Leiksýningarnar tvær sem ég sá um helgina voru býsna ólíkar. Ekki segi ég kannski að ég hafi farið öfganna á milli en ekki langt frá því. Á föstudagskvöldið sáum við hjónin Tilbrigði við stef eftir Strindberg og Þór Rögnvaldsson í salnum uppi í Iðnó. Í gær lá leiðin á Algjöran Sveppa eftir Gísla Rúnar Jónsson í Íslensku óperunni. Hvort tveggja voru skemmtilegar sýningar en svolítið eins og svart og hvítt.

,,Ástin er blekking”

Tilbrigði við stefÞór Rögnvaldsson og Inga Bjarnason leikstjóri hans eiga það sameiginlegt að hafa hrifist af einþáttungnum Hin sterkari eftir Strindberg. Það er ekki ófyrirsynju. Þetta er glannalega flott verk. Frú X kemur ljómandi af gleði inn á kaffihús á aðfangadag, búin að kaupa síðustu jólagjafirnar handa börnum og eiginmanni, og hittir þar óvænt vinkonu sína jómfrú Y. Frúin veður elginn, sýnir gjafir, brúðu og inniskó, og talar og talar um fjölskyldu sína, manninn sinn og samband þeirra við vinkonuna. Það er lengi vel þannig að hún tekur ekki eftir því að vinkonan er þögul, segir ekki orð, bregst bara við með svipbrigðum og hreyfingum. En í tali sínu miðju áttar frúin sig allt í einu á því að það sem hún er að segja merkir allt annað en hún hélt. Þegar hún dæsir yfir því hvað bóndi hennar hafi alltaf verið tregur til að taka á móti vinkonunni skilur hún skyndilega – kannski af þögn vinkonunnar – að þessu er þveröfugt farið. Maðurinn hennar er í raun og veru ástfanginn af vinkonunni. Örskamma stund þyrmir yfir frúna, en hún er ekki lengi að jafna sig. Í raun og veru er það samt hún sem er ofan á, það er hún sem á þennan mann, börnin og heimilið fallega, hvaða máli skiptir þá hvort hún á hjarta eiginmannsins eða ekki.

Lilja Þórisdóttir lék frú X af innlifun, og maður tók auðveldlega tilfinningasveiflur frúarinnar með henni: jólakætina, myrkur örvæntingar þegar sannleikurinn lýkst upp fyrir henni og Þórðargleðina þegar hún útmálar í lokin stöðu sína sem hin sterkari. Guðrún Þórðardóttir var jómfrúin og sveiflurnar í geði hennar sáust líka vel á andliti og fasi. Þetta var skínandi góð sýning á litlu meistarastykki, þó að hlutverkin séu að líkindum skrifuð fyrir nokkru yngri konur.

Við þetta stef Strindbergs semur Þór fjögur tilbrigði, tvö fyrir konur og tvö fyrir karla. Allar þær litlu sögur gerast í samtíma okkar og eiga sameiginlegt að vera einfaldari en upprunalega stefið. Það vantar snúninginn óvænta í þau sem gerir dýptina hjá Strindberg, þau urðu bara dapurlegar sögur af framhjáhaldi og svikum af öðru tagi sem skorti íróníska vídd. Æskuvinirnir X (Valgeir Skagfjörð) og Y (Gunnar Gunnsteinsson) hittast óvænt á kaffihúsi á aðfangadag og X segir sorgarsögu af konunni sem hann flutti með sér heim frá útlöndum og vinurinn stal frá honum. En Y yfirgaf konuna – eins og aðrar konur – og X bjargaði henni þar sem hún rambaði á barmi taugaáfalls. Nú hafa þau fundið hamingjuna aftur og hann finnur að hann er sterkari en kvennabósinn Y. Í fyrra tilbrigði kvennanna er Guðrún frú X sem hefur séð á eftir eiginmanninum í fangið á ungfrú Y og heldur yfir henni reiðilestur. Það fór Lilju ekki eins vel og Guðrúnu að sitja þögul, hún oflék nokkuð svipbrigðin – að minnsta kosti fyrir þá sem sátu næst sviðinu. Í síðara tilbrigði kvennanna er Lilja aftur frú X sem les systur sinni ungfrú Y pistilinn, og í fjórða og síðasta tilbrigðinu heldur Gunnar í hlutverki herra X langan lestur yfir mági sínum Y, heimsfrægum fiðluleikara, fyrir leti hans og drykkjuskap. Í lok þess þáttar lokar Þór verkinu með því að leyfa hinum þögla að taka til máls og orða þema heildarinnar: Ástin er ekki til. Ástin er blekking. Sá maður sem þannig sér í gegnum hlutina er líklega sá sterki … eða hvað?

Ég skil vel að einþáttungur Strindbergs veki löngun til að halda áfram með hann, en líklega hefði verið snjallara að hafa tilbrigðin færri og vanda þau meira. Vinna þau á dýptina og út úr fari einföldu sorglegu sögunnar. En það var gaman að horfa á þessa fjóra leikara sem eru svo sjaldséðir á sviðum landsins og sjá hvað þeir nutu sín vel í umhverfi sem var eins og sniðið fyrir sýninguna.

Birilli-barrilli-bí

Ekki veit ég hvernig hann Sverrir Þór Sverrisson – Sveppi – ætlar sér að leika tvær sýningar á dag af Algjörum Sveppa, þó það sé bara um helgar. Hann hoppar þvílíkt og hamast í tvo tíma á sviðinu að hann hlýtur að hríðhorast og hverfa á fáeinum vikum. Reyndar er sýningin of löng, best væri held ég að stytta hana þannig að hún kæmist fyrir á fimm korterum eins og hún var fram að hléi í gær, og sleppa hléi. Samt er ég ekki að kvarta, ég skemmti mér undir drep allan tímann, en ég er fullorðin, og maður fann hvað börnin voru orðin lúin i hléinu, alveg tilbúin að fara heim, að minnsta kosti þau yngstu.

Algjör Sveppi – Dagur í lífi stráksSýningin Algjör Sveppi – Dagur í lífi stráks er byggð á hálffertugri barnaplötu Gísla Rúnars þar sem hann rekur atvik í lífi stráks frá morgni til kvölds með innskotum af ýmsu tagi. Hann vaknar og vinnur sín morgunverk, fer í skólann, fer í flaututíma eftir skóla, til tannlæknis og í heimsókn til langafa Guðjóns og langömmu Gyðu, kemur heim, borðar og háttar. Engar stóruppákomur verða þennan dag sem þó er auðvitað einstakur og stórmerkilegur eins og allir dagar í lífi þróttmikils krakka. Sveppi átti ekki í neinum vandræðum með að gera nafna sinn fullkomlega töfrandi pjakk sem talaði við krakkana í salnum, sagði frá, söng og lék fjölbreytilegar uppákomur heima og heiman. Mótleikari hans á öllum vígstöðvum var Orri Huginn Ágústsson sem fór út um einar dyr sem sólin sjálf eða stóri bróðir fársjúkur af unglingaveiki og kom næstum samtímis inn um aðrar dyr sem rauðhærð mamma eða pabbi með brennt bindi og afrógreiðslu eða hálfsköllóttur tónlistarkennari í tíglóttri ullarpeysu, hvítklæddur draugur eða kolsvartklæddur Hósi hrekkjusvín, klósettvaskur með spegli eða slísí tannlæknir eða langamma sem einu sinni var fræg ballerína og brjálaði salinn úr hlátri þegar hún sveif í splitti yfir endilangt sviðið. Stundum bara skildi maður ekki hvernig hann gat skipt svona snöggt um föt og karakter; mætti segja mér að hann ætti eftir að léttast um nokkur kíló ekki síður en Sverrir Þór!

Rosalega skemmtilega búningana hannar Margrét Einarsdóttir, svo marga að sessunauti mínum tíu ára létti við að sjá í leikskránni að hún hefði haft Tinnu Aðalbjörnsdóttur sér til aðstoðar við það verk, auk þess sem Áslaug Dröfn Sigurðardóttir hannaði gervin. Jón Ólafsson stjórnaði tónlistinni sem var oftast fín en einstaka sinnum of hávær til að söngtextar nytu sín. Egill Ingibergsson sá um ljósin og dásamlegar teiknimyndirnar sem bættu miklu við leikinn og blönduðu oft skemmtilega saman teiknimynd og lifandi leikurum. Felix Bergsson hélt svo utan um allt saman styrkri hendi leikstjórans.

Þetta er dýrindis skemmtun, og mér segir svo hugur að henni verði ekki hætt fyrr en öll íslensk börn á réttum aldri verða búin að sjá hana. Svona í eftirskrift vil ég benda Sveppa á að æðurin (með einu n-i) fer ekkert burt í kvæðinu góða um vorið sem hann syngur svo glaðlega heldur fer hún að hreiðra um sig með blikanum sínum …

Silja Aðalsteinsdóttir