Hópur fimmtán unglinga sem kallar sig Teenage Choir of Love and Sex endurfrumsýndi í gær dans- og söngvasýninguna The Teenage Songbook of Love and Sex í Tjarnarbíó. Hún var áður sýnd á Reykjavík Dance Festival síðastliðið haust þar sem hún vakti talsverða athygli. Enda er þetta bráðfjörug og skemmtileg sýning. Hún er eftir þau Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts auk krakkanna sjálfra og tónlistarstjórans, Teits Magnússonar. Kórstjórar voru Sigríður Soffía Hafliðadóttir og Aron Steinn Ásbjarnarson.

The Teenage Songbook of Love and Sex

The Teenage Songbook of Love and Sex / Mynd: Owen Fiene

Þau kalla sig ensku nafni og syngja meira á ensku en íslensku en þau eru samt öll íslensk og á aldrinum 15–19 ára. Enskan kemur til af því að þau eru í útrás, hafa þegar flutt þetta verk erlendis og ætla að halda því áfram. Auðvitað á það ekki að koma manni á óvart hvað unglingar hér á landi geta margt – haft bullandi skoðanir á öllum sköpuðum hlutum, samið tónlist og texta, flutt lögin sín og dansað um leið. Þeir sem hafa fylgst með Skrekk undanfarin ár vita að furðulega mörg grunnskólabörn koma fram eins og bestu fagmenn. Ástar og kynlífskórinn var algerlega samtaka í söng og dansi og meðleikararnir komu líka úr hópnum, Karólína sem átti eitt skemmtilegasta lagið um að vaxa úr grasi („dansinn“ við það var alveg æðislegur) og Egill sem var gríðarlega flinkur á hljómborðið og algerlega rafmagnaður á sviðinu.

Þau syngja um líf sitt, langanir og raunir. Mig langar að kela (I wanna make out) endurtaka þau þangað til við hljótum að trúa þeim; hvað myndi gerast ef ég hringdi til þín og segði þér að ég elska þig? Viltu finna mig, ég vil eiga við þig orð – þetta viðlag á íslensku var í lagi sem var að öðru leyti á ensku, það kom ansi skemmtilega út. Raunasagan um stelpuna sem var lesbísk en neydd til að halda áfram í sambandi við strák var sterk þótt dapurleg væri. Svo var líka lesbískt ástarævintýri á klósetti í partíi – you were classy and I was cheap. Þau kunna að meta vináttuna, eitt lagið var um platónska ást, en lokalagið var um sjálfa ástarsorgina. Það var Sverrir Gauti sem flutti það lag með miklum tilþrifum.

Hámark sýningarinnar fyrir okkur áheyrendur var þó þegar við fengum að taka þátt sjálf í einu laginu – syngja hástöfum með hópnum: Ég er drusla, hún er drusla, hann er drusla, við erum öll fokking druslur! Mælt með fyrir alla unga og unga í anda!

 

Silja Aðalsteinsdóttir