Í gærkvöldi var frumsýning á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þar sagði Vilborg Davíðsdóttir okkur Laxdæla sögu – eins og má ímynda sér að sögumenn í baðstofum fortíðar hafi sagt hana, hver á sinn hátt. Vilborg hefur unnið með þessa Íslendingasögu lengi og það er ekki bara að hún kunni hana, hún hefur hana algerlega á valdi sínu: getur tekið saman, stytt eftir þörfum tímans sem hún hefur og leyft svo söguefninu að opna sig eins og blóm þegar það á við. Ég hef hlustað á nokkrar Íslendingasögur á þessu Sögulofti og ævinlega mér til gagns og gleði, en það gerði þessa ákveðnu sögustund öðruvísi að Laxdælu kann ég betur en aðrar sögur og elska mun meira en nokkra aðra sögu. Þetta var því einstakt kvöld.

Ég hef verið dálítið í óperum undanfarið og í gærkvöldi fann ég að ég upplifði sögustund Vilborgar á sama hátt og elskaða óperu. Þegar ákveðnir staðir nálguðust í sögunni fór ég að bíða og hlakka til – bráðum heyrir Höskuldur Melkorku tala við Ólaf litla son sinn … nú kemur að því að Höskuldur biður Þorgerðar Egilsdóttur fyrir hönd Ólafs og hún neitar … næst segir Guðrún Gesti spaka drauma sína … Og þegar svo Vilborg hægði á sér, varð nákvæmari í frásögninni og umhverfi og persónur lifnuðu við uns frásagan opnaði krónu sína fór straumur um líkamann, jafnvel spruttu tár fram í augun af geðshræringu, alveg eins og þegar undursamlegir tónar aría eins og „La ci darem la mano“ heyrast loksins eftir spennta bið!

Laxdæla er makalaust vel samin saga, og eins og bestu síðari tíma skáldsögur lætur hún ekki allt uppi en gefur lesandanum rúm til að hugsa og velta vöngum. Við fáum aldrei skýrt svar við spurningu Bolla Bollasonar: „Hverjum hefur þú manni mest unnt?“ Guðrún lýsir eiginmönnunum fjórum í stuttu máli og Bolli þakkar henni fyrir þann fróðleik en ítrekar: „… en hitt verður enn ekki sagt, hverjum þú unnir mest.“ Þá mælti Guðrún: „Þeim var ek verst, er ek unna mest.“ Þetta svar gerir Bolli sig ánægðan með og Vilborg var dálítið hissa á því – það má nefnilega túlka þessi orð á býsna marga vegu, eins og hún gerði líka, áheyrendum sínum til mikillar kátínu.

Sögustundir á Sögulofti eru einstæð skemmtun og þegar saman fara makalaus saga og frábær sögumaður þá verða slíkar stundir ekki betri.

Silja Aðalsteinsdóttir