Ég hef alls ekki fylgst nógu vel með fyrirbærinu Ungleik gegnum tíðina, þó að þau fáu skipti séu verulega minnisstæð. Og í gær sá ég fjögur stutt verk undir þessari yfirskrift í Tjarnarbíó og það var vægast sagt hressandi upplifun.
Auglýst er eftir handritum og getur fólk á aldrinum 16–25 ára sent inn í samkeppnina. Þar tekur dómnefnd við þeim og les og velur úr. Að þessu sinni voru allir höfundarnir, tvær stúlkur og tveir strákar, á sviðshöfundabraut LHÍ þannig að á góðu var von. Allir höfundarnir leikstýrðu verkum sínum sjálfir en leikararnir komu úr ýmsum áttum. Öll voru verkin stutt, 15–20 mínútur eða svo.
Við sátum á næstaftasta bekk í Tjarnarbíó og ég heyrði ekki textann í fyrsta verkinu alveg nógu vel, kannski vegna þess að leikið var á flatsæng með miklum sængurfötum sem kannski hafa dempað hljóðið. Alltént heyrði ég vel allan texta í seinni verkunum.
Þetta fyrsta verk var „Lygaramerki á tánum“ eftir Körlu Kristjánsdóttur. Á flatsænginni sofa tvær vinkonur (Hólmfríður Hafliðadóttir, Katla Þórudóttir Njálsdóttir), önnur lögreglukona, hin atvinnuglæpamaður (eða var það ekki?) og við fylgjumst með samskiptum þeirra innbyrðis og allt öðruvísi samskiptum þeirra og þriðju stúlkunnar, Kötu (Salka Gústafsdóttir). Við sjáum það til Kötu að hana skortir tillitssemi en við vitum lítið um hana annað en að henni finnst hún vera útundan í þessu sambýli. Ekkert var til lykta leitt eftir því sem mér skildist. Ég hef trú á að þetta hafi verið bútur úr lengra verki og er spennandi að vita hvort meira verður úr því.
Í „Herr doktor“ eftir Jón Ólaf Hannesson Hafstein bíða þrjár manneskjur eftir heimilislækninum. Meðan þær bíða ræða þær lækninn sem er greinilega enginn venjulegur heimilislæknir – mun skyldari Guði almáttugum. Tvö viðstaddra (Killian G.E. Briansson, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir) þekkja herr doktor, sú þriðja (Thea Snæfríður Kristjánsdóttir) er að koma til hans í fyrsta skipti. Samtöl þeirra voru margræð, sniðug og spennandi og öll þrjú fóru virkilega vel með hlutverkin.
„Húsið“ eftir Hafstein Níelsson var frumlegasta verkið og það fyndnasta líka. Þar hittum við fjölskyldu, foreldra og dóttur þeirra (Mímir Bjarki Pálmason, Steinunn Lóa Lárusdóttir, Molly Mitchell), og eiga foreldrarnir í erjum út af nágranna sem eiginkonan er að líkindum veik fyrir. Dóttirin hlýðir örvingluð á rifrildið uns því lýkur á hádramatískan hátt. Hið óvænta er að persónurnar tala ekki saman, þær segja frá, bæði því sem þær segja hver við aðra og hvað þær gera á sviðinu á sama tíma. Þetta er sem sagt frásögn af því sem gerist í verkinu með samtölum í óbeinni ræðu … Ég kem þessu kannski ekki nógu skýrt frá mér en trúið mér, þetta var drepfyndið. Og þrenningin réð fullkomlega við þennan einkennilega leikstíl.
Lokaverkið, „Hansel og Gretel“ eftir Melkorku Gunborgu Briansdóttur var efnismesta verkið með safaríkar vísanir sínar í ótal áttir, bæði fornar og nýjar. Á sviðinu voru tvö rimlarúm, annað á Hansel (Ingi Þór Þórhallsson), hitt á Gretel (Katla Þórudóttir Njálsdóttir). Eru þau Hans og Gréta Grimmsævintýra orðin fullorðin, farin að skilja betur vanda foreldranna forðum? Komin með móral yfir að hafa drepið gömlu konuna í skóginum? Eða eru þau allt annað fólk? Samtölin voru djúsí og leikurinn fínn. Ég bendi á að Katla var þarna í sínu öðru hlutverki þetta kvöld og gerði verulega vel í bæði skiptin.
Magnús Thorlacius var kynnir kvöldsins og verkefnastjóri og boðaði Ungleik aftur að ári. Ég fer undir eins að hlakka til!
Silja Aðalsteinsdóttir