Einar Lövdahl: Gegnumtrekkur

Mál og menning 2024.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2024.

Askur er ungur maður í ástarsorg. Á leiðinni upp á flugvöll að sækja mömmu sína, sem er loksins að koma heim eftir áralanga dvöl á Spáni, tekur hann skyndilega U-beygju og snýr bílnum við. Í stað þess að fara upp á flugvöll keyrir hann af stað í öfuga átt. Þegar bíllinn bræðir úr sér skömmu síðar húkkar hann sér far með ókunnugum og heldur áfram á puttanum.

Gegnumtrekkur lýsir ferðalagi Asks eftir þjóðveginum og striti hans við að „standa í lappirnar í vindasamri tilverunni og í samskiptum við sína nánustu,“ líkt og segir í káputexta. Bókin er fyrsta skáldsaga Einars Lövdahl en áður hefur hann sent frá sér smásagnasafnið Í miðju mannhafi sem var önnur tveggja bóka til að bera sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins Nýjar raddir árið 2021. Þá hefur hann einnig skrásett knattspyrnusögu Arons Einars Gunnarssonar í bókinni Aron: Sagan mín (2018). Að auki er Einar tónlistarmaður og hefur gefið út frumsamda tónlist í eigin nafni og með hljómsveitinni Løv & ljón. Hann hefur einnig samið lagatexta fyrir þjóðþekkt tónlistarfólk eins og GDRN, Jóhönnu Guðrúnu og Jón Jónsson.

Eins og ljúfasta dægurlag

Það mætti einmitt lýsa Gegnumtrekki eins og „poppaðri“ skáldsögu sem, eins og ljúfasta dægurlag, togar í hjartastrengina um leið og hún dregur upp sterkar myndir sem auðvelt er að samsama sig með. Hún aðlagar ennfremur þekkt poppkúltúrminni og er undir áhrifum frá rómantískum gamanmyndum Hollywood, bæði hvað varðar form og efni. Sagan er sömuleiðis sérlega myndræn og er þess vegna auðvelt að sjá litríka atburðarásina fyrir sér.

Þegar sagan hefst ætlar Askur að byrja upp á nýtt, flýja íslenska rokið og finna lognið í tilverunni, en það er sama hvert hann fer – alltaf leitar hugurinn til mömmu hans sem hann hefur ekki hitt í meira en áratug eða frá því að hún flutti til Spánar og yfirgaf bæði hann og föður hans. Hvert ferðalagi Asks er heitið er hins vegar á huldu framan af og sömuleiðis er óljóst hvers vegna hann fær sig ekki til að sækja mömmu sína á flugvöllinn. Hvað var það eiginlega sem gerðist? Og hvert er hann að flýja einn á puttanum? Svörin leynast í fortíðinni og í sögunni spólum við fram og til baka á milli nútíðar og þátíðar. Þannig ferðumst við frá puttaferðalaginu á þjóðveginum aftur í tímann til barnæsku Asks og fáum sömuleiðis að sjá senur eða brot úr sambandi hans og fyrrverandi kærustunnar Gyðu, allt frá krúttlegum fyrstu kynnum þeirra í háskólapartýi (sem eru eins og klippt út úr rómantískri gamanmynd) og til sambandsslitanna. Ólíkir bitar púsluspilsins raðast hægt og rólega saman en það er ekki fyrr en undir lok sögunnar sem öllum spurningum lesandans er svarað og heildarmyndin blasir við. Endurlitin eru bæði mörg og tíð, og fléttað á sannfærandi hátt inn í frásögnina án þess að framkalla bílveiki hjá lesandanum. Frásagnarbrellan er snjöll að því leyti að hún kitlar forvitni lesandans en að sama skapi er þó hætta á að hann tapi þræði þar sem nokkuð oft er skipt um gír.

