Hermann Stefánsson. Algleymi.

Algleymi

Bjartur, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2009.

Rithöfundurinn Guðjón Ólafsson opnar augun eftir fjörutíu daga meðvitundarleysi og „hvít veröld hrynur inn í huga hans, samhengislaus og framandi“ (7). Hann er á sjúkrahúsi og hefur misst minnið og raunar málið líka. Hann veit ekki hvað kom fyrir hann og man ekki nema brot og brot úr lífi sínu. Smám saman fær hann þó málið aftur og brotin taka að raðast saman á ný. Hann fær að fara heim og eyðir dögunum með óráði í vinnuherbergi sínu þar sem hann „gengur frá bókaskápnum og út að glugganum og svo frá glugganum að bókaskápnum“ (41 og víðar).

En í vinnuherberginu virðist tilvera Guðjóns nú ekki aðeins sett saman úr reynslu hans, heldur einnig reynslu fjölmargra annarra. „Það er eins og ég sé ekki einn heldur margir“ (29) segir hann Karli, lækninum sínum. Hann fær sýnir; hann verður skyndilega Hannes Hafstein sýslumaður á siglingu til móts við breskan botnvörpung að veiðum í landhelgi Íslands (104) eða Guðmundur Hannesson læknir (94) að hlúa að geðveikri konu snemma á síðustu öld. Einn daginn er hann Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (137) og þann næsta Michel de Montaigne (121) eða Rúdolf von Habsburg (128).

Ekkert fékk staðist stundinni lengur. Guðjón rann út í sand og féll niður fossa og gerði ekki greinarmun á sjálfum sér og öðrum, skáldsagnapersónum og sögulegum. (18)

Sorgleg en spaugileg tilvera Guðjóns eftir slysið minnir á sjónvarpsþætti sem voru sýndir hérlendis og víðar í upphafi tíunda áratugarins og nefndust Quantum Leap (eða Ferðast um tímann í innblásinni snörun Stöðvar 2). Þættirnir sögðu af bandaríska vísindamanninum dr. Samuel Beckett (alls óskyldur leikskáldinu írska) sem stóð að tilraun um tímaflakk. Fyrir slysni festist Beckett í tímalykkju og tók „skammtastökk“ innan hennar. Ekki ólíkt Guðjóni tók hann sér bólfestu í líkama annarra þar sem hann varð að bæta eða „leiðrétta“ eitthvað sem hafði farið úrskeiðis í lífi viðkomandi. Að því loknu fluttist hann í annan líkama og við tók nýtt ferli þess að komast að því hver hann væri, hvenær, og hvert verkefnið væri. Þessu fylgdi minnisleysi og öll tilfinning fyrir hefðbundinni línulegri framvindu var horfin út í veður og vind, alveg eins og hjá Guðjóni sem er nú ómögulegt að halda þræði:

[Karl læknir] tekur að segja frá einhverjum rannsóknum og það næsta sem ég veit er að ég er að tala í símann við einhvern annan. „Hver er þetta?“ „Þetta er ég , Guðjón, pabbi þinn.“ (103)

[Guðjón] hringdi í Hagstofuna og bað um að fá að skipta um nafn … Einhverju sló saman, kannski símalínum … konan í símanum spurði allt í einu: „Viltu taka þátt í skoðanakönnun?“ (155)

Þetta kemur sér vitanlega sérstaklega illa fyrir Guðjón því hann hefur þann starfa að segja sögur. Þegar hann missir minnið missir hann í sama mund hæfileikann til að segja sögu. Sá sem er minnislaus getur ekki haldið þræði og ekki leitt frásögn til lykta; það verður óumflýjanlega rof í frásögninni, hún tekur skammtastökk úr einum stað og einum tíma í annan, hún á sér engan endi. Þar sem Guðjón er allajafna vitundarmiðja Algleymis, að vísu ýmist í fyrstu eða þriðju persónu, þá dregur frásögnin óneitanlega dám af sundurslitnum hugsunum Guðjóns og verður stundum eins og gatasigti, götótt en aldrei án lögunar.

