Skafti Ingimarsson. Nú blakta rauðir fánar. Saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968.
Sögufélag 2024.
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2025.
Kommúnistaflokkur Íslands, KFÍ, og Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, eru líklega þær stjórnmálahreyfingar íslenskar sem hvað rækilegasta umfjöllun hafa fengið en undanfarna áratugi hafa komið út fjölmörg rit, mismerkileg, þar sem farið er í saumana á stefnu þessara flokka og ýmsum þáttum í starfi þeirra. Mest hefur þó verið fjallað um tengsl flokkanna við Alþjóðasamband kommúnista Komintern.
Sú bók sem hér er til umfjöllunar er að stofni til doktorsritgerð sem Skafti Ingimarssonar varði við Háskóla Íslands fyrir nokkrum misserum. Hér er fjallað um upphaf hreyfingar kommúnista á Íslandi, þróun hennar þar til Sósíalistaflokkurinn er stofnaður og saga hans síðan rakin þar til hann var lagður niður 1968. Höfundur leggur einkum áherslu á þrennt: Í fyrsta lagi ákvarðanatöku innan flokkanna og uppbyggingu, þar með talið innra starf og ýmis hliðarsamtök sem störfuðu á þeirra vegum. Í öðru lagi samskiptin innan flokkanna, einkum mismunandi áherslur annars vegar flokksdeildanna í Reykjavík og á suðvesturhorninu og hins vegar í öðrum hlutum landsins, en þær brutust stundum út í hörðum innanflokksdeilum. Í þriðja lagi rannsakar höfundur stöðu félagsmanna í þessum tveim flokkum og hverjir það voru sem mönnuðu þá. Þar styðst hann við félagaskrár flokkanna en það eru gögn sem nýlega hafa orðið aðgengileg fræðimönnum. Þessi hluti bókarinnar sætir án efa mestum tíðindum og gerir höfundur þessu efni skil bæði í aðalhluta bókarinnar en einnig í viðauka.
Hér verður leitast við að drepa á mikilvægustu þætti þessa mikla verks en eins og gefur að skilja hlýtur margt að verða út undan í stuttum ritdómi.
Ótvíræðir leiðtogar, fyrst KFÍ og seinna Sósíalistaflokksins, voru þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, tvíeykið sem yfirleitt var mjög samhent þótt stundum kastaðist í kekki, einkum meðan hið svokallaða rétttrúnaðarstand tröllreið KFÍ 1933–1934. Áherslur þeirra félaga voru þó um margt ólíkar enda mennirnir býsna ólíkir. Einar var heillandi persónuleiki sem átti auðvelt með að hrífa fólk með sér og afbragðs ræðumaður. Brynjólfur virkaði þurrari á manninn, fremur stirðmæltur en ákaflega rökfastur og tjáði sig aldrei nema að vel yfirlögðu ráði. Báðir heilluðust þeir af byltingunni í Sovétríkjunum á námsárum sínum erlendis en eftir að þeir komu heim kom fljótlega í ljós hjá þeim áherslumunur. Brynjólfur og félagar hans vildu stofna kommúnistaflokk sem fyrst, en Einar vildi bíða átekta og vinna sem lengst innan Alþýðuflokksins og stofna víðari flokk vinstri sósíalista þegar klofningurinn yrði að veruleika. Þessi munur skýrðist að nokkru af því að Einar fór til Akureyrar og vann ötullega að uppbyggingu sósíalískra samtaka og verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlandi. Hann náði góðum árangri og naut vinsælda langt út fyrir raðir kommúnista. Brynjólfur var hins vegar í forystu fyrir kommúnistum í Reykjavík en þar var Alþýðuflokkurinn í fleti fyrir, vel skipulagður og með sterka stöðu í verkalýðshreyfingunni, enda varð kommúnistum lítið ágengt.
