Við eignuðumst nýtt leikskáld í gærkvöldi þegar Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi Tvískinnung eftir Jón Magnús Arnarsson undir stjórn Ólafs Egils Egilssonar. Jón Magnús er ljóðaslammari og textinn frjór og orðmargur, iðulega rímaður sem gefur honum óvenjulegt yfirbragð. Þetta er samt ekki rómantískt verk heldur fremur sprottið úr óvægnum heimi djamms, eiturlyfja og hasarmynda enda hittum við hér sjálfan Járnmanninn og Svörtu ekkjuna.
Ég hafði aldrei heyrt um þau Tony Stark/Járnmanninn og Natöshu Romanovu/Svörtu ekkjuna fyrr en þau birtust á sviðinu í Tvískinnungi. Hann (Haraldur Ari Stefánsson) og hún (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) hittast á sýrðu grímudjammi klædd í gervi þessara ofurhetja og það takast með þeim bálheitar ástir sem spegla sjúkar ástir leikaranna sem leika þau. Persónur og leikarar skylmast með orðum, slást og rífast, arga og æpa hvort á annað svo að húsið yfirfyllist af ógnardyn með hjálp tónlistarinnar (Arnar Ingi Ingason og Garðar Borgþórsson) og maður kvíðir því að sitja undir hávaðanum í hátt á aðra klukkustund. En inn á milli dettur allt í dúnalogn. Þá skipta Haraldur og Þuríður yfir í boli merkta Borgarleikhúsinu og ræða saman um verkið og persónurnar, svöl og svolítið hæðin. Verkið tengja þau fljótlega við Rómeó og Júlíu en leikrit Shakespeares er ekki nærri því nógu viðburðaríkt fyrir þeirra smekk og þau spinna endalok þess áfram út í meiri og meiri fáránleika. Það var bæði frumlegt og skemmtilegt samtal – sem leiddi síðan út í sturluðu ástarsöguna á ný með frásögnum af því hvernig samband persónanna hófst og hvernig það hefur þróast með sívaxandi ofbeldi og eiturlyfjaneyslu.
Tvískinnungur ber nafn með rentu því það er eins og tvö leikrit samtvinnuð, ástarsaga ungmennanna sem tengja sig við Járnmanninn og Svörtu ekkjuna og vangaveltur leikaranna sem leika þau. Þetta virkaði vel og leikararnir skemmtu sér greinilega undir drep í báðum „leikritum“. Bæði áttu auðvelt með að skipta milli karaktera en það mátti sjá að Þuríður Blær hefur meiri sviðsreynslu en Haraldur, alla vega urðu hennar persónur sterkari og líkamleg færni hennar áberandi meiri í frábærri klifurgrind úr köðlum sem Sigríður Sunna Reynisdóttir hafði útbúið handa þeim á sviðinu. Búningarnir voru líka glettilega flottir hjá Sigríði Sunnu, einkum Þuríðar.
Lýsing Þórðar Orra Péturssonar var alveg einstaklega áhrifamikil og gerði þessa sýningu – ásamt sviðinu – að mögnuðu sjónarspili á köflum. Ég hætti ekki að undra mig á því hvað hægt er að gera með nútímatækni en Þórður Orri hefur hana gersamlega á valdi sínu. Tónlistin, lýsingin, leikmyndin, leikgervin (Margrét Benediktsdóttir), leikurinn og efni verksins – síðast en ekki síst – ætti allt að höfða til ungs fólks sem vonandi flykkist á Litla svið Borgarleikhússins næstu vikur.
-Silja Aðalsteinsdóttir