Maður kemur inn á sviðið með annan mann eins og hveitisekk yfir öxlina og losar sig við byrði sína ofan í baðkar á sviðinu Í kerinu er vatn sem maðurinn eys nú yfir þann sem situr í kerinu. Smám saman verður ljóst að sá sem í baðinu situr er leir sem maðurinn er að móta. Hann strýkur honum um höfuðið, býr til augu og nef, teiknar varir. Þegar hann er ánægður með sköpunarverkið tekur hann það úr baðinu, klippir utan af því fötin og fram stígur hin fegursta vera – fullkominn karlmaður.
Sýningin heitir In the beginning og er lokaverk Inga Hrafns Hilmarssonar við leiklistarskóla í London. Hann sýnir það núna á ArtFart í portinu í Hafnarhúsinu. Það er Ingi Hrafn sjálfur sem er skaparinn en leirinn í höndum hans er túlkaður af Kane Husbands. Efnið er sígilt: Þrá mannsins til að vera guð og geta skapað mann. En reynsla Inga Hrafns er söm og annarra sem það hafa reynt og tekist – skepnan snýst gegn skapara sínum. Það er spurningin bara hvernig skaparinn bregst við …
Þetta er bara hálftíma sýning og hún er mjög vel unnin og falleg, tónlistin heillandi, hreyfingar leikaranna þokkafullar, jafnvel þegar þeir takast harðast á. Einstaka sinnum gripu áhorfendur andann á lofti þegar átökin urðu mest. Næsta sýning er á menningarnótt kl. 20.30.