Takið nú eftir, áhugamenn um úrvals barnasýningar: Leikfélag Mosfellssveitar og leikfélagið Miðnætti eru að sýna Skilaboðaskjóðuna eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson alla sunnudaga næstu vikur. Þetta er eldfjörug sýning og falleg ásýndum enda sama fólk sem að henni stendur og minnisstæðri verðlaunauppsetningu á Ronju ræningjadóttur 2014, leikstjórinn Agnes Wild, tónlistarstjórinn Sigrún Harðardóttir sem hefur Flemming Viðar Valmundsson með sér, og leikmyndar- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir.
Söguna er óþarft að rifja upp en of freistandi til að sleppa því. Dreitli skógardvergi (María Ólafsdóttir) verður það á að segja Putta litla (Haukur Helgi Högnason), syni Möddumömmu saumakonu (Nanna Vilhelmsdóttir) frá nátttröllinu voðalega (Óskar Þór Hauksson). Putti fyllist óviðráðanlegri löngun til að koma nátttröllinu fyrir kattarnef, hann langar svo til að draga úr hryllingi ævintýranna, og í þessu skyni laumast hann út að næturlagi þegar Maddamamma er sofnuð. Í nóttinni hittir hann alls konar illþýði, úlfinn (Ísak Líndal), nornina (Ásdís Magnea Erlendsdóttir) og vondu stjúpuna (Guðný Guðmundsdóttir) sem stilla sig öll um að éta hann – úlfurinn stelur að vísu nestinu hans. En þegar Putti hittir nátttröllið er enga miskunn að finna og það tekur Putta með sér upp í Tröllafjall. Snigill njósnadvergur (Brynja Sigurðardóttir) eltir tröllið og heyrir orðalykilinn sem opnar fjallið og eftir það hefst æðislegt kapphlaup (næstum því) allra persóna ævintýraskógarins til að bjarga Putta fyrir sólarlag. Þar gerir gæfumuninn sjálf skilaboðaskjóðan sem Skemill uppfinningadvergur (Axel Pétur Ólafsson) fann upp til að styrkja stálminni Dreitils en kemur að óvæntum notum þegar illþýðið vill ekki vera með í að æpa orðalykilinn.
Aðalsmerki þessar verks eru litríkar og skemmtilegar persónur, eins og Arnmundur félagi minn (átta ára, bráðum níu) benti á. Allar helstu persónurnar fá sinn einkennissöng og hefur hver sinn stíl eins og viðeigandi er. Ég fékk gæsahúð niður allt bak þegar dvergarnir sungu sinn uppáhaldssöng: „En best finnst okkur bara að vera dvergar …“ Illþýðið er soldið djassað, Maddamamma íhugul og móðurleg, söngur Rauðhettu er í senn fyndinn og ljóðrænn og Agnes Emma Sigurðardóttir söng hann mjög vel. Söngtextarnir eru svo hnyttnir að maður skellir upp úr hvað eftir annað, þar átti Þorvaldur ekki marga jafningja. Hljómsveitin var prýðileg og passaði sig vel að yfirgnæfa ekki textann.
Sviðið er sniðugt, ekkert eftir af raunsæi myndanna í bókinni heldur allt ævintýralega stílfært. Trén í skóginum eru framandi í hæsta máta og þar að auki hreyfanleg. Það var góð lausn á litlu sviði að láta hópinn þramma á staðnum á leið upp í Tröllafjall en trén fara á fleygiferð framhjá hópnum. Búningar eru allir litríkir en hugsaðir fyrir hverja persónu fyrir sig og margir einstaklega vel heppnaðir, ég nefni sérstaklega búning Möddumömmu, úlfsins og raunar allra óvættanna. Nátttröllið var svo kapítuli út af fyrir sig og flott þegar það varð að steini.
Leikurinn var alltaf ástríðufullur en eðlilega misjafn, sýningin naut þó nokkurra reynslubolta, til dæmis Maríu sem heillaði áhorfendur í hlutverki Ronju á hittifyrra, Nönnu Vilhelmsdóttur og Dóru Wild sem er skynsemin uppmáluð í hlutverki Stóra dvergs. Elísa Sif Hermannsdóttir var líka fjári góð í hlutverki hins óáreiðanlega Litla dvergs og allt illþýðið naut sín í botn. Sýningin í dag var frumsýning Hauks Helga í hlutverki Putta og mér fannst hann standa sig aðdáunarlega vel.
Við hin eldri vorum á því að þetta væri mjög skemmtileg sýning en þeim yngsta, Aðalsteini fimm ára, næstum sex, fannst við eitthvað mélkisuleg í yfirlýsingum og tók af skarið: „Mér fannst ROSALEGA gaman á þessari sýningu,“ tilkynnti hann háum rómi og ég tek heils hugar undir það.