ofan í tómið og uppgötvar að hyldýpið er ef til vill aðeins ókannaða rýmið innra með öllum, það ósagða sem aðskilur og sundrar. Til þess að komast aftur á rétta sporið þarf fyrst að kafa djúpt í innstu lög sálarlífsins til þess að geta komist út og í gegn hinum megin. Ferðalag Ölmu minnir þannig á leið Virgils og Dante um öll stig helvítis, í gegnum hreinsunareldinn og til himnaríkis. Þegar botni vítis er náð er ljóst að leiðin niður á við var jafnframt leiðin upp til himna. Í frjálsu falli í innra tómi sínu uppgötva persónurnar á sama hátt að óravídd hyldýpis einnar persónu reynist vera úthverfa lífsins séð frá sjónarhóli annarrar. Fjarlægðin á milli þeirra er ekki lengur óyfirstíganleg því „[f]jarlægðin við Ölmu og Markús var ást, tómið sem var á milli þeirra, allt sem [Bjössi] skildi ekki og kunni ekki að sýna“ (129). Fjarlægðin færir þau þannig nær hvort öðru.

Múffa er áhugaverð skáldsaga full af samhverfum, speglunum, þáttaskilum og endurtekningum. Áferð verksins er geómatrísk og spírallaga. Í fyrstu virðist sem bæði persónurnar og söguþráðurinn sé heldur daufur, að sagan sé hefðbundin smáborgaraleg saga um endalok hjónabands tveggja venjulegra manneskja, en eftir sem líður á verkið fer að hlaðast utan á dauflega tilveruna og óvæntir fletir fara að koma í ljós. Verkið er taktfast, byrjar í hægum takti en smám saman eykst takturinn og í lokin koma allar laglínur saman í tilkomumiklu kresendói. Frásögnin dansar stundum á mörkum raunsæis og furðu og endirinn er óvæntur og stórbrotinn. Verkið spyr stórra tilvistarlegra spurninga og er niðurstaða verksins ef til vill sú að þegar öllu er á botninn hvolft lifum við ekki lífi okkar samsíða lífi annarra, heldur er flötur lífs okkar að miklu leyti samsettur úr lífsflötum þeirra sem standa okkur næst.

 

Kristín María Kristinsdóttir