Ofurbarnfóstran Mary Poppins sviptist með austanvindinum inn á sviðið í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi í skrautsýningu sem varla hefur áður sést slík og þvílík hér á landi. Söngleikurinn sem Richard og Robert Sherman sömdu ásamt Cameron Mackintosh upp úr kvikmyndinni frá 1964 og bókum P.L. Travers um söguhetjuna krefst margra sviðslistamanna og mikillar tækni og Borgarleikhúsmenn komu af miklum metnaði á móts við þær kröfur.
Það er auðvelt að ímynda sér hvernig hugmyndin um Mary Poppins varð til. Alla foreldra dreymir einhvern tíma um að geta agað óþekk börn sín án ofbeldis og fengið þau til að gera allt sem þau eiga að gera gegnum leik og með gleði. Lífsregla Mary númer eitt, sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott, er ekki alveg samkvæmt nútíma rétthugsun sem segir okkur að forðast sykur en bækur Pamelu Lyndon Travers um kraftaverkakonuna eru frá því áður en hún varð allsráðandi. Serían kom út á ensku frá 1934 til 1988 og var geysivinsæl, líka hér á landi (frá 1962). Sjálfsagt mætti hnýta í fleira í boðskap verksins en athyglisvert var að sjá að ástæður íslenska hrunsins eru glögglega teiknaðar þar upp. Þar neitar Georg Banks (Halldór Gylfason), faðir barnanna og vinnuveitandi Mary Poppins (Jóhanna Vigdís Arnardóttir), vonda kapítalistanum Von Hussler (Þórir Sæmundsson) um bankalán af því að hann ætlar bara að láta peninga búa til peninga. Í staðinn veitir hann góða kapítalistanum Northbrook (Orri Huginn Ágústsson) lán af því hann ætlar að reisa verksmiðjur og veita fólki atvinnu. Samkeppnisbankinn sem lánar Von Hussler fer beina leið á hausinn, eins og við höfum reynslu af, en banki Georgs fær lánið endurgreitt með vöxtum frá Northbrook. Þessa einföldu grundvallarreglu hefðu íslensku bankaræningjarnir átt að kunna.
Systkinin Jane og Mikael Banks (á frumsýningu leikin af Rán Ragnarsdóttur og Gretti Valssyni) eru fyrirferðarmikil og fjörug börn, jafnvel óforskömmuð á stundum, og móðirin (Esther Talía Casey) ræður illa við þau. Hún hefur ráðið hverja barnfóstruna af annarri og í sögubyrjun er sú síðasta að gefast upp. Þá semja börnin auglýsingu þar sem þau lýsa sinni draumabarnfóstru en faðirinn rífur auglýsinguna í tætlur og hendir henni í eldinn. En við sjáum útundan okkur að rifrildin sogast upp í reykháfinn og eftir örskotsstund birtist ný barnfóstra á tröppunum með auglýsingu barnanna í höndunum í heilu lagi. Þannig er ljóst alveg frá upphafi að þetta er engin venjuleg barnapía.
Síðan tekur við hvert ævintýrið öðru litríkara. Upp úr galtómri tösku Mary Poppins birtast myndarlegt pálmatré, standlampi, fatastandur og yfirleitt hver sá hlutur sem hana vantar. Ekki var annað að sjá utan úr sal en að þetta væri fullkominn galdur. Þegar Mary finnst börnin fara illa með leikföngin sín lætur hún þau lifna við og fara með börnin eins og börnin fara með þau! Ekki er minna fjör á ferðum þegar hún fer með börnin út í borgina. Stytturnar í lystigarðinum lifna við og ævintýraverur dansa við lagið um orðið óskiljanlega sem er þó svo einstaklega nýtilegt: „Súperkallifragilistikexpíallídósum“. Best af öllu er þó þegar hún leyfir þeim að koma með sér upp á þak eftir að þau eiga að vera sofnuð og þau hitta súpersótarann Bert (Guðjón Davíð Karlsson) og allt hans lipra sótaralið sem dansar og sprellar á þökum Lundúnaborgar þegar skyggja fer. Mary Poppins heillar börnin og heimilisfólkið fer ekki varhluta af töfrum hennar, hjónin bæði, matseljan Brilla (Sigrún Edda Björnsdóttir) þótt treg sé og vikapilturinn Róbertson Æ (Sigurður Þór Óskarsson). Samt er Mary fremur hranaleg í tali og fasi og hreint engin elsku mamma. En ef við höldum að Mary sé skass þá er sú vitleysa leiðrétt með gömlu barnfóstrunni hans Georgs, henni Andreu (Margrét Eir), sem sýnir okkur hvernig virkileg sköss haga sér.