Gegnumtrekkur skrifar sig inn í hefð ástarsorgarbókmennta og lýsir vonleysi Asks eftir sambandsslit við fyrstu ástina, Gyðu. Lesendur muna ef til vill sjálfir vel eftir fyrstu ástarsorginni og vita hversu ótrúlega sár, átakamikil og bitur hún getur verið. Það er hún sannarlega hjá Aski sem á erfitt með að sætta sig við sambandsslitin og gefa sameiginlega drauma sína og Gyðu upp á bátinn. Frásögn hans er því dramatísk og á köflum háfleyg en þó alltaf húmorísk og jafnvel kaldhæðin, líkt og þegar hann vísar til sjálfs sín sem „útilegumannsins, skjálfandi á reiki um fjöll og firnindi“, eftir að hafa verið blokkaður af fjölskyldu Gyðu á samfélagsmiðlum og rekinn úr fjölskylduhóptjattinu (221). Það er sömuleiðis ómögulegt annað en að hlæja upphátt, eða í það minnsta brosa út í annað, yfir fyndnum staðhæfingum á borð við að „eiginlega ætti sólarvörn að teljast til hugbreytandi efna á Íslandi.“ (168) Það sama má segja um hlægilegar lýsingar sögumanns á atferli hundsins Múla sem hlýðir einungis skipunum á dönsku.

Ef lagt er við hlustir má heyra vindinn gnauða um alla frásögnina, ýmist varfærnislega eða með látum. Í upphafi er logn en eftir því sem líður á söguna hvessir og bætir í vindinn þar til að í lok hennar skellur á hávaðarok. Vindurinn er því eins konar undirleikur fyrir söguna og speglar byggingu hennar um leið og hann verður uppspretta myndlíkinga fyrir tilfinningar Asks. Sjálfur lýsir hann vindinum sem „gegnumtrekki manna á milli,“ og vísar þar til sambandsins sem hann á við sína nánustu sem er vægast sagt stormasamt (157). Vindurinn er „eins og næðingur í gegn þegar við opnum okkur og lokum á víxl, hleypum því út sem bærist í brjóstinu.“ (157) Hann er því allt það sem bærist á milli mín og þín, hið sagða og ósagða, það sem býr í þögninni.

Myndmál sögunnar, sem hverfist eins og áður segir um vindinn, er frumlegt og frískandi og skella sterkustu vindhviðurnar á lesandanum af miklum ofsa. Þær eru sömuleiðis séríslenskar og auðþekkjanlegar. Erum við ekki annars öll alltaf að bíða eftir logninu? Þráum við ekki öll að finna skjól undan eilífum vindinum? Lesendur hljóta að kannast við tilfinninguna:

Ég hef heyrt hundrað mismunandi orð um veður, sogið upp í nefið í öllum mögulegum vindstigum, tjóðrað niður trampólín og grill, ég hef séð fugla berjast fyrir lífi sínu í strekkingi, orðið vitni að barnavagni fjúka um koll og dragast eftir malbiki í haustlægð og séð þúsund tonna togara vagga til og frá við höfnina eins og hverja aðra bauju, allt í ægilegum krafti vindsins. En aldrei hef ég áttað mig á eðli hlutanna. Hvaðan kemur vindurinn? (136)

Það er sömuleiðis eftirtektarvert hvernig leikurinn með vindinn ljær sögunni áberandi hljóðræna og rytmíska eiginleika. Þessir hljóðrænu eiginleikar koma til að mynda skýrt fram í síðasta kafla bókarinnar þegar Askur og mamma hans ræða loksins saman augliti til auglits. Þegar þau mætast tekur hávaðarokið á sig hljóðlátara og heimilislegra form; úti fyrir gnauðar vindurinn ennþá en inni á kaffihúsinu, þar sem mæðginin sitja, syngur hann einungis varlega í ólíkum innanstokksmunum: „Frá ganginum berst surg í ryksugu, frá barnum snarpur þytur frá rjómasprautu.“ (272) Þannig má heyra vindinn, sem trekkir í gegnum bókina, lægja að lokum. Það þýðir þó ekki að á falli blankalogn heldur fær vindurinn öllu fremur á sig bjartari og léttari tón. Það næðir ennþá á milli mæðginanna en smám saman tekur gamall íslenskur sveitaballaslagari yfir hljóm vindsins. Sögunni lýkur því á ljúfum, eilítið angurværum nótum: „Ég safna saman orðunum, þeim oddhvössu og þeim áferðarfögru, á meðan ég humma með laginu. Hljótt, naumlega í takt.“ (272)