Framan af virðist þó hafa verið þokkaleg sambúð milli krata og komma. Svo góð að Jón Baldvinsson styrkti Hendrik Ottósson eitt sinn til Moskvufarar, enda kom Hendrik heim færandi hendi með sæmilegan fjárstyrk frá Komintern handa Alþýðublaðinu sem, þá eins og endranær, átti í fjárhagserfiðleikum. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort Jón hefði helst kosið að bera kápuna á báðum öxlum og eiga góð samskipti jafnt við Komintern sem Annað alþjóðasambandið. Af því varð þó ekki, enda hvorugu alþjóðasambandinu að skapi. Í sem stystu máli þá endaði það með því að Alþýðuflokkurinn klofnaði 1930 og kommúnistarnir stofnuðu Kommúnistaflokk Íslands.
KFÍ var ólíkur öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum um margt. Hann var deild í Komintern og laut þeirri stefnu sem samþykkt var á þingum þess. Það var þó fjarri því að flokkurinn væri einhver strengjabrúða sem stjórnað var alfarið frá Kreml eins og stundum er haldið fram. Höfundur sýnir fram á með sterkum rökum að samband flokksins við Komintern var síður en svo einhliða og höfðu forystumenn KFÍ sitt að segja um starf og stefnu flokksins á Íslandi, einkum eftir að hreinsanirnar og skríparéttarhöldin hófust í Sovétríkjunum og Komintern varð lítið annað en skúffufyrirtæki í sovéska utanríkisráðuneytinu með útbú hjá leyniþjónustunni. Til dæmis var Sósíalistaflokkurinn stofnaður þvert ofan í vilja leifanna af Komintern.
Skipulag flokksins var og gerólíkt því sem tíðkaðist í Vestur-Evrópu. Flokkurinn hafði miðstjórn og rúmlega tuttugu kommúnistafélög út um allt land. Félagsdeildirnar áttu síðan að skipta félögunum upp í vinnustaðasellur að alþjóðlegri fyrirmynd. Þetta fyrirkomulag hentaði ekki á Íslandi þar sem vinnustaðir voru yfirleitt fámennir, en þó munu hafa starfað sellur á stærstu vinnustöðunum í Reykjavík, svo sem við höfnina. Það endaði með því að í staðinn fyrir vinnustaðasellurnar komu hverfasellur.
KFÍ var aktívistaflokkur, ætlast var til að félagarnir væru virkir í sellum flokksins en einnig ýmsum hliðarsamtökum hans eins og Alþjóðasamhjálp verkalýðsins og Sovétvinafélaginu. Margir fyrrum félagar í flokknum minntust starfsins þar með hlýju og söknuði og fannst Snorrabúð stekkur þegar þeir fóru að starfa í Sósíalistaflokknum sem var mun líkari hefðbundnum stjórnmálaflokkum. Það hefur þó varla alltaf verið tóm sæla að starfa í KFÍ, til dæmis meðan réttlínufárið gekk yfir og þó nokkrir félagar voru reknir úr flokknum og aðrir neyddir til að hafa upp ýmiss konar misvitlausa sjálfsgagnrýni og hefði höfundur gjarnan mátt gera því nánari skil. Einnig gat reynt á að vera félagi í flokknum. Flokksfélagar voru reknir úr vinnu og skólum fyrir skoðanir sínar og í félagatali flokksins eru sumir félagar skráðir undir dulnefnum.
KFÍ var öflugastur á Norðurlandi, kringum Neskaupstað og í Vestmannaeyjum en á þessum stöðum voru það félagar í flokknum sem byggðu upp verkalýðshreyfinguna og veittu henni forystu. Einar og ýmsir félagar hans á Norðurlandi, Lúðvík Jósepsson, Bjarni Þórðarson og Jóhannes Stefánsson í Neskaupstað og Ísleifur Högnason í Vestmannaeyjum. Þar sem Alþýðuflokkurinn hafði haslað sér völl gekk flokknum hins vegar verr, svo sem á Ísafirði og í Reykjavík.
Á þessum tíma voru Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn í einni sæng, allir forystumenn verkalýðsfélaga í ASÍ urðu að vera félagar í Alþýðuflokknum. Þegar flokkurinn klofnaði og KFÍ var til, greip Alþýðuflokkurinn til þess ráðs að kljúfa þau verkalýðsfélög þar sem kommúnistar voru í forystu fyrir, til stórs skaða fyrir kjarabaráttu launafólks í miðri kreppunni og varð flokknum síst til framdráttar þegar frá leið.
