Kjartan Ragnarsson, einn af aðstandendum Landnámsseturs í Borgarnesi, sagði eftir frumsýninguna á Skálmöld í gærkvöldi að Einar Kárason væri eins konar húsköttur þeirra á Söguloftinu, hann væri búinn að vera með svo margar sýningar þar. Og miðað við nýju sýninguna er ekkert undarlegt við vinsældir Einars á staðnum. Hann er fantagóður sögumaður, hefur yndi af að rekja dramatíska viðburði, treina hápunktana, skjótast út í hliðarsögur til að krækja í skemmtilegt sjónarhorn eða bara eitthvað skemmtilegt, breyta um takt og tón þegar hann skiptir um persónur.
Sagan sem hann sagði í gærkvöldi var úr nýju bókinni hans, Skálmöld, sem er í senn endir og upphaf Sturlungufjórleiks hans. Þar segir frá uppgangi Sturlu Sighvatssonar, stríði þeirra feðga við bæklaða biskupinn Guðmund góða sem lýkur með Rómarferð Sturlu til að fá fyrirgefningu páfa, sókn Sturlu til meiri valda þegar heim kemur og loks endalokum hans og þeirra feðga í Örlygsstaðabardaga. Þetta er svakaleg saga með mörgum persónum og stórkarlalegum atburðum. Mikil karlmannasaga sem Einar leyfir þó mörgum konum að taka þátt í, þeirra helstum Steinvöru Sighvatsdóttur, Halldóru Tumadóttur, Sólveigu Sæmundardóttur og Þórdísi Snorradóttur. Að þessu sinni hefur Einar dóttur sína Júlíu Margréti með sér á Söguloftinu til að leyfa röddum kvennanna að heyrast betur og það var einkar vel til fundið. Júlía Margrét hefur sömu kosti og faðir hennar, segir vel frá og eðlilega, þau voru eins og fiskar í vatni þarna á loftinu, feðginin, þó að stöku sinnum brygði fyrir svolitlum frumsýningarskrekk.
Saga Einars, Skálmöld, er að sjálfsögðu allt of löng til að segja hana á einu kvöldi og Einar hefur valið úr bæði atburðum og sögumönnum til að gefa sem heillegasta mynd þrátt fyrir miklar styttingar. Við fáum glögga mynd af heimilislífinu á Grund þegar börnin eru að vaxa upp; Sighvatur og Sturla segja okkur sína sterku karlmannlegu hlið, Steinvör skyggir þá mynd og skekkir hana: það var ekki alltaf líf og fjör og sigurvissa, báðir áttu þeir til að detta í þunglyndi, gefast hreinlega upp, feðgarnir, þegar á móti blés. Þessu kom Steinvör til skila á nettan hátt með því að taka fram að faðir sinn hefði „klætt sig“ þegar birti til. Með því gefur hún í skyn að hann hafi verið rúmliggjandi í niðurtúrnum. Steinvör leggst ekki út af þó móti blási, ekki frekar en Halldóra móðir hennar. Því miður er Sólveigu og Þórdísi sleppt í sýningunni en Júlía Margrét fékk líka að fara með texta Tuma yngri Sighvatssonar. Það er hann sem segir okkur frá Apavatnsför Sturlu þegar hann tók Gissur Þorvaldsson til fanga og Tumi litli er barnslega sár út í Gissur fyrir að hlýða ekki Sturlu, stóra bróður sem drengurinn tilbiður, og fara úr landi. Hann segir okkur líka frá sjálfum Örlygsstaðabardaga – við sjáum hann með augum drengsins sem missir þar föður sinn og alla bræður sem tóku þátt í bardaganum. Maður er verulega sleginn í sögulok.
En bræðurnir eru ekki allir dauðir. Einn er eftir ódauður og á hann minnti Einar í lokin. Og þá er komið að Óvinafagnaði, fyrstu sögunni í Sturlunguhring Einars.
Einar naut þess betur að fara með frásagnir Sighvats en Sturlu, og ekki síst naut hann þess að fara með texta kapellánsins sem segir frá Grímseyjarför þeirra feðga frá sjónarhóli biskupsmanna. Hann hægði á talinu og hljómur raddarinnar varð annar eins og hæfði bæði persónu og söguefni. Allt í allt var þetta frábær stund og minnti enn á þá einföldu staðreynd að ekkert er eins skemmtilegt og að láta segja sér spennandi sögu.