Það sem er nokkuð sérstakt við stíl bókarinnar er að sögumaður sneiðir í flestum (en þó ekki öllum) tilfellum hjá því að nefna staði og hluti nákvæmlega. Í stað Hörpu er talað um „tónleikahúsið við höfnina“, vísað í „bæinn við flugvöllinn“ þegar átt er við Keflavík og innkaupapokar úr Krónunni eða Bónus verða einfaldlega að „gulu pokunum“. Samfélagsmiðillinn Instagram er „myndaforritið“ á meðan X (áður Twitter) verður að „textaforritinu“ – eða er þar kannski átt við Facebook? Stílbragðið þjónar ekki augljósum tilgangi í sögunni öðrum en mögulega þeim að skapa ákveðið stað- og tímaleysi og gera hana aðgengilegri fyrir breiðari hóp lesenda. Bragðið hefur sömuleiðis vissan sjarma og er ekki annað hægt að segja en að bókin sé skrifuð á verulega fallegri og vandaðri íslensku. Hún er sömuleiðis rík af lýsingum sem auka á myndræn áhrifin.

Af jeppaköllum og huldukonum

Gegnumtrekkur er að mörgu leyti hefðbundin ferða- og þroskasaga þar sem ferðalag Asks speglar hans innri vegferð. Hún gerist að mestum hluta á vegum úti og lýsir á skemmtilegan hátt samskiptum Asks við þær mörgu litríku persónur sem hann mætir á puttaferðalaginu. Það gefur því að skilja að bílar eru áberandi í sögunni og skipar jeppi Asks, arfurinn, þar stærstan sess. Heitið kemur til af því að jeppann „erfði“ Askur frá mömmu sinni þegar hún flutti til Spánar og það undirstrikar sárar tilfinningar hans í garð hennar: hún skildi ekkert eftir handa honum nema þennan bíl. Það er sömuleiðis töluvert um jeppatal í sögunni, ekki síst á milli karlsögupersónanna, og jeppinn verður til að mynda að átakapunkti á milli Asks og fyrrverandi tengdaföður hans, pabba Gyðu. Í jeppanum koma þannig saman hugmyndir um vanrækslu og karlmennsku og er þetta undirstrikað á ólíkum stöðum í frásögninni, svo sem með sögupersónunni William sem keyrir stóran herjeppa og er nánast þrúgandi karlmannlegur í samræmi við það.