En dropinn holar steininn og 1937 vann KFÍ stórsigur í alþingiskosningum, fékk þrjá menn kosna, þá Einar Olgeirsson, Brynjólf Bjarnason og Ísleif Högnason. Þegar þeir félagar komu fyrst í Alþingishúsið tóku kratar og framsóknarmenn þeim ærið kuldalega en Ólafur Thors gekk til þeirra, heilsaði þeim og sagði: Ekki vildi maður nú fá ykkur hingað inn en fyrst þið eruð komnir, þá verið þið velkomnir. Þetta reyndist „the beginning of a beautiful frendship“ milli þeirra Einars og Brynjólfs og Ólafs sem stóð allt af sér, hvort sem var íslenska hreppapólitík eða brimöldur kaldastríðsins.
Sigur KFÍ í kosningunum, uppgangur nasista í Þýskalandi og marseringar fánaliðs íslensku nasistanna um götur Reykjavíkur ollu titringi í Alþýðuflokknum, sem og víðar, og vildu þeir sem lengst stóðu til vinstri þar á bæ leita samstarfs við kommúnista, enda höfðu þeir síðarnefndu predikað samfylkingarpólitík þessara tveggja flokka síðan Komintern kúventi í þeim málum 1935. Þessu lauk eins og flestir vita með klofningi Alþýðuflokks þegar Héðinn Valdimarsson og vinstri armur flokksins gekk til liðs við kommúnista og stofnaði Sósíalistaflokkinn.
Árás Sovétríkjanna á Finnland olli svo aftur klofningi í Sósíalistaflokknum þegar kommúnistar neituðu að fordæma hana. Þetta, ásamt griðasáttmála Hitlers og Stalíns, varð síðan til þess að Sósíalistaflokkurinn einangraðist fyrstu stríðsárin. Vandræði flokksins jukust svo enn frekar út af hinu svonefnda dreifibréfamáli og þegar breski herinn bannaði Þjóðviljann og handtók ritstjóra hans, þá Einar Olgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson, ásamt Sigurði Guðmundssyni blaðamanni. Handtaka Einars var skýlaust lögbrot þar sem hann var þingmaður og gat ríkisstjórnin ekki annað en fordæmt það þótt grátið væri krókódílatárum yfir því að Þjóðviljinn skyldi vera bannaður.
Þetta gerbreyttist svo allt saman 1942 þegar Sósíalistaflokkurinn vann stórsigur í alþingiskosningum og varð þar með stærri en Alþýðuflokkurinn. Fangelsun ritstjóranna og bannið á Þjóðviljanum átti sinn þátt í þessum sigri þar sem aðgerðir Breta vöktu samúð almennings með flokknum, auk þess sem Sovétríkin voru nú orðin þátttakandi í styrjöldinni. En það sem líklega skipti mestu máli voru hin illræmdu gerðardómslög sem stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks setti í þeim tilgangi að hamla gegn víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, en samkvæmt þeim var verkalýðshreyfingunni bannað að beita verkfallsvopninu til að bæta kjör launafólks og lágu við því háar sektir. Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin gátu illa varist þessum lögum en verkafólk brást við með því að hefja skæruverkföll hér og þar og nýta sér þann mikla skort sem var á vinnuafli. Þessi skæruverkföll voru í fyrstu sjálfsprottin en brátt tóku félagar í Sósíalistaflokknum forystuna fyrir verkafólki og voru verkföllin skipulögð gegnum þá, þótt fólk úr öllum flokkum tæki þátt í þeim, auk þess sem flokkurinn háði mun skeleggari baráttu gegn lögunum og ríkisstjórninni en Alþýðuflokkurinn. Með kosningasigrinum var Sósíalistaflokkurinn orðinn helsti málsvari launafólks á Íslandi.
Á þetta minnist höfundur hvergi og virðist hreinlega ekki hafa áttað sig á þessum mikilvæga þætti í sigri Sósíalistaflokksins. Þó hefur verið gerð skilmerkileg grein fyrir þessu öllu í kveri eftir Helga Sigurðsson, Kjaradeilur ársins 1942, sem kom út 1978. Þetta var einn af hinum svokölluðu Framlagsbæklingum sem félagar í Fylkingunni stóðu að og fjölluðu flestir um hina og þessa þætti í sögu íslenskra sósíalista og verkalýðshreyfingarinnar. Höfundur hefði án efa haft talsvert gagn af þeim öllum ef hann hefði haft þá við höndina þegar hann samdi bókina.
