Þau heilla mann upp úr skónum, börnin í nýja bekknum hennar Eyju (Iðunn Eldey Stefánsdóttir), þegar þau koma hlaupandi inn, syngjandi um besta dag í heimi þegar skólinn byrjar aftur eftir sumarfrí. Þetta er líka bekkurinn hans Rögnvaldar (Sigurður Sigurjónsson) en hann kemur ekki hlaupandi inn heldur staulast hann við staf, enda er hann 96 ára og langelstur í bekknum. Ég er auðvitað að tala um nýju sýninguna í Gaflaraleikhúsinu, Langelstur að eilífu, sem Björk Jakobsdóttir samdi upp úr vinsælum bókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur þar sem hún lætur hundgamlan mann sitja eftir áratugum saman í fyrsta bekk grunnskóla!
Þetta er vissulega fantasía en hún er staðsett í hversdagslegum veruleika og býður upp á óteljandi möguleika á fræðslu og skemmtun. Eyja er kvíðin að byrja í skóla þar sem hún þekkir engan og henni líst ekki alveg á blikuna þegar þessi fjörgamli maður sest hjá henni. En þau ná fljótt vel saman og smám saman læra þau að hafa gagn hvort af öðru. Hún býðst til að kenna honum listina að lesa (sem honum hefur ekki enn tekist að læra) og hann leyfir henni það gegn því að hún spjalli við einhvern krakka í bekknum fyrir hverja tvo stafi sem hann leggur á minnið. Þetta svínvirkar. Svo lærir hún alls konar orð og orða(til)tæki af honum sem eiga eftir að koma að góðum notum í framtíðinni.
Heima er Eyja einkabarn og foreldrum hennar (Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Ásgrímur Geir Logason) finnst ekki leiðinlegt að tilkynna henni að bráðum breytist það: í maí verði hún stórasystir! Eyja er ekki viss um að það verði neitt sérstakt en áður en til þess kemur verða aðrir stórir atburðir því að Rögnvaldur veikist. Þá einbeitir Eyja sér að því að gera síðustu daga þessa besta vinar síns þá skemmtilegustu á ævi hans og tekst það með prýði! Athafnasemin verður til þess að flýta fæðingunni en þá er líka allt fullkomnað: Líf og dauði í fagurri fléttu.
Sigurður Sigurjónsson naut sín vel í hlutverki sínu enda ekki óvanur því að leika sirka þrjátíu ár upp fyrir sig í aldri. Þau Iðunn Eldey urðu greinilega allrabestu vinir í heimi þarna á sviðinu. Iðunn er kvik í hreyfingum og einlæg í leik. Júlíana Sara var bráðhress mamma en gegndi líka gerólíku hlutverki kennarans. Það var dálítið ruglandi hvað Eva Björk Harðardóttir búningahönnuður og Diljá Pétursdóttir, höfundur leikgerva, höfðu tekið mikið mið af leikstjóranum við þá vinnu – við héldum að það væri Björk sjálf sem léki kennarann. Ásgrímur Geir brá sér í ýmis hlutverk auk pabba, var húsvörður í skólanum, jólasveinn, þjónn á veitingahúsi og meira að segja Einarína gamla, frænka Rögnvalds í sveitinni, sterkasta kona í heimi. Bekkjarsystkini Eyju voru hvert öðru fallegra, kvikara og hressara en þau sem ég sá voru Helga Karen Aðalsteinsdóttir, Kolbrún Helga Friðriksdóttir, Oktavía Gunnarsdóttir, Steinar Thor Stefánsson og Tómas Bjartur Skúlínuson.
Þetta er bráðskemmtileg sýning með fjörugum söngvum, skemmtilegum texta og fallegum boðskap. Sviðið var einfalt, pallur bakatil og tjald þar sem mátti bregða upp myndum, en leikmunirnir voru stórir hvítir bókstafir með svörtum útlínum sem mátti raða upp í hvað sem á þurfti að halda. Flottast var þegar úr þeim var búinn til bíll. Þetta var verk Bergrúnar, Bjarkar leikstjóra og Friðþjófs Þorsteinssonar sem líka sá um lýsinguna. Máni Svavarsson sá um tónlistina og samdi eyrnaormana sem börnin sungu en líka brast pabbi Eyju stundum út í þekkt dægurlög enda söngelskur maður. Danshöfundur er Chantelle Carey og var klók að sjá hvað mætti bjóða svona ungum börnum.
Þetta er yndisleg sýning, hlý, einlæg og skemmtileg.