Á vegi Asks verður einnig forvitnileg kvenpersóna. Huldukonan, eins og hann kallar hana, ekur ekki jeppa heldur „pínulitlum gráum fólksbíl“ sem er strandaður í vegkanti þegar þau hittast rétt fyrir utan Egilsstaði. Fyrstu kynni huldukonunnar og Asks eru annað dæmi um „krúttleg fyrstu kynni“ í sögunni en hann gengur fram á hana af tilviljun við ögn vandræðalegar aðstæður þar sem hún „situr á hækjum sér með buxurnar á hælunum og servíettubunka í höndunum.“ (182) Reyndar heitir hún réttu nafni Ewa, en það fáum við ekki að vita fyrr en í blálok bókarinnar. Viðurnefnið á þó að mörgu leyti vel við og sérstaklega í ljósi þess að hún fellur nánast fullkomlega að ímynd kvensögupersónu sem þekkist vel úr Hollywood-myndum samtímans og er vísað til sem hinnar manísku draumadísar (e. manic pixie dream girl) sem lesendur kannast ef til vill við úr bandarískum kvikmyndum á borð við 500 Days of Summer (2009), Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), Elizabethtown (2005) og Ruby Sparks (2012). Hugtakið setti kvikmyndarýnirinn Nathan Rabin fram árið 2005 í viðleitni til að lýsa tilkomu nýrrar kvenpersónu á svið kvikmyndanna sem væri „glaðvær, grunn kvikmyndavera sem einungis væri til sem hugarburður tilfinninganæmra höfunda/leikstjóra og hefði þann tilgang einan að kenna ungum, angurværum karlmönnum að taka lífinu og óendanlegum ævintýrum þess opnum örmum.“[1] Með öðrum orðum þá er hin maníska draumadís oft hálfpartinn eins og álfur út úr hól, hún er „ekki eins og hinar stelpurnar“ og er gjarnan stillt upp sem andstæðu (jafnvel andstæðingi) við þá konu sem karlhetjan hrífst upphaflega af eða fyrrverandi ástkonu hans.

Í grein sinni „500 Days of Postfeminism“ lýsir Lucía Gloria Vázquez Rodríguez manísku draumadísinni þannig: „Hún á það til að lita hár sitt í sérkennilegum litum, klæðast vintage-fötum, hlusta á indie-tónlist og stunda hvatvísa „carpe diem“-hegðun sem getur verið allt frá því að vera félagslega óviðeigandi – svo sem að stökkva ofan í sundlaug í fínni veislu (Ruby Sparks) – til hreint út sagt hættulegrar (hversdagslegur alkóhólismi Clementine í Eternal Sunshine of the Spotless Mind).“[2] Lítum nú á lýsingu sögumanns á huldukonunni Ewu:

Við horfumst í augu þar til ég hrekk við og lít undan. Þegar hún springur úr hlátri get ég ekki annað en litið aftur. Hún stendur og vesenast við að smella annarri tölunni á snjáðum smekkbuxum. […] Hárið er bundið í tvær fastar fléttur, það er sérstakt á litinn. Falsrautt. Um ennið er skræpótt hárband, undir þykkum augabrúnunum sitja lítil dimmbrún augu. Silfraður hringur í nefinu. Kinnarnar rjóðar. (182)

Glaðvær, já, með litað hár í sérkennilegum lit og íklædd snjáðum smekkbuxum sem ekki er erfitt að ímynda sér að hafi verið fengnar eða keyptar „second hand“. Hringurinn í nefinu og óhefluð hegðunin gefa jafnframt til kynna frjálslegt viðhorf hennar til lífsins og hún er allt í senn frökk, opinská, vitur og sjarmerandi. Askur lætur sig dreyma um að hún taki hann í sálfræðitíma: „Ég veit varla hvort ég vildi frekar, að við sætum hérna tvö saman með bragðaref eða að huldukonan sæti með skrifblokk og penna og spyrði mig hvers vegna ég hefði leitað til hennar í dag. Hún hefur yfir sér blæ sem myndi reynast sálfræðingi vel. Eða sem ég hef alltaf ímyndað mér að sé gott að slíkur fagaðili hafi.“ (185) Tilgangur hennar í sögunni er líka akkúrat sá að fá Ask til að líta inn á við og opna hjarta sitt fyrir nýjum ævintýrum. Þá hafa aðrar persónur sem verða á vegi Asks um landið sambærilega virkni og höfða þær flestar ef ekki allar til sektarkenndar hans og samúðar. Þannig er hann til að mynda ítrekað minntur á forréttindi sín af þeim persónum sem hann mætir: „Hver eru í raun vandamál mín á vogarskál móti byrði þeirra sem hafa fæðst á ófriðarslóðum eða þurft að horfa upp á ástvin kveljast og deyja? […] Ég sem er svo hlaðinn forréttindum, á ég innistæðu fyrir nokkru öðru en að vera hress?“ (195) Hver nákvæmlega lærdómurinn er hér, verður hver og einn lesandi að fá að svara fyrir sig, en þó er víst að á ferðalaginu lærir Askur að taka lífinu fagnandi á ný.

