Áhugaleikfélagið Hugleikur er þrítugt í ár og setur nú upp sína fertugustu sýningu í fullri lengd í Tjarnarbíó. Þetta er söngleikurinn Stund milli stríða eftir Þórunni Guðmundsdóttur, ekta hugleiksk skemmtun undir stjórn Jóns St. Kristjánssonar. Óhætt er að hvetja alla sem unna góðum söngtextum, áheyrilegum og söngvænum lögum og hnyttnu, sögulegu spéi til að drífa sig að sjá hann.
Ég hef elskað Hugleik síðan ég sá hann fyrst, og þó að ég hafi ekki séð nærri því allar sýningar hans (auk verka í fullri lengd hefur hann sett upp 158 smærri verk!) hef ég séð eins margar og ég hef komist á og oft komið út með þá hugsun efst í kollinum að sjaldan hafi ég skemmt mér betur. Svo var einnig í gærkvöldi, á annarri sýningu þessa söngleiks. Þvílíkt dillandi fjör og leikgleði, þvílíkir bragir, þvílík sönglög, þvílíkur söngur og grín!
Það er haustið 1932 í Reykjavík. Skólastjóri húsmæðraskólans í höfuðstaðnum, Magnea (Ásta Gísladóttir), hefur áhyggjur af minnkandi aðsókn vegna þess að æ færri hafa efni á að senda dætur sínar í skóla. Auk þess gerir matarskömmtunin það að verkum að erfitt er um aðdrætti til að kenna stúlkunum að búa til almennilegan mat og leyfa þeim að gera misheppnaðar tilraunir. En sjö stúlkur mæta samt, flestar utan af landi, sem gleður Reykjavíkurpiltana mjög. Enda blómstrar ástin – ævinlega við fyrstu snertingu mjúkrar handar! Mörg pör verða til þennan vetur og flest lukkuleg, Þó ekki öll. Fallegasta stúlkan – sem ,getur ekki heitið annað en Fríða‘ (Freydís Þrastardóttir) – lendir í klónum á þjóðernisfasistanum Atla (Steinþór Jasonarson), því auðvitað var uppgangur í röðum slíkra á fjórða áratugnum. Meira að segja Magnea sjálf verður fyrir örvum Amors úr algerlega óvæntri átt.
Þórunn sækir sér efni í fréttamiðla kreppuáranna, einkum Morgunblaðið og Alþýðublaðið, og notar Öldina okkar líka vel. Oft hélt maður að nú væri hún að flytja nútímann aftur í fortíðina en ævinlega reyndist það vera bein tilvitnun í gamlan texta sem var vísað til á tjaldi baksviðs. Samsvörunin milli þessa tíma og okkar krepputíma eftir hrun er furðulega mikil þó að fyrri kreppan væri miklu tilfinnanlegri. Þessi nútími í því sem gerðist þarna fyrir áttatíu árum vakti mikinn hlátur í salnum auk þess sem Þórunn er orðheppinn og fyndinn höfundur í eigin texta. Einkum fer hún á kostum í texta lögregluþjónanna Gunnars (Sigurður H. Pálsson) og Nóa (Stefán Geir Jónsson), sem voru hvor öðrum skoplegri í leik og söng, og frændsystkinanna Mörtu (Ninna Karla Katrínardóttir), Stínu (Erla Dóra Vogler) og Rúnars (Askur Kristjánsson). Samskipti námsmeyjanna Svanhvítar (Huld Óskarsdóttir) og Jónu (Hrafnhildur Þórólfsdóttir) voru líka morðfyndin. Yfir öllu batteríinu gnæfir svo gamla frú Björg, móðir Magneu skólastýru, sem Hulda B. Hákonardóttir leikur af gamalkunnum myndarskap.
Ég óska Hugleik til hamingju með þessa yndislegu sýningu. Hann bregst ekki fremur en fyrri daginn.