Suss!

„Stundum er heima best, en stundum er það líka verst,“ söng Guðmundur Ingi Þorvaldsson háum karlaróm, sitjandi á hlálega litlum stól uppi á barborðinu, þegar gestir komu á frumsýningu Suss! í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Stundum tóku meðleikarar hans undir og smám saman fékk hann fleiri og fleiri frumsýningargesti með sér í viðlagið: „Heimilisofbeldi er mannréttindabrot, við þurfum að laga það eins og skot!“

Suss! er heimildaleikrit, byggt á frásögnum tuga kvenna og karla um heimilisofbeldi, líkamlegt og ekki síður andlegt. RaTaTam-hópurinn hefur unnið að verkinu í þrjú ár, safnað sögum þolenda, gerenda og aðstandenda, hlustað, lesið, pælt, flokkað og ofið saman í leikverk. Það hefur áreiðanlega ekki alltaf verið ánægjuleg vinna en afraksturinn er ótrúlega gott, örvandi og ögrandi leikhús undir hugmyndaríkri stjórn Charlotte Bøving.

Sögurnar sem slíkar koma ekki á óvart. Við höfum öll heyrt þær í trúnaðarsamtölum, lesið þær í fréttum og viðtölum í dagblöðum og tímaritum, séð þær í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eða reynt þær persónulega. Við þekkjum munstrið: Hann var svo sætur, vildi allt fyrir mig gera, ég var alveg heilluð, en eftir að við fluttum saman þá … Styrkur og snilld þessarar leiksýningar er hvernig þau nota efnið og þar græða þau á því hvað sögurnar eru margar og þó að þær séu svipaðar eru engar tvær alveg eins. Þau kjósa að segja enga sögu frá upphafi til enda heldur skilja þær eftir á ólíkum stöðum og leyfa okkur að klára, þau vita sem er að við þekkjum þær nógu vel til þess. Oft geta þau látið nægja að tæpa á sögu til að við fáum hroll niður í hnésbætur. Þau nota líka öll brögð sviðsins til að skila efninu: einfalda, ágenga frásögn beint í andlit áhorfenda, leikin dramatísk atriði, grínsketsur, jafnvel með grímur. Í einu atriðinu voru notuð einkar frumleg hljóð í stað orða (og við vissum samt nákvæmlega hvað verið var að segja) og svo framvegis, aldrei dauð mínúta. Persónulega varð ég hrifnust af dansatriðunum og fallega táknræna leiknum með stóru blöðrurnar sem Guðmundur Ingi og Laufey Elíasdóttir klæddu sig í. Af sögunum óteljandi sem tæpt var á verður hún kannski lengst í minninu sú af konunni sem gat ekki hætt að hlæja þegar henni var tilkynnt lát manns síns – og afsökunin: Fyrirgefðu, ég er með svo leiðinlegan kæk …

Leikararnir unnu verk sitt af frábærri nákvæmni og innilegri meðlíðan sem þó var blessunarlega blönduð húmor. Auk áðurnefndra eru í hópnum Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir og Guðrún Bjarnadóttir; hvergi veikur hlekkur.

Öll vinnsla í kringum verkið var líka aðdáunarverð, tónlist Helga Svavars Helgasonar og ljósahönnun Arnars Ingvarssonar og Kristins Ágústssonar ýttu hæfilega undir áhrifin af sögunum. Þórunn María Jónsdóttir sá um leiksvið og búninga og var hvort tveggja vel hugsað og áhrifamikið. Húðlituð, aðþrengjandi nærfötin sem konurnar klæddust lögðu áherslu á umkomuleysi þeirra, slitinn bolurinn sem eini karlmaðurinn var í gerði það líka á sinn hátt. Á sviðinu er eins konar knúppur, gerður úr frítt standandi hurðum sem komu að gagni á hinn óvæntasta hátt, gátu orðið matborð og líkkista og allt þar á milli. Fallegast var þó hvernig dyrnar opnuðust í lokin og undirstrikuðu boðskapinn: „Við þurfum að laga það – eins og skot!“

Það er gleðilegt að verkið skuli eiga langt líf fyrir höndum á leikferðalögum um Norðurlönd. En áður en að þeim kemur vona ég að sem allra flestir leggi leið sína í Tjarnarbíó og sjái það þar. Við eigum líka að sinna Tjarnarbíó vel, þar er vaxtarbroddurinn í atvinnuleikhúsi Reykvíkinga.

Silja Aðalsteinsdóttir