Helsti galli sögunnar felst ef til vill í því að sjónarhorn hennar einskorðast við sögumanninn Ask. Aðrar sögupersónur eiga því á hættu að verða staðlaðar og yfirborðskenndar eða jafnvel að hálfgerðum skopmyndum, líkt og í tilfelli mömmu Asks, sem í augum hans líkist fuglahræðu: „Það skein á glanshvítar tennurnar, augnahárin stóðu sperrt út í loftið að vanda eins og stélfjaðrir á páfugli. Glitrandi dökkur augnfarði lá líkt og reykur frá fínhrukkóttum augnkrókunum og fjaraði út við gagnaugun. Röddin var hrjúf.“ (62) Ef til vill er mamman því hin sanna huldukona sögunnar, að minnsta kosti að því leyti að í huga Asks er hún ein stór ráðgáta og aðstæður hennar honum að mestu leyti á huldu. Gjörðir og ákvarðanir mömmunnar birtast þannig sem órökréttar og rangar og það sama á við um svarthvíta framsetningu sögumanns á Gyðu. Þar sem áherslan í sögunni takmarkast jafnframt við tilfinningar og líðan Asks liggur samúð lesandans óumflýjanlega hjá honum. Þetta á jafnvel við þegar hann sýnir óæskilega hegðun á borð við þegar hann mætir óboðinn í stórafmæli ömmu Gyðu og brýtur þar allt og bramlar eftir að hann kemst að því að Gyða er byrjuð með öðrum.

Sætar gellur og mömmu-flækjur

Ég ætla að segja það hreint út: Gegnumtrekkur er gauraleg bók. Með því á ég ekki endilega við að hún sé sérstaklega ætluð strákum, enda getur hver sem er verið með gauralæti, heldur frekar það að hún tæklar gauraleg viðfangsefni og talar inn í karllæga fantasíu. Þetta er bók um karlmennsku og bíla, um sætar gellur og mömmu-flækjur – en það sem er svo frábært við hana er að hún fjallar líka á uppbyggilegan hátt um tilfinningar, ást og vináttu. Ferðalag Asks um landið reynist þannig leið hans út úr ástarsorginni og færir hann sömuleiðis nær sínum nánustu vinum og fjölskyldu. Þannig er sagan bæði heilnæm og hugljúf. Hún talar jafnframt sérstaklega til yngri lesendahóps, sem oft er sagður ekki lesa nóg, og er því kærkomin viðbót við bókmenntalandslagið. Það skemmir svo ekki fyrir að hún er skemmtileg aflestrar og húmorísk og nýtir sér velþekkt og vinsæl kvikmynda- og poppkúltúrminni á borð við krúttlegu fyrstu kynnin og manísku draumadísina. Á heildina litið er Gegnumtrekkur mjög vönduð og hrífandi saga sem talar forvitnilega inn í samtímann og dregur lesandann með sér í ljúfsárt ferðalag í gegnum fyrstu ástarsorgina. Ef Gegnumtrekkur væri dægurlag þá myndi ég sannarlega syngja með.

 

Snædís Björnsdóttir

 

 

[1] Nathan Rabin, „The Bataan Death March of Whimsy Case File #1: Elizabethtown,“ A.V. Club (2007), https://www.avclub.com/the-bataan-death-march-of-whimsy-case-file-1-elizabet-1798210595

[2] Lucía Gloria Vázquez Rodríguez, „(500) Days of Postfeminism: A Multidisciplinary Analysis of the Manic Pixie Dream Girl Stereotype in its contexts,“ Prisma Social 2 (2017), 169.