Áhugamannaleikfélagið Hugleikur hefur lengi verið meðal minna eftirlætisleikfélaga og þessa dagana er það að halda upp á fertugsafmæli sitt. Eins og það gjöfula félag sem það er gefur það okkur gjöf á afmælinu en væntir einskis á móti annars en að við komum og sjáum afmælissýninguna. Það gerði ég svikalaust í gær, fór í Gamla bíó með sjö ára frænku og naut þess að horfa á Jólaævintýri Hugleiks í haugafullum sal af með-aðdáendum mínum. Höfundar texta eru Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason en tveir þeir síðastnefndu eru líka höfundar tónlistar. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrir. Að sjálfsögðu var sjö manna hljómsveitin Dalakollar á sviðinu.
Jólaævintýrið var fyrst sýnt fyrir 18 árum og er ein alvinsælasta sýning félagsins frá upphafi og það er skiljanlegt: þetta er dúndur sýning með ýmist væmnum eða eitruðum samtölum, skemmtilegum lögum við hnyttna texta og um leikinn og sönginn þarf ekki að spyrja! Kórstjóri var Björn Thorarensen.
Jólaævintýrið er stæling á sögu Dickens, A Christmas Carol. Hér er nirfillinn bóndinn á Grafarbakka, Ebenezer Friðriksson (Pétur Húni) sem kúgar leiguliða sína miskunnarlaust og finnur ekki til með neinum, ekki einu sinni honum Tomma litla (Úlfhildur Stefanía Jónsdóttir) sem er svo snjall og vænn en greinilega dauðveikur. Foreldrar hans, Kristján og Þórunn (Einar Þór Einarsson, Sigurlaug Arnardóttir) eru í öngum sínum en faðirinn sýnir Ebenezer meiri undirgefni en móðirin, hún amlar gegn kúguninni þótt lítið hafist upp úr því. Friðrik frændi Ebenezers (Gísli Björn Heimisson) reynir líka að andæfa frænda sínum en er kveðinn í kútinn. Ekki einu sinni á jólunum sýnir Ebenezer náungakærleika enda hatar hann jólin meira en nokkuð annað. Við fáum líka að hitta Ebenezer á unga aldri (Axel Pétur Ólafsson) og sjá hvernig hann fór með fallegu prestsdótturina Bellu (Katla Dögg Hólmarsdóttir) sem unni honum hugástum og beið hans árum saman, aðeins til að uppskera kuldalega höfnun þegar kærastinn sneri heim aftur.
Það þarf yfirnáttúrlega krafta til að vinna á svíðingshætti Ebenezers og þeir koma eins og kallaðir þegar Þórunni húsfreyju tekst að byrla karlinum svefnlyf og svæfa hann. Þá koma draugarnir, hver á fætur öðrum og hrella Ebenezer með því að sýna honum hvernig hann hefur hagað sér og hvaða afleiðingar það hefur haft gegnum árin og áratugina. Þetta eru skrautlegir draugar. Móri (Þorbjörg Erna Mímisdóttir) er hrekkjóttur og pínkulítið klæminn (sem Ebbi karlinn þolir illa), Ragnheiður (Kristín Svanhildur Helgadóttir) var samverkamaður hans í dentid og getur sagt honum hvernig muni fara fyrir honum hinum megin (það er ekki falleg lýsing), Miklabæjar- Sólveig (Hrafnhildur Þórólfsdóttir) fer langt með að hræða úr honum líftóruna og séra Oddur ( Fríða Bonnie Andersen) notar táknmál sem karlinn skilur.
Mitt í þessari baráttu er sveitin að halda upp á jólin og Ungmennafélagið Fjárkláði með Heiðlaugu Svan (Sigríður Birna Valsdóttir) í broddi fylkingar fer milli bæja með sinn fríða hóp, skemmtir fólki og safnar fé handa bágstöddum. Eins og nærri má geta tekur Ebenezer þeim afleitlega – þangað til draugarnir hafa gert sitt gagn.
Leikurinn var yfir línuna skínandi góður á hinn hugleikska hátt en freistandi er að nefna sérstaklega Úlfhildi Stefaníu sem var alveg heillandi Tommi litli, Sigríði Báru sem skein eins og sólin í hlutverki Kapítólu, eiginkonu Friðriks, algerlega innantóm en afskaplega sæt, eins og hún benti sjálf á! Pétur Húni var traustur í aðalhlutverkinu, týpan fullkomin og leikurinn röggsamur. Af draugunum þótti mér mest koma til Sólveigar, gervið á henni var líka ansi hreint gott, og Móra. Og loks var Sigríður Birna formaður Ungmennafélagsins lifandi kominn.
Marga þátttakendur vantar í þessa upptalningu og ég þakka þeim öllum fyrir sitt framlag, sýningin hefði ekkert orðið án þeirra þótt aðrir fengju stærri hlutverk og væru meira áberandi. Allt er fertugum fært, segir máltækið. Ég bíð spennt eftir afrekum Hugleiks á fimmtugsaldrinum.
Silja Aðalsteinsdóttir