Sviðið er hannað af Petr Hloušek, það er gríðarlega áhrifamikið hvernig hann notar saman sviðsmynd og myndband til að stækka og dýpka, auk þess sem sviðið sjálft, hvort sem var innan dyra eða utan, var andskoti impónerandi! Hæðirnar þrjár í húsinu númer 17 við Kirsutrjárunn voru skínandi skemmtilegar, líka lystigarðurinn, heiðin þar sem flugdrekum er flogið og þó umfram allt Lundúnaþökin, allt var þetta svo vel hugsað og útfært að unun var að sjá. Búningana hannaði María Th. Ólafsdóttir og það hefur ekki verið áhlaupaverk því þeir skipta tugum og voru allir við hæfi og augnayndi. Hluti af sviðsmyndinni var svo dansinn, fjölbreyttur og hugkvæmur, sem Lee Proud bar ábyrgð á. Hann hefur unnið vel með leikurunum en átt léttari leik með Íslenska dansflokknum sem er prýði sýningarinnar. Það er ekki ónýtt fyrir Borgarleikhúsið að geta gengið að slíkum fagmönnum sem ekki veigra sér heldur við að leika og syngja ef þörf krefur. Tónlistin sjálf var svo undir stjórn Agnars Más Magnússonar sem var með fjölmenna hljómsveit beggja vegna sviðs. Það eina sem mætti finna að henni var að stundum yfirgnæfði hún söngtextana en það skánaði (sjá þó síðar) eftir hlé.
Söngleikurinn um Mary Poppins er fyrst og fremst sjónarspil þar sem umhverfið og tónlistin skiptir meginmáli en stakir leikarar minna máli. Þó er ekki samfelldur dans og söngur allan tímann; inn á milli eru rólegri atriði þar sem reyndi á leik og nærveru. Jóhanna Vigdís var glæsileg og röggsöm Mary Poppins og sópaði virkilega að henni hvað sem hún tók sér fyrir hendur á sviðinu – auk þess sem hún syngur afar vel. Jafningi hennar í hvívetna var Guðjón Davíð, leiðsögumaður okkar um verkið og smellpassar í það hlutverk, honum er svo eðlilegt að ná sambandi við áhorfendur. Hann syngur líka vel og hefur afar fallegar og skemmtilegar hreyfingar. Sigrúnu Eddu og Sigurði Þór varð furðumikið úr sínum hlutverkum, hvoru á sinn sérstaka hátt. Milliatriðin fyrir framan tjaldið meðan skipt var um svið, þegar Bert spjallar við fröken Lark (Hanna María Karlsdóttir) og sjóliðsforingjann (Theodór Júlíusson) voru ljúfar og velkomnar stundir milli stríða. Margrét Eir tók senuna af krafti í hlutverki Andreu en senan með fuglakonunni var einhvern veginn misheppnuð – sem er leitt af því það lag er einna fallegast í öllum söngleiknum. Börnin tvö, Rán og Grettir, stóðu sig kannski allra best, kunnu að vera fyndin á svipinn, fluttu texta sína þannig að hvert orð hljómaði sterkt og sáust aldrei detta út úr hlutverkum sínum.
Þýðing verksins er eftir Gísla Rúnar Jónsson og hún var alveg ágæt, betri þó í lausu máli en bundnu. Einstaka sinnum fékk maður dáldinn aulahroll við klúðurslegar hendingar í söngtextum og varð feginn að heyra þá ekki alla!
Svo rækilega var látið reyna á alla tæknigetu hússins að hún brást í miðjum síðari hálfleik og eftir á læddist að sumum grunur um að illa hefði getað farið. En þetta varð bara skemmtilegt hlé á sýningunni því Bergur Þór leikstjóri kom upp á svið og tók stjórnina af sínum alkunna sjarma þangað til allt komst í samt lag.