Kaldastríðið olli sósíalistum þungum búsifjum. Í kjölfar kosningasigursins 1942 rofnaði einangrun sósíalista og svo fór að þeir mynduðu Nýsköpunarstjórnina með Sjálfstæðis- og Alþýðuflokki, en markmið hennar, eins og nafnið gefur til kynna, var að endurnýja íslenskt atvinnulíf með þeim gríðarlega stríðsgróða sem hlaðist hafði upp. Stjórnarsamstarfið gekk vel og almenn ánægja var með ríkisstjórnina og störf hennar sem sýndi sig í kosningum. En þá kom beiðni frá Bandaríkjunum um leyfi til að hafa herstöðvar á Íslandi. Sósíalistar risu öndverðir gegn öllum slíkum umleitunum og því sprakk Nýsköpunarstjórnin.
Keflavíkursamningurinn svonefndi, inngangan í NATO og koma bandaríska hersins, olli miklum deilum í samfélaginu og sýndist sitt hverjum. Það er vel þekkt að málið var mjög umdeilt, meðal almennra flokksmanna í Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki en einkum þó í Framsóknarflokknum, þar sem andstaða við herstöðina var alla tíð mjög sterk. Margir, hvar í flokki sem þeir stóðu, vildu halda fast í hlutleysisstefnuna. En það sem kemur verulega á óvart er að höfundur sýnir fram á að stór hópur innan Sósíalistaflokksins vildi ekki gera þessi mál að því úrslitamáli sem forysta flokksins í Reykjavík vildi. Það voru einkum sósíalistar á landsbyggðinni sem voru þessarar skoðunar, svo sem Lúðvík Jósepsson og Áki Jakobsson, þeir vildu að megináherslan yrði á atvinnu- og efnahagsmál. Það sýnir kannski hvað best hversu margbrotin hreyfing íslenskra sósíalista var að það var einmitt Lúðvík Jósepsson sem hvað lengst hélt tengslum við sendiráð Sovétríkjanna á Íslandi.
Þrátt fyrir að Sósíalistaflokkurinn og áður KFÍ hefðu haft kvenfrelsi á stefnuskrá sinni var staða kvenna innan beggja flokkanna veik, rétt eins og í hinum flokkunum. Samkvæmt rannsókn höfundar voru karlar 77% félaga í báðum flokkunum og konur 23%. Aðeins fáar konur komust til metorða í flokkunum og þegar sú hugmynd kom upp að stofna Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna urðu þær að spyrja flokksstjórnina, sem að mestu var skipuð körlum, leyfis. Kvenfrelsi hvað? Meðan Katrín Thoroddsen var þingmaður sósíalista bar hún upp fjölda mála sem snertu hagsmuni kvenna og barna og hlaut litlar undirtektir, jafnvel hjá sínum eigin flokksmönnum.
Nú blakta rauðir fánar er vönduð bók sem hiklaust er hægt að mæla með við áhugafólk um stjórnmálasögu. Hún er fróðleg, prýðilega skrifuð og þar kemur sitthvað fram sem telja má til tíðinda eins og getið hefur verið um hér að framan. Einkum ber þó að nefna lýðfræðirannsóknir höfundar á félagaskrám flokkanna sem gerð er grein fyrir í viðauka. Bókin er auk þess ríkulega og smekklega myndskreytt.
Eitt verður þó sá sem hér heldur á penna að viðurkenna að fór verulega í taugarnar á honum, en það er að tilvísanir eru í aftanmálsgreinum en ekki neðanmálsgreinum, það er ótrúlega pirrandi fyrir lesandann að þurfa alltaf að vera að fletta aftast í bókina ef hann ætlar að kynna sér eitthvað af efni hennar nánar. Að öðru leyti er óhætt að óska höfundi og útgefanda til hamingju með fróðlega bók og eigulegan prentgrip.
Guðmundur J. Guðmundsson