Mér skilst að það þyki ekkert svo voðalega undarleg árátta að safna skóm og ástæðan sé einkum sú að þetta sé ekki óalgengt. Sjálf hef ég ekki vott af þessari áráttu, á gjarnan eina hversdagsskó og eina spariskó (tvenna ef ég lendi í að kaupa skó sem eru ekki nógu þægilegir til að ganga í) og nota þá þangað til skósmiðurinn minn (sem er góður kunningi eftir ótal heimsóknir) gefst upp á þeim. Það verða ekki merkilegar sögur af svoleiðis skóm. En í gærkvöldi frumsýndi Svanlaug Jóhannsdóttir í Tjarnarbíó frumsamið verk sem hún kallar Í hennar sporum og segir þar sögur kvenna (aðallega) af minnisstæðum skóm.
Aðferð hennar er sú að byrja á að kynna viðkomandi skóeiganda til leiks, taka til skóna úr innsetningu á sviðinu og jafnvel fara í þá. Síðan fer hún í spor konunnar og segir frá með hennar orðum; verður viðkomandi manneskja meðan sagan er sögð. Á sviðinu er hringmyndaður pallur sem snýst, ofan á honum er áðurnefnd innsetning og þar og niðri á gólfinu segir Svanlaug söguna og syngur að lokum lag sem er á einhvern hátt viðeigandi fyrir sögu eða skóeiganda. Til hliðar við „hringsviðið“ stendur píanó sem Einar Bjartur Egilsson notaði til að skapa afar fjölbreyttan og skemmtilegan hljóðheim auk þess sem hann lék undir sönglögin. Hafliði Emil Barðason og Stefán Ingvar Vigfússon lýstu sýninguna fallega en Pálína Jónsdóttir leikstýrði.
Konurnar sem áttu skóna og sögurnar voru allar nafnkunnar. Meðal annarra sagði Hugrún Árnadóttir í KronKron frá því þegar hún missti legvatnið yfir glæsiskóna sína og hafði meiri áhyggjur af þeim en barnsfæðingunni. Eftir hennar frásögn söng Svanlaug „Gracias a la vida“ (Þökk sé þessu lífi) á spænsku svo að endurómaði í hjartanu. Herdís Egilsdóttir kennari Svanlaugar í Ísaksskóla var lifandi komin bæði á sviðinu og úti í sal og hún fékk lag sem hún hafði sjálf samið við ljóð eftir Davíð Stefánsson og látið nemendur sína syngja. Svanlaug tók fram að þetta væri líklega í fyrsta sinn sem lagið væri sungið af einhverjum eldri en átta ára. Bára Halldórsdóttir sagði söguna af erfiðum veikindum sínum sem komu þó ekki í veg fyrir að hún setti samfélagið á hvolf í vetur sem leið með snarræði sínu og dirfsku. Við fengum eina sögu af karli alla leið frá Úganda en síðasta sagan og sú langbesta var eftir Höllu Tómasdóttur frumkvöðul og forsetaframbjóðanda. Hún sagði okkur frá gríðarlega merkilegri ráðstefnu í Bandaríkjunum um konur í skapandi viðskiptum (ég vona að það sé rétt eftir haft) þar sem hún var meðal frummælenda en ræðunni hennar var hafnað nokkurn veginn á síðustu stundu. Hvað gerir maður þá? Það fáið þið að vita á sýningunni hennar Svanlaugar.
Hugmyndin að sýningunni er snjöll. Svanlaug er líka heillandi stúlka og frásögnin rann ágætlega þrátt fyrir svolítinn frumsýningaróstyrk. Söngurinn var yfirleitt fínn líka, þó fannst mér „Non, je ne regrette rien“ (Edith Piaff) ekki gera sig í lok frásagnar Vigdísar Finnbogadóttur. Stundum hefði farið vel að stytta sönginn og oft hefði Svanlaug mátt gefa meira í leik meðan hún söng. En þegar best tókst til lyfti tónlistin sýningunni; til dæmis fékk ég gæsahúð niður allan hrygginn þegar hún söng „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma“ meðan ljósameistararnir máluðu tjöldin í öllum regnbogans litum.