Tjarnarbíó býður um þessar mundir listamönnum í borginni fín tækifæri til að sýna eigin verk við góðar aðstæður – í vel búnu leikhúsi með góðum sætum fyrir gesti. Það er gaman að koma í húsið, jafnvel þótt maður sé ekki á leið í leikhús, þar er veitingasala með mat og drykk og góður andi eins og þarf til að hæna fólk að. Þarna var fyrsta frumsýning leikársins 2014–2015 í gærkvöldi þegar Arnar Dan Kristjánsson frumsýndi einþáttung sinn Landsliðið á línu ásamt Báru Gísladóttur sem sá um lifandi leikhljóð á sviðinu.
Sjómannslífið var löngum dásamað í dægurlagatextum, kannski alveg fram að „Síðustu sjóferðinni“ hans Þorsteins Eggertssonar og „Mb Rosanum“ hans Tolla. En í öðrum listrænum afurðum, bókmenntum, leikverkum og kvikmyndum, er líklega algengara að sýna það í miður hagstæðu ljósi. Bíómyndin Brim kemur upp í hugann, leikritið Landkrabbinn eftir Ragnar Arnalds, Þetta eru asnar, Guðjón eftir Einar Kárason og smásögur eftir ýmsa, m.a. Bubba Morthens í Tímariti Máls og menningar í fyrra. Arnar Dan segir í Landsliðinu á línu sögu ungs manns sem fer í sína fyrstu sjóferð á bát frá Grindavík. Það verður ekki þægilegt ferðalag þó að drengurinn sé ekki sjóveikur og geri allt sem hann getur til að koma sér vel við félaga sína um borð. Kannski er hann of þægilegur; kannski finna þeir hræðslulyktina af honum og það espar þá upp. Ekki gerist þó neitt beinlínis en smám saman verður undirliggjandi ógnin honum ofviða.
Leikmyndin er hönnuð af Sigríði Soffíu Hafliðadóttur og gerð úr ótal brettum sem staflað er í misháa hlaða. Til að skipta milli atriða í verkinu flutti Arnar til bretti, bjó til messann með því að gera lágan og breiðan bekk og káetu með því að búa til efri koju með fínni brellu. Þegar hann bar vistir um borð hljóp hann léttfættur eftir misháum hlöðunum en við aðgerð stóð hann efst uppi á hæsta hlaðanum, tók á móti aflanum af línunni og blóðgaði fiskinn. Þetta var vel hugsað og skapaði eðlilega hreyfingu á sviðinu sem oft er snúið þegar leikarinn er bara einn. Ljósahönnun Arnars og Kristins Ágústssonar lék líka vel með. Og undir spilaði Bára á kontrabassa og náði út úr honum svo fjölbreyttum hljóðum að undrum sætti – hann hraut, hann brakaði, ískraði og drundi, hann sló þungum slætti.
Arnar Dan er nýlega útskrifaður leikari og hefur því ekki langa sviðsreynslu en hann er myndarlegur ungur maður og minnisstæður bæði sem Þeseifur/Óberon í Draumi á Jónsmessunótt í Nemendaleikhúsinu vorið 2013 og eftirlitsmaðurinn í Refnum í Borgarleikhúsinu sama haust. Landsliðið á línu er að mörgu leyti vel hugsað hjá honum enda hefur hann reynslu af sjómennsku og lengi haft þetta verk í huga. Það er mjög stutt, varla nema 45 mínútur á frumsýningu, og gerir miklar kröfur til áhorfenda að þeir skilji hálfkveðnar vísur. Hugsanlega er það orðið of tálgað, alltént áttum við hjónin langt samtal um hvað hafi í raun og veru átt sér stað um borð, bæði fyrir ferð drengsins, sem vísað er til á ýmsan hátt, og í henni. Hvers konar ofbeldi viðgengst þar undir þögn kallsins í brúnni? Arnar leikstýrir verki sínu sjálfur – ef til vill hefur hann verið of grimmur í styttingunum (í viðtali í Morgunblaðinu á föstudag segir að sýningin taki 70 mínútur) af því hvað hann þekkir það vel. Við hefðum sem áhorfendur a.m.k. alveg þolað meira.