ÚtlendingurinnEins og í verðlaunaverkinu Club Romantica í fyrra stígur Friðgeir Einarsson fram í eigin nafni í Útlendingnum – Morðgátu, sem var frumsýnd á Litla sviði Borgarleikhússins sl. föstudagskvöld, og leiðir okkur inn í eigin sögu. Hann þarf að flytja til Bergen í Noregi vegna þess að konan hans hefur fundið nám við sitt hæfi í skóla þar og hann á að taka ábyrgð á börnum og búi meðan hún er í skólanum. En drengirnir þeirra tveir eru líka í skóla þannig að hann á að hafa nægan tíma til að skrifa leikritið sem hann hefur lofað leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur.

Þetta eru klassískar aðstæður en eins og mjög margir kannast við sem hafa verið í einmitt þessum aðstæðum þá vill andagiftin bregðast þegar mest er kallað eftir henni. Friðgeir kemst ekkert áfram, fastur í trúmmerúmmi hvunndagsins. Hann gengur sér til upplyftingar inn í Ísdalinn upp af Bergen og dag einn hittir hann þar heimamann (Snorri Helgason) sem segir honum merkilega sögu. Fyrir hálfri öld fannst þar lík af konu sem enginn vissi hver var og gengur undir gælunafninu Ísdalskonan. Þó að svo langt sé umliðið er Ísdalskonan ennþá óþekkt stærð; enginn veit hvað hún hét réttu nafni, hvaðan hún var, hvað hún var að gera í Noregi og hver varð henni að bana. Þetta verður verðugt rannsóknarefni fyrir manninn sem fann sína „Eloise“ eftir langa leit í mörgum löndum í Club Romantica en reynist ansi miklu snúnara.

Að sumu leyti er þetta endurtekið efni hjá Friðgeiri og ekki gat ég fundið fyrir beinum áhuga hjá mér á Ísdalskonunni sjálfri (ólíkt „Eloise“), en frásögnin greip mig samt. Friðgeir er einstaklega aðlaðandi á sviði, tilgerðarlaus, lúmskt fyndinn og skemmtilegur og maður verður ósjálfrátt áhugasamur þátttakandi í lífi hans þessa kvöldstund.

Útlendingurinn

Það er heldur ekki lítill akkur fyrir hann að hafa Snorra Helgason tónlistarmann með sér, svo fjölhæfur sem hann er. Snorri byrjar sýninguna á undurfallegu lagi um það sem dalurinn geymir og hann á fleiri lög í sýningunni, auk þess sem hann bregður sér í ýmis hlutverk, bæði barna og fullorðinna. Sviðið hennar Brynju Björnsdóttur er líka skemmtilegt kaos. Á bakveggnum gnæfir málverk Viðars Jónssonar af Ísdalnum í stíl meistara Munchs, til vinstri er ríki Snorra með alls konar hljóðfærum, til hægri er íbúð Friðgeirs og Sigrúnar en á framsviði nokkrir stórir „steinar“ sem gegndu ýmsum hlutverkum, oft æði skondnum. Hljóðmynd Þorbjarnar Steingrímssonar var stundum dálítið frek en lýsing Pálma Jónssonar er markviss og utan um allt saman heldur Pétur Ármannsson leikstjóri af mýkt og styrk.

 

Silja Aðalsteinsdóttir