Sólbjört Sigurðardóttir sýndi einstaklingsverk sitt Grímu í Listaháskólanum um helgina. Leikstjóri og höfundur með henni er Gígja Hilmarsdóttir og þær stöllur sáu sjálfar um leikmyndina. Textann vinna þær úr samnefndri skáldsögu eftir Benný Sif Ísleifsdóttur (2018).

Sólbjört ræðst ekki í neitt smáverkefni að láta skipstjórafrúna Grímu lifna við í stuttu leikverki. Upprunalega verkið er 370 síðna skáldsaga sem meira og minna gerir einmitt það: sýnir okkur þessa stóru og flóknu persónu í öllu sínu veldi og frá ýmsum sjónarhornum. Gríma á ekki heima þar sem hún á heima en hún reynir af alefli að laga heiminn sinn að sér – því hvert getur hún farið?

Sagan gerist á tæplega tuttugu ára tímabili en leikverkið lætur sér nægja fyrri hluta þess og kjólarnir hennar Grímu sýna vel að við erum stödd á sjötta áratugnum. Við hittum Grímu (Sólbjört Sigurðardóttir) á heimili hennar, í glæsilegu skipstjórahúsi austur á fjörðum, og hún lýsir því fyrir okkur hvað hún sé hamingjusöm: allt hafi hún eignast sem hún þráði. Þegar maður hennar Maríus (Nikulás Hansen Daðason) lítur við heima milli túra er framan af hlýtt á milli þeirra og ástleitið en það súrnar smám saman. Við skynjum að það eru maðkar í mysunni, Gríma er ekki einlæg og henni er fjarri því eins rótt og hún lætur. Skáldsagan er margradda en í leikverkinu heyrum við bara eina rödd og Gríma er ekkert á því að gefa okkur beint þær upplýsingar að hún sé ófyrirleitin og gráðug og hafi gengið á hlut annarra á leið sinni þangað sem hún er nú. Sú vitneskja er gefin í skyn með svipbrigðum, fasi og hálfkveðnum vísum og það var verulega vel gert, bæði textaúrvinnslan og ekki síður leikur Sólbjartar. Hlutverk Nikulásar var minna en hann vann það sömuleiðis vel og auðvelt var að sjá hvert stefndi í hjónabandinu.

Það er verulega gefandi og skemmtilegt að sjá hvernig eitt listaverk getur orðið efni í annað allt öðruvísi og komið sömu skilaboðum áleiðis með sínum eigin aferðum

Silja Aðalsteinsdóttir