LjósgildranGuðni Elísson: Ljósgildran.

Lesstofan, 2021. 800 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2022.

 

Það hlýtur að teljast til stórtíðinda þegar bókmenntafræðiprófessor, sem helgað hefur líf sitt kennslu, skrifum og umræðum um bókmenntir, gefur út sína fyrstu skáldsögu. Og það kemur ekki á óvart að gripurinn er stór í sniðum: átta hundruð blaðsíður og þykkur eins og múrsteinn. Bókin er reyndar það þung að það kostaði heilar þrjú þúsund íslenskar krónur að senda hana yfir hafið svo að undirrituð gæti rýnt í hana. Og eftirvæntingin var mikil. Sjálf sat ég eitt námskeið hjá höfundi í grunnnámi í bókmenntafræði og heillaðist af kunnáttu hans og þekkingu, en ekki síður orðsnilld og húmor. Hann er kennari sem smitar eigin áhuga og ástríðu yfir á nemendur sína og kennslustundirnar minna óneitanlega á performans – sem er reyndar ekki svo óviðeigandi þegar kennsluefnið eru bókmenntir, ljóð, leikrit og öll fræðin sem þeim fylgja. En ég var líka uggandi þegar ég fékk gripinn í hendur, jafnvel skeptísk – gat bókin verið jafn skemmtileg og höfundurinn?

Lengd verksins vakti óneitanlega efasemdir. Það er fátítt að bókmenntafræðilegar skáldsögur komi út á Íslandi – skáldsögur sem elska aðrar skáldsögur og láta það vel í ljós – hvers vegna ekki að gera gripinn aðgengilegri í von um að hann rataði tilviljanakennt til almennra lesenda? Mig grunar að bæði umfang verksins og starf höfundar gætu fælt einhverja lesendur frá, en hvort tveggja gefur í skyn að bókin gæti reynst torskilin borgerísk flækjusaga, þegar hún er í rauninni bæði aðgengileg og skemmtileg aflestrar, og jafnvel nokkuð hefðbundin að forminu til; frásögnin er línuleg, sögupersónur kunnuglegar og söguheimurinn kallast sterklega á við íslenskan samtíma.

Ljósgildran er breið saga og margradda en lesendur kynnast og fylgjast með nokkrum ólíkum persónum. Skáldið H.M.S. Hermann er vanmetinn af samferðafólki sínu þangað til hann gerist, alveg óvart, þjóðhetja um stundarsakir. Forsetinn býr ásamt konu sinni Kapitólu á Bessastöðum, felur sig í lesherberginu þar sem hann sökkvir sér í kræsingar og heimsbókmenntir. Forsætisráðherrann Ólafur Helgi er jafnframt formaður Sjálfstæðisflokksins og stundar plott og leynimakk í Valhöll. Hans Húbert leiðir hóp eldri borgara sem leiðist umræðan um svokallaðar loftslagsbreytingar, og Mogens Bogensen, sem kinkar sterklega kolli til persóna Nóbelsskáldsins, er þingmaður sem plottar gegn áðurnefndum Ólafi Helga. Þá hittum við einnig fyrir unga stúlku, Pollý að nafni, sem minnir á goðsögulega Grétu Thunberg. Kjarni verksins hlýtur þó að vera frásögnin af Jakobi, syrgjandanum „sem ferðast hægt“ (61), eins og segir í sögunni, fylgir eiginkonu sinni síðasta lífsspölinn, syrgir hana, elur upp barnunga dóttur þeirra og gefur út ljóðabók sem ber einmitt titilinn „Ljósgildran“.

Verkið er marglaga í þeim skilningi að það býr yfir mörgum ólíkum frásagnarþráðum sem svo fléttast mismikið saman. Grunnstef þess, og það áhugaverðasta að mínu mati, er engu að síður ástin á bókmenntum sem einnig mætti kalla sjálfssögu (e. metafiction) því Ljósgildran er sannarlega metasaga; saga sem fjallar um aðrar sögur og hefur að geyma fjöldann allan af römmum, frásagnarspeglum, „mise en abyme“ og öðrum frásagnar-„flækjum“ – og vísar fram og til baka í bókmenntahefðina. Sjálfssagan birtist á tveimur sviðum: í textatengslum og í vísunum í aðra bókmenntatexta sem eru á víð og dreif um söguna, ýmist mjög augljósar eða ekki, og í aðalpersónunum tveimur, skáldunum Hermanni og Jakobi.