Eins og í fyrri skáldsögum sínum um Guðjón Ólafsson og eiginkonu hans Helenu er Hermann Stefánsson í Algleymi að segja sögu um það að segja sögu, sögu um sjálfa sig (hann er ekki talinn til íslenskra póstmódernista fyrir ekki neitt!). Í smásagnasafninu/skáldsögunni Níu þjófalyklum (2004) brýst Guðjón í sífellu inn í frásögnina og ræðir smásöguna sem verið er að segja hverju sinni við Helenu, en hann er „höfundur“ smásagnanna. Í sprenghlægilegri senu í lok þeirrar bókar hittir hann fyrir rithöfundinn Ólaf Jóhann Ólafsson (raunverulegan höfund bókarinnar Níu lyklar) sem hefur undir höndum búnað – skuggsjá – sem gerir honum kleift að hafa áhrif á skrif annarra. Skuggsjána hefur hann nýtt sér til að brjóta sér leið inn í bók „Hermanns Stefánssonar, rithöfundar af yngri kynslóðinni“ (120). Í Stefnuljósum (2005) var þessi sjálfsögulega hneigð myndhverfð í sögu sem Guðjón er að skrifa og gerist í fjarlægri framtíð þar sem sjálfsfróun í almenningsrými er útbreidd og trúarleg athöfn.

Þótt frásögnin í Algleymi sé sundurlaus í samræmi við huga hins ófrásagnarfæra Guðjóns þá þyrstir lesandann samt í sögu með upphaf, miðju og endi. Minningar og upplifanir Guðjóns eru stundum í mótsögn hver við aðra en lesandinn leitast engu að síður við að smíða úr þeim heildstæðan sagnaheim sem byggist á orsök og afleiðingu, fer frá A til B. Bygging sögunnar býður upp á þetta; hún er ekki jafn ævintýraleg og maður gæti búist við, heldur vindur henni fram í tímaröð þar sem upplýsingar um fortíðina eru veittar í samtölum og eyðurnar verða til þegar Guðjón „dettur út“. Þá fær lesandinn að skyggnast inn í huga Helenu og líklega er þriðjungur bókarinnar skrifaður í hennar orðastað. Helena fer vestur á firði að þýða glæpasögu þegar Guðjón verður fyrir slysinu. Þegar þangað er komið er eins og þýðingin smiti Algleymi því bókin verður æ glæpasögulegri. Í lokin tekur glæpasagnaformið eiginlega alveg yfir. Glæpurinn er atvikið sem henti Guðjón en það er lengst af óljóst hvort um var að ræða slys eða ofbeldisverk, hverjir áttu í hlut og í hvaða tilgangi. Guðjón og Helena komast á snoðir um samsæri sem geðbilaður vísindamaður stýrir og síðustu kaflarnir í bókinni eru eins og klipptir út úr einhverri spennumyndinni; Guðjón og Helena að læðast að næturlagi framhjá vörðum á skuggalegu sjúkrahúsi í Austurríki þar sem þau eru fangar. Hins vegar verður seint sagt að Algleymi haldi manni við efnið á sama hátt og góð glæpamynd, ferðalög Guðjóns og Helenu um tímann eru mjög misskemmtileg aflestrar og þessum lesanda þótti sveigja bókarinnar í átt að spennutrylli eiginlega alveg stórfurðuleg, sérstaklega í kjölfar þess löturhæga og oft ljóðræna rytma sem einkennir bókina fyrstu tvöhundruð síðurnar eða svo. Hins vegar er sagan alveg trú sjálfri sér að því leyti að hún lætur lesandanum ekki eftir einfalda Hercule Poiriot-lausn heldur blasir „tveggja átta sýn“ (282) við þegar líður að lokum. Eins og líf eða dauði kattar Schrödingers verða örlög Guðjóns og Helenu ekki ráðin; þau eru í kassanum og lesandinn fær ekki að lyfta lokinu. Lausnin er ekki ein eins og í hefðbundnum glæpasögum, heldur margar.

Í Algleymi er það ekki bara skáldskapurinn heldur sjálf mannkynssagan sem er undir. Lykilspurning verksins er sú sama og hefur verið á vörum fjöldamargra rithöfunda og sagnfræðinga á síðustu árum: Lýtur mannkynssagan einhverjum öðrum lögmálum en aðrar frásagnir? Mannkynssagan er ekkert nema safn frásagna, safn minninga. Minningar eru hins vegar óáreiðanlegar og frásagnir bundnar af formgerð. Rætur sagnfræðinnar liggja því í „skálduðum“ textum og spurningin um hvað raunverulega gerðist er mjög erfið viðfangs, ekki einu sinni þar er að finna eina, rétta lausn eins og Erlendur Sveinsson, lögreglumaður í bókum Arnaldar Indriðasonar, glímir við. Þarna kemur skammtafræðin enn til skjalanna. Í þessari grein eðlisfræðinnar virðist ýmislegt ekki í samræmi við veruleikann eins og við skynjum hann flest og erfiðasti hjallinn að komast yfir er sá að í skammtafræðinni eru hlutirnir ekki svona eða hinsegin heldur byggjast niðurstöður rannsókna alltaf að einhverju marki á athugandanum. Í afstæðiskenningu Einsteins er hraði athugandans til dæmis lykilatriði – sjálfur tíminn líður með ólíkum hætti eftir þeim hraða sem ferðast er á; maður sem ferðast á gríðalegum hraða um geiminn kemur yngri til jarðar heldur en þeir sem sátu heima og biðu hans. Þó að þær byggist á strangvísindalegum grunni þá leiða kenningar skammtafræðinnar í raun af sér afskaplega óvísindalega niðurstöðu; að það sé ekkert eitt rétt svar, enginn sannleikur. Í sérhverjum aðstæðum er allt mögulegt og allir möguleikar eiga sér stað þótt við sjáum bara eina útkomu.

Vitaskuld upplifir enginn veruleikann með þessum hætti því skammtafræðin er kerfi sem er smíðað utan um öreindir og atóm. Nema Guðjón (og Sam Beckett). Hann stekkur samstundis úr einum tíma í annan, eins og rafeindir flytjast beint milli orkuhvolfa í atómum. Þess vegna leitar hann sér huggunar í Voynich-handritinu, dularfullu handriti sem er skrifað með óþekktu letri á ókunna tungu og enginn veit hvaðan kom eða hvað merkir (þetta handrit er til í alvörunni). Guðjón verður hugfanginn af handritinu og tilurð þess vegna þess að við ráðgátunni um handritið er bara ein lausn: annaðhvort er það gabb; bull – eða það merkir eitthvað. Hvað það merkir er aukaatriði, það er einfaldlega haldreipi í heimi þar sem kettir eru bæði lifandi og dauðir.

Algleymi er víðfeðm og metnaðarfull skáldsaga og uppspretta ýmissa áhugaverðra pælinga um mörk skáldskapar og veruleika eða „sannleika“ þótt sömu þemu hafi að vísu verið mjög áberandi í skáldsögum víða um heim undanfarna tvo eða þrjá áratugi. Þrátt fyrir metnaðinn eru hún þó síður er svo hátíðleg eða þung aflestrar, þvert á móti er hún eins og fyrr var vikið að nokkuð hefðbundin að forminu til, framvindan er nokkurn veginn línuleg og í tímaröð og bókin er oft ansi fyndin. Hermann kann að skrifa og fyrir hvern þann kafla sem framkallaði geispa (og þeir voru nokkrir) voru margir mjög vel skrifaðir. Þótt sögu um svo flókið efni eins og sjálft gangvirki tímans hefði kannski hentað óheflaðra form sem endurspeglar hugmyndir skammtafræðinnar betur þá (eins þversagnakennt og það kann að hljóma!) situr Algleymi í manni.

 

Atli Bollason