Helga Arnalds brúðulistakona með meiru sýnir nú í kjallara Norræna hússins leikritið Skrímslið litla systir mín undir stjórn Charlotte Bøving sem líka samdi handritið með Helgu. Sagan sem hún segir er alltaf að gerast en er samt alltaf ný og aldrei alveg eins og vekur ævinlega jafnsterk viðbrögð hjá öllum viðkomandi: Barn eignast systkini.
Í þessu tilfelli er það drengur sem eignast systur. Hann bregst ekkert illa við í rauninni, honum finnst þetta bara óþarfi og getur ekki séð að fjölskyldan hafi nokkurt gagn af þessum hrínandi barnunga. Ekki batnar það þegar skrímslið litla systir beinlínis étur mömmu og pabba og stóribróðir þarf að leggjast í langferð til að bjarga þeim og skila þessu voðalega barni. Þó fer svo að þegar stóribróðir heldur að hann sé búinn að glata litlusystur þá reynast tilfinningar hans æði miklu flóknari – og heitari – en hann og áhorfendur höfðu reiknað með.
Helga notar margvísleg brögð til að koma þessari sögu yfir til ungra áhorfenda og þau horfa algerlega heilluð á hana teikna alla fjölskylduna á vegginn, vefja saman langar og breiðar pappírslengjur og búa til úr þeim manneskjur sem tala og gráta, rífa göt á pappír þangað til hann verður allt í einu konungshöll, tæta niður pappír og búa til dreka sem svífur um eða stórt alvöruskrímsli, rífa annað pappírslagið í tvöföldum vegg, lýsa í gegnum rifurnar og búa til skuggaleikhús, láta svo fingrabrúður tipla þar um. Þarna gerast kraftaverkin á hverri mínútu.
Allt umhverfið er líka töfrandi, búningur Helgu sem Eva Signý Berger hannaði, endalaus lögin af pappírsveggjum og tónlistin sem Eivør Pálsdóttir samdi og söng. Eftir sýninguna föndruðu börn og fylgdarmenn þeirra dreka sem flugu svo með þeim heim. Það eina sem félagi minn, tæplega fjögurra ára leikhúsunnandi, var óánægður með var að fá ekki leikskrá með sér heim – til að minnast …