 

Madame Bovary og höfundur Njálu

Textatengsl og vísanir í önnur bókmenntaverk koma ekki á óvart í skáldsögu eftir bókmenntafræðiprófessor, heldur verður það að teljast nokkuð gefið að verkið byggi að einhverju leyti á því starfi og þeim rannsóknum sem höfundur hefur stundað. En slíkt getur birst með ólíkum hætti. Guðni Elísson hefur komið víða við í bókmenntafræðirannsóknum sínum en síðustu ár hefur hann helst skrifað um loftslagsvá, ábyrgð og afleiðingar, en það fræðasvið kallast nú umhverfishugvísindi eða vistrýni, og kemur vissulega við sögu í Ljósgildrunni – en merkilega lítið þó. Þá er Guðni einn þeirra fræðimanna sem tekist hefur á við Hrunið en í grein frá árinu 2009 lýsir hann því hvernig íslenska bankahrunið er orðið að grein (e. genre) í íslenskri menningarsögu og tekur mið af þeim fjölda fræðirita sem fjalla um atburðina.[1] Höfundur Ljósgildrunnar minnist oft á hrunið, íslenskt fjármálakerfi og slagorðið „helvítis fokking fokk“, sem setja sögunni forsendur og útskýra til dæmis hvernig íslenskur bókmenntamarkaður virkar, hvernig sölutölur, verðlaun og athygli haldast í hendur. Góðæri og hrun eru jafnvel sett fram sem ákveðinn hornsteinn í sjálfsmynd þjóðarinnar og á einum stað segir:

Það voru því fjármálastofnanirnar sem leystu íslenska persónuleikann úr læðingi en ekki skáldin, þvert á það sem sagt er í hátíðarræðum. (79)

Þá hefur Guðni einnig rannsakað og skrifað um hrollvekjur en hugmyndin um das unheimlich, eða „hið óhugnanlega“, og sögur sem hræða eða vekja ugg er stef sem birtist í Ljósgildrunni og hefði jafnvel mátt fá meira pláss. Heimili Jakobs er hálfgert reimleikahús; grátt og tilkomumikið situr það á besta stað í Þingholtunum og geymir sögu fjölskyldunnar í gegnum árin en Lára, kona Jakobs, erfði ung húsið þegar foreldrar hennar féllu frá. Þegar Lára dregur sinn síðasta andardrátt í stofunni heima hjá sér er eins og Jakob setji sig í stellingar og bíði eftir að andi hennar vitji hússins. Annar stuttur kafli, sem stendur sjálfstætt, segir frá því þegar leikskólabörn ásamt kennara sínum mæta óskilgreindri ógn uppi á Skólavörðuholtinu. Hér er eins og höfundur daðri við aðdráttarafl hrollvekjunnar, ævintýrsins sem um aldir hefur hrætt lesendur – og skemmt þeim um leið. Því má velta fyrir sér hvort þessi viðfangsefni – umhverfishugvísindi, fjármálahrun og hrollvekja – tengist ekki á einhvern óskilgreindan hátt og hvort skáldsagan undirstriki þau tengsl með einhverju móti og geri þau sýnilegri?

Textatengsl undirstrika hvernig bókmenntir verða aldrei til í tómarúmi heldur er texti alltaf gerður úr öðrum textum. Í því liggur samræðuvirkni verksins; sagan er ekki aðeins samræða höfundar við lesanda, heldur lesandans við bókmenntahefðina og alla þá texta sem sagan vísar í. Hver kafli hefst á tilvitnun, oft fleiri en einni, þar sem höfundur minnist á önnur verk, birtir jafnvel brot úr þeim, og fjallar um þekktar sögupersónur úr heimsbókmenntum eins og Önnu Kareninu, Madame Bovary og Moby Dick, en einnig um aðra höfunda og ljóðskáld, eins og Jónas Hallgrímsson, Tómas Guðmundsson, T.S. Eliot og höfund Njálu. Þá fjallar hann á augljósan og meðvitaðan hátt um ólíkar greinar bókmennta og um tíma var ég með þá kenningu að hver hluti sögunnar tæki fyrir eina bókmenntagrein. En þrátt fyrir að það standist ekki alveg er ljóst að sagan byggist á ákveðnum leik með ólíkar bókmenntagreinar og frásagnarform. Við fylgjumst til dæmis með forsetanum skrifa ræðu þar sem vísanir í sameiginlegt minni þjóðar eru notaðar í pólitískum tilgangi. Skáldið Jakob á ansi skemmtilegt samtal um sálma við prest sem er vel að sér í bragfræði og ljóðgreiningu. Í fyrstu vill Jakob hafa útför eiginkonu sinnar „berstrípaða“ og án tónlistar en eftir gott spjall við prestinn kemst hann að þeirri niðurstöðu að leikinn skuli heldur óhefðbundinn sálmur sem endurspeglar það tilfinningalega ferli og sálrænu óreiðu sem hann er að ganga í gegnum:

Hann skildi flestum betur gildi þess að velja útfararsálm með hjartsláttaróreglu, taktskrýtinn mars fyrir drauga og sálir. (126)

Þess má geta að ég hef sjaldan lesið jafn nákvæma frásögn af jarðarfararundirbúningi og sorgarferli og í sögunni af Jakobi, sem birtist reyndar bæði undir heitinu „Orfeifur og Evridís í Þingholtunum“ og „Ástir samlyndra hjóna“, og bindur söguna við ákveðna grein og tegund skáldskapar, og gefur um leið til kynna hvert viðfangsefnið er. Hér fær þungi sorgarinnar gott rými, sem og harmur þess sem syrgir. Frásögnin af skáldinu Hermanni minnir aftur á móti á skálkasögu, sem er einmitt hugtak sem mér finnst að ég hafi heyrt ófáum sinnum hjá höfundi. H.M.S. Hermann er hálfgerð andhetja – í skilningnum klaufaleg and-hetja frekar en ill eða existensíalísk and-hetja – því hann er seinheppinn en þó nokkuð orðheppinn, og einkar lunkinn við að koma sér í undarlegar aðstæður. Þá birtast einnig í verkinu ýmiss konar textabrot, allt frá rapptextum til nútímaljóða. Ljósgildran er því skáldsaga í breiðustu merkingu þess orðs og nýtir sér fjöldann allan af ólíkum formgerðum og frásagnarháttum til að skapa eitt heildstætt verk.

Textatengslin liggja einnig undir yfirborði textans og í vísunum sem eru ekki svo augljósar, með þeim hætti að lesanda grunar sterklega að á vissum stöðum vinni höfundur með ákveðinn súbtexta þó að hann sé ekki endilega viss um hvaða verk það er. Þannig minnir lestrarupplifunin stundum á próf, ekki síst fyrir gamla bókmenntafræðinemendur, en ég er ekki viss um að ég hefði staðist það próf. Hverjir eru til dæmis þessir skrítnu fornsögulegu jötnar sem skjóta ítrekað upp kollinum? Á ég að þekkja þá? Hefnist mér núna fyrir að kunna ekki betur skil á evrópskum miðaldabókmenntum? Að því leyti hnippir verkið duglega í bókmenntafræðiheilann, sem er vel, og ber þess vitni að textinn er þétt ofinn, marglaga og margræður, sem á tungumáli bókmenntafræðinnar er merki um gæði og dýpt. Ég sé jafnvel fyrir mér að verkið gæti staðið undir námskeiði í Endurmenntun þar sem höfundur leiðir lesendur um hvern súbtexta fyrir sig, lýsir hvernig hann beitir honum og af hverju, og um öll verkin sem voru honum innblástur fyrir söguna. En þrátt fyrir að lesandi komi ekki auga á allar vísanirnar, geti greint þær nákvæmlega eða þá merkingarauka sem þær bera með sér, kemur það ekki í veg fyrir að hann geti notið lestrarins og fylgt frásögninni eftir.

 

Jakob og Hermann

Eins og áður sagði er metaþemað einnig að finna í persónum sögunnar því Ljósgildran er fyrst og fremst saga um skáld, en fleiri skáld koma við sögu en Hermann og Jakob þó að þeir séu í aðalhlutverki. Við fáum textabrot úr verkum þeirra en fylgjumst þó ekki með þeim glíma við skáldskapinn og skapa hann. Aftur á móti fylgjumst við með glímunni sem fylgir rithöfundarstarfinu, og við það sem liggur utan við skáldskapinn og skapar honum umgjörð; glímunni við bókmenntaheiminn, markaðinn, útgefendur, lesendur og önnur skáld. Við heyrum til dæmis af skáldasamkomu sem kallast „þrúgur gleðinnar“ (513) þar sem skáld eru pöruð með vínum. Eins er minnst á veruleika skálda og fræðimanna á þrettándanum á Íslandi sem getur verið æði kaldranalegur en þá er listamannalaunum úthlutað. Ljósgildran stendur þannig ansi nærri íslenskum veruleika, á köflum óþægilega nærri, og gerir tilraun til að spegla samfélagið og tíðarandann síðustu tíu til tuttugu ár. Íslensk pólitík og argaþras fá mikið rúm en tvær ansi fyrirferðarmiklar persónur minna á einstaklinga úr íslenskum samtíma og pólitík. Sagan af pólitíkusunum er satírukennd, írónísk og meinhæðin, og í frásögninni af loftslagsbreytingarandstæðingunum má greina predikun með öfugum formerkjum. Lesandi á að gera sér grein fyrir að hér sé skrifað af íróníu, hrista höfuðið og fussa og sveia yfir því hvað fólk, og þá sérstaklega gamalt fólk, getur verið vitlaust.

Sagan á sína bestu spretti í frásögninni af Jakobi og fjölskyldu hans, þar sem treginn, angurværðin, einlægnin og harmræn rómantíkin eru í hrópandi andstöðu við íróníuna, galgopaháttinn og jafnvel gróteskuna í sögunni um Hermann. Sagan af Jakobi er skrifuð af innsæi og fimi og með þeim hætti að lesandi gleymir stað og stund við lesturinn. Það tekur því á að þurfa að kveðja litlu fjölskylduna í Þingholtunum og ljúfsára angurværðina og henda sér út í satíru um pólitíkusa sem umfram allt eru kjánar. En þá er um að gera að fyrirgefa höfundi, lesa áfram og sjá hvert frásögnin færir okkur næst. Þannig geymir Ljósgildran í raun fleiri en eitt verk, verk sem gætu staðið ein og sér, en með því að blanda þeim saman skapar höfundur mósaíkmynd ólíkra frásagnarforma og vottar þannig bókmenntahefðinni virðingu sína.

 

Vera Knútsdóttir

 

Tilvísanir

[1] Guðni Elísson, „Vogun vinnur …: hvar liggja rætur íslenska fjármálahrunsins,“ Saga 2009, 47 (2), 117